Ný stjórnarskrá: Persónur í boði
[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 19. ágúst 2011, en þá með rangri töflu]
Haldið verður áfram að fjalla um fyrirkomulag kosninga til Alþingis eins og það er í tillögum stjórnlagaráðs. Nú verður rætt um persónukjörsþátt tillagnanna.
Frambjóðendur eða flokkar
Kosningakerfi má draga í dilka eftir því hvort boðnir eru fram einstaklingar eða flokkslistar. Hið fyrra er meginreglan í enskumælandi löndum en hið síðara á Norðurlöndum og í hinum þýskumælandi heimi. Þróun hefur verið í þá átt að leyfa kjósendum að hafa aukin áhrif á það hvaða frambjóðendur veljast til þingsetu, þótt á listum séu. Slíkt er til hægðarauka nefnt persónukjör, en getur þó verið af ýmsu tagi. Stjórnlagaráð leggur til allróttæka útfærslu á persónukjöri.
Eins og verið hefur skulu frambjóðendur sitja á listum í nafni stjórnmálasamtaka. Því er ekki um eiginleg einstaklingsframboð að ræða, en frambjóðendur utan flokka gætu þó boðið sig fram undir merkjum lausbeislaðra samtaka. Það er meðal nýmæla í tillögum stjórnlagaráðs að einu gildir hvernig frambjóðendunum er raðað á lista. Röðin hefur engin bein áhrif á hverjir hljóta þau þingsæti sem koma í hlut listans. Kjósendur fá öllu um það ráðið með merkingum sínum.
Hlutverk flokkanna í framboðsmálum er að velja þá einstaklinga sem þeir vilja bjóða kjósendum til þingsetu. Tillögur stjórnlagaráðs segja ekkert um það hvernig val flokkanna fer fram. Ekki er heldur kveðið á um það hvernig nöfnum skuli skipað á listana. T.d. mætti stilla upp með „fléttufyrirkomulagi“, konum og körlum til skiptis. Uppstillingin er þó kjósendum aðeins til fróðleiks, hún veitir engum frambjóðanda forskot umfram annan.
Hvernig á að kjósa?
Samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs getur kjósandi valið sér lista með krossi, allt eins og verið hefur. Geri hann það hefur hann fullnýtt atkvæði sitt en um leið gefið þau fyrirmæli að hann leggi alla frambjóðendur listans að jöfnu, eins og fjallað var um í síðasta pistli. Kjósandinn getur hins vegar beitt sér með þeim hætti að velja einstaka frambjóðendur, einn eða fleiri. Þeir mega hvort sem heldur er vera af kjördæmislistum eða af landslistum. Stjórnlagaráð felur Alþingi að kveða á um það í kosningalögum hve víðtækt þetta valfrelsi skal vera. Grunngerðin mælir fyrir um algert frelsi, að kjósendum standi allir frambjóðendur til boða, hvort sem þeir eru innan kjördæmis kjósandans eða á landslistum. Í lögum má þó þrengja valið og takmarka það við lista sömu samtaka. Í eftirfarandi lýsingu er gert ráð fyrir að þrengingarákvæðinu sé ekki beitt, að það megi velja þvert á flokka.
Krossar eða röðun
Í stjórnarskrártillögunum er ekki mælt fyrir um það hvernig kjósendur merkja við þá einstaklinga sem þeir vilja velja, hvort það er með einföldum krossum, raðtölum eða með öðrum hætti. Alþingi er eftirlátið að ákveða þetta. Á kjörseðlinum sem hér er sýndur er gert ráð fyrir að valið fari fram með krossum. Kjósandi hefur krossað við þrjá frambjóðendur sem eru í tvennum ólíkum samtökum. Leyfi Alþingi ekki val þvert á flokka er þessi seðill ógildur. Sleppi kjósandinn því að merkja við Ríkharð hjá Y-samtökunum er hann þó góður og gildur.
Aðalatriði vantar enn í þessa lýsingu á kosningakerfi að tillögu stjórnlagaráðs. Það er hvernig atkvæði eru talin, hvernig krossar breytast í atkvæði og hverjir ná þannig kjöri. Frá þessu verður greint í næsta pistli.
Comments are closed.