Skip to content

Ný stjórnarskrá: Þurfum við 63 þingmenn?

Höfundur: Þorkell Helgason, September 2nd, 2011

[Birtist upphaflega í Fréttatímanum  2. september 2011]

Þetta er lokapistill í syrpu um fyrirkomulag kosninga til Alþingis eins og það er í tillögum stjórnlagaráðs.

Kjördæmavörn

Eins og lýst hefur verið í fyrri pistlum fer stjórnlagaráðið meðalveg milli þess að kosið sé á landsvísu og þess að skipta landinu upp í kjördæmi. Einkum er nýstárlegt að tala kjördæmissæta er ekki fyrirskrifuð. Þar sem frambjóðendur geta sótt stuðning út fyrir sitt kjördæmi kunna kjördæmi með vinsæla frambjóðendur að fá fleiri sæti en svarar til íbúatölu þeirra. En vitaskuld getur líka hið öndverða gerst, að kjördæmi sitji uppi með full fáa þingmenn. Undir þann leka er sett í tillögum stjórnlagaráðs. Í kosningalögum má kveða á um að binda megi 30 af sætunum 63 við kjördæmi til að tryggja lágmarkstölu þingmanna í hverju þeirra. Vissulega er þetta fegurðargalli á annars einföldu kerfi sem mun gera texta kosningalaga nokkru flóknari en ella væri. Tillit til margþættra sjónarmiða og hagsmuna kallar ávallt á snúnar lausnir. Á hinn bóginn er þess vænst að nánast aldrei muni reyna á þessa kjördæmavörn og úthlutun sæta til hinna atkvæðamestu því ekki raskast af þeim sökum.

Konur á þing!

Eðlilega er það ríkt sjónarmið að fulltrúaþing séu í sem jöfnustum mæli skipuð konum og körlum. Undir þetta er tekið í tillögum ráðsins að stjórnarskrá þar sem segir að „í kosningalögum skal mælt fyrir um hvernig stuðla skuli að sem jöfnustu hlutfalli kvenna og karla á Alþingi.“ Bent er á nokkrar leiðir í þessu skyni í skýringum með frumvarpi ráðsins, svo sem að kveða megi á um að ámóta margar konur og karlar séu á listum, að listum sé stillt up sem fléttulistum eða að við úthlutun sæta skuli tryggt „að hlutföll kynjanna verði innan skikkanlegra marka hvað sem líður fylgi einstakra frambjóðenda“ eins og segir í greinargerð með frumvarpi stjórnlagaráðs. Þessi síðasta leið kann þó að vera hæpin sakir áreksturs við önnur markmið.

Hví ekki að fækka þingmönnum?

Þingmenn njóta almennt ekki mikilla vinsælda á þessum síðustu og verstu tímum. Það má þó ekki hafa áhrif á það hver tala þeirra skal vera. Meta verður hvert hlutverk Alþingis sé og eigi að vera og ákvarða þingsætatöluna í því ljósi einu. Stjórnlagaráð fjallaði ítarlega um þetta atriði og margþætt atkvæðagreiðsla fór fram í því samhengi. Niðurstaðan varð sú að leggja til óbreytta tölu þingmanna. Rökin eru einkum þau að í tillögum ráðsins er lagt til að þingið fái stóraukið hlutverk í stefnumótun, eftirliti og allri meðferð þingmála. Þingið þurfi því að vera skipað drjúgu og góðu liði fólks.

Vanda skal val á þingmönnum

Í stuttu máli ganga tillögur stjórnlagaráðs um þingkosningar út á eftirfarandi atriði:

  • Kjördæmi frjálsleg: Hafa má landið allt sem eitt kjördæmi, en þau mega líka vera allt að átta að tölu. Skilin milli kosningar á landsvísu og eftir kjördæmum verða fljótandi.
  • Lands- og kjördæmakjör: Margir frambjóðendur munu bjóða sig bæði fram á kjördæmis- og landslistum. Kjósendum standa því margir til boða. Alþingi getur þó takmarkað valið við menn sömu samtaka.
  • Persónukjör: Kjósendum er falið að velja einstaklinga af framboðslistum enda þótt þeir megi merkja við lista einvörðungu en hafa þá ekki áhrif á það hverjir verða fyrir valinu af viðkomandi lista.
  • Jafnt vægi atkvæða: Búseta skiptir ekki máli, allir kjósendur hafa jafnvæg atkvæði. Um leið er stefnt að því að raddir allra byggða heyrist á þingi.

Allt fyrirkomulagið lýtur að sama markmiði, því að kjósendur velji sér fulltrúa – ekki aðeins flokka – til setu á Alþingi, þingmenn sem njóti ríks trausts. Þingið verður að vera vel skipað.

Þeir sem vilja fræðast frekar um kosningakerfi það sem stjórnlagaráð leggur til má benda á vefsíðu ráðsins, sjá http://stjornlagarad.is/other_files/stjornlagarad/Frumvarp_med_skyringum.pdf. Kosningaákvæðin eru þar í 39. grein.

 

Comments are closed.