Skip to content

Ný stjórnarskrá: Kvótinn og kommúnistaávarpið

Höfundur: Þorkell Helgason, September 9th, 2011

[Birtist upphaflega í Fréttatímanum  9. september 2011]

Fram er haldið frásögn af tillögum stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland. Nú verða auðlindamálin tekin stuttlega til umfjöllunar, með nokkuð frjálslegum hætti.

Nýting takmarkaðra gæða

Í 33. grein í tillögum stjórnlagaráðs er fjallað um vernd á náttúru landsins, fögrum orðum eins og vera ber. Helsta nýmælið í þeim málaflokki er þó að finna í næstu grein, þeirri 34. Þar segir m.a.: „Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar.“ Síðan er tilgreint að „stjórnvöld get[i] á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“

Hér er brotið blað í sögu þjóðarinnar. Kjarni ákvæðanna er þessi:

  • Auðlindir, sem ekki eru þegar í einkaeigu, eru ævarandi þjóðareign sem ekki má ráðstafa varanlega. Hér er áréttað það sem þegar stendur að nokkru í lögum eða almennt samkomulag virðist um.
  • Einkaaðilar eiga aftur á móti að nýta auðlindirnar en greiða fyrir það fullt gjald. Með því er e.k. markaðsverð haft í huga, en ekki pólitískt ákvarðað gjald. Á þessu tvennu er reginmunur, ekki endilega að því er varðar fjárhæð gjaldsins, heldur því hvernig verðið er ákvarðað.
  • Allir eiga að hafa jafnan rétt til nýtingarinnar. Vitaskuld ber um leið að taka tillit til þess sem á undan er gengið og eðlilegt að þeir sem haft hafa nýtingarleyfi fái aðlögun að breyttu fyrirkomulagi.
  • Sama fyrirkomulag skal gilda um önnur takmörkuð almannagæði, svo sem fjarskiptarásir eða heimildir til losunar á gróðurhúsalofttegundum, svo dæmi séu tekin.

Útfærslan á 2. og 3. atriðinu skiptir sköpum. Að mati undirritaðs verður þetta vart gert nema með uppboðum á tímabundnum nýtingarrétti á hinum takmörkuðu gæðum um leið og veitt er eðlileg aðlögun í formi fyrningartíma á fyrri réttindum. Fyrir rúmu ári fól svokölluð sáttanefnd um fiskveiðistjórnun okkur Jóni Steinsyni hagfræðingi að útfæra tilboðs- og fyrningarkerfi á veiðikvótum í þessa veru; sjá http://www.sjavarutvegsraduneyti.is/media/Skyrslur/Fylgiskjal8_Tilbodsleid.pdf. Við vorum ekki að finna upp hjólið. Ámóta hugmyndir, innlendar sem erlendar, hafa legið fyrir áratugum saman. Hugmyndin fékk litla umfjöllun en henni var samt harðlega andmælt af talsmönnum útgerðar og stungið undir stól af stjórnvöldum. Í staðinn sitja menn nú uppi með moðsuðulausn, ef lausn skyldi kalla, sem gengur undir nafninu pottaleið.

Skrítin tík, pólitík

Erlendur sendimaður sem bjó áratugum saman á Íslandi skrifaði bók um reynslu sína af landanum. Hann sagði hugtökin vinstri og hægri ónothæf um íslensk stjórnmál, nær væri að nota mælikvarðann aftur og fram. Kvótaumræðan á Íslandi verður aðeins heimfærð á þennan seinni skala. Ætla mætti að hugmynd um markaðslausn á útdeilingarvanda takmarkaðra gæða, eins og sú sem við Jón lögðum til, ætti talsmenn meðal flokka sem kenna sig við markaðsbúskap og um leið meðal talsmanna atvinnurekenda. Svo er þó ekki. Þegar markaðslausn okkar Jóns var kynnt sjávarútvegsnefndinni fyrrnefndu spurði forkólfur útgerðarmanna í fundarlok hví við hefðum ekki bara komið með kommúnistaávarpið og lagt það á borðið! Skyldi Karl Marx hafa hrokkið í kút í gröf sinni í Lundúnum?

Auðlindir til lands og sjávar á að nýta á vistvænan hátt. Um leið verður að gæta réttlætis, m.a. þess að þjóðin njóti eðlilegs arðs af eignum sínum. Jafnframt fái framsækið einkaframtak notið sín. Stjórnarskrárdrög stjórnlagaráðs leggja grundvöll að þessu, en það þarf vilja skynsamra manna til að útfæra hugmyndirnar, manna sem snúa fram en ekki aftur á þjóðarskútunni.

Hvað næst?

Í næsta pistli verður snúið aftur að lýðræðismálunum og þá fjallað um þátttöku almennings í ákvarðanatöku á þann hátt sem stjórnlagaráð leggur til.

 

Comments are closed.