Ný stjórnarskrá: Atkvæði skapa þingmenn
[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 26. ágúst 2011. Þar þurfti að leiðrétta mistök sem voru í pistli næst á undan. Hér þarf þess ekki og breytist textinn nokkuð í samræmi við það.]
Áfram verður fjallað um fyrirkomulag kosninga til Alþingis eins og það er samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs. Nú verður rætt um úthlutun þingsæta. Minnt skal á frá fyrri pistlum að gert er ráð fyrir að kjósendur geti valið frambjóðendur af listum fleiri en eins flokks. Alþingi er þó heimilt að einskorða valmöguleikana við lista sama flokks.
Hvernig er talið?
Atkvæði eru ýmist greidd listum eða einstökum frambjóðendum. Tillögurnar segja vísvitandi harla lítið um uppgjörið, talninguna. Það má útfæra á ýmsa vegu í kosningalögum. Þó er atkvæðastyrkur hvers frambjóðanda lagður til grundvallar. Hafi kjósandi merkt við lista deilist stuðningur hans jafnt á alla frambjóðendur listans. Hafi hann merkt við einstaka menn skiptist atkvæðið milli þeirra sem hann hefur valið. Sú skipting þarf ekki að vera í jöfnum mæli. Lögin gætu mælt fyrir um forgangsröðun, en þá yrði vægið breytilegt. Lýsingin verður þó einfaldari ef notaðir eru jafngildir krossar, sbr. fyrri myndina sem hér fylgir. Af þeim kjörseðli fengju þau Hreiðar, Ríkharður og Anna þriðjung úr atkvæði hvert. Annar kjósandi sem merkti einvörðungu við Z-kjördæmislista íþróttamanna (eins og sýnt var í næstsíðast pistli) væri að skipta atkvæði sínu milli þeirra tveggja sem eru á þeim lista, Hreiðars og Ingu
Atkvæðabrot hvers frambjóðenda eru lögð saman og mynda heildaratkvæðatölu þeirra. Hreiðar er kominn með 1/3+1/2 atkvæða af þeim tveimur seðlum sem nefndir hafa verið til sögunnar, en Inga 1/2 atkvæði og Ríkharður og Anna 1/3 atkvæðis hvort. Auðvelt að finna heildaratkvæðatölu hvers flokks. Hún er einfaldlega summan af atkvæðatölum allra frambjóðenda flokksins, á hvaða lista sem þeir kunna að standa.
Huga verður að tvennu: Að flokkarnir fái þingsæti í fullu samræmi við heildaratkvæðatölu eða að þeir frambjóðendur hljóti sæti sem mest fylgi hafa. Sé beitt krossum, eins og í því dæmi sem notað er í þessari pistlasyrpu, næst flokkajöfnuðurinn að fullu og frambjóðendur hljóta sæti í samræmi við fylgi þeirra meðal kjósenda viðkomandi flokks. En markmiðunum má líka ná með öðrum aðferðum, t.d. þeirri sem beitt var við stjórnlagaþingskosninguna.
Miðað við krossaleiðina er þingsætum fyrst skipt hlutfallslega milli samtaka (flokka) út frá heildaratkvæðatölum. Síðan er sætunum útdeilt innbyrðis til frambjóðenda hverra samtaka út frá atkvæðastyrk hvers og eins. Tafla með ímynduðum atkvæðatölum samtakanna tveggja, Y og Z, sýnir framgangsmátann. Gert er ráð fyrir að landinu sé einungis skipt í tvö kjördæmi (AV og NS) auk landslista.
Heildaratkvæðatölurnar, 3.500 hjá Y og 6.000 hjá Z, gætu hæglega gefið Z tvö sæti en Y eitt. Y-sætið færi bersýnilega til Ríkharðs sem er atkvæðaríkari en Jakobína. Fyrra Z-sætið færi til Önnu, sem er vel að því komin, en það seinna til Þóru, enda er hún með næstflest atkvæði innan Z-samtakanna. Þóra kæmist því á þing þótt hún hafi færri atkvæði en Jakobína, enda í sitt hvorum samtökunum.
Fleira þarf til
Í lokapistilli um kosningakerfið verður sagt frá vissri vernd fyrir kjördæmin og fjallað um kynjajöfnun, ásamt því sem mörgum kann að brenna í brjósti: Hví þingsætatalan er óbreytt, 63.
Comments are closed.