Skip to content

Æviágrip

Ég er fæddur í Vestmannaeyjum í miðri heimsstyrjöldinni síðari, 1942, tveimur árum áður en landið varð lýðveldi. Ég tel mig vera lýðveldisbarn. Foreldrahús mitt var að mestu í Reykjavík, í Vogahverfinu. Ég ólst upp sem venjulegur krakki, fór mörg sumur í sveit, varð svo sendill með rukkaratösku um öxl. Þá voru gíróseðlar, rafbankar og allt slíkt óþekkt. Unglingsárin vann ég í byggingarvinnu á sumrin. Skólagangan gekk vel og sína beinu braut. Ég varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1962.

Ég nam stærðfræði í háskólunum í Göttingen og München og við MIT í Bandaríkjunum. Þaðan lauk ég doktorsprófi 1971. Heimkominn frá námi réðst ég til Háskóla Íslands og starfaði þar í tvo áratugi, 1971-91, sem háskólakennari en líka forstöðumaður rannsóknarstofnana. Síðast var ég prófessor í reiknifræði. Ég var kallaður til að vera faglegur aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra 1991-1993. Ég var settur ráðuneytisstjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytum 1993-96 í fjarveru hins skipaða ráðuneytisstjóra. Næsta áratuginn rúman, 1996-2007, var ég orkumálastjóri, sem er embættisheiti forstöðumanns Orkustofnunar. Ég hætti sem slíkur vegna veikinda konu minnar. Síðustu árin hef ég verið í hlutastarfi á skrifstofu Alþingis einkum í ráðgjöf við landskjörstjórn í sambandi við framkvæmd kosninga. Að sjálfsögðu hef ég tekið mér leyfi frá þeim störfum nú þegar ég er í framboði.

Starf mitt við Háskóla Íslands leiddi fljótlega til þess að ég var kallaður til ráðgjafar og útreikninga á mörgum sviðum fyrir opinbera aðila svo sem í skattamálum, fiskveiðistjórnun  og þó einkum í kosningamálum.

Ég kynntist konuefni mínu, Helgu Ingólfsdóttur, strax við fermingu og við felldum hugi saman þegar á menntaskólaárunum. Við vorum rétt rúmlega tvítug þegar við giftumst og héldum beina leið til Þýskalands, ég í stærðfræðinám, hún í tónlistarnám. Hún var fyrsti Íslendingurinn til að læra á sembal, sem er gamalt hljómborðshljóðfæri. Þegar heim kom bjuggum við á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu en lengst af á Álftanesi þar sem ég bý enn. Helga lést í október 2009 eftir langvinn veikindi. Okkur var ekki barna auðið.

Aðaláhugamál mitt er tónlist, klassísk tónlist; á dægurtónlist hef ég lítið vit! Helga, kona mín, stofnaði og veitti Sumartónleikum í Skálholtskirkju forstöðu í 30 sumur. Ég reyndi að vera henni til halds og traust í þeim efnum. Ég og fleiri sem komu að starfi Helgu hafa stofnað um hana minningarsjóð til styrktar drottningu listanna, tónlistinni. Þótt ég sé ekki menntaður í tónlist hef ég komið víða við sögu í tónlistarmálum og var t.d. stjórnarformaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands um átta ára skeið.

Nú sit ég sem ekkjumaður á Álftanesi, við góða heilsu, þannig að ég get einhent mér í það viðfangsefni sem ég hefur lengi verið mér hugleikið, að vinna með góðu fólki að bættum grundvelli undir tilvist þjóðarinnar, stjórnarskrá fyrir lýðveldið. Við, lýðveldisbörnin, skuldum það þeim sem landið erfa.

Starfinu í stjórnlagaráði lauk formlega í lok júlí 2011, en nú tekur við eftirfylgni málsins! Ég sit því við skriftir! Við verðum að fá endurbætta stjórnarskrá.

Ég hef kynnst þýskri konu, Henriettu Griebel sem hefur misst maka sinn eins og ég. Við höfum fellt hugi saman og frá sumrinu 2011 höfum við búið ýmist í München eða á Álftanesi.