Skip to content

Ný stjórnarskrá: Valdið er fólksins

Höfundur: Þorkell Helgason, September 16th, 2011

[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 16. september 2011]

„Brennt barn forðast eldinn.“ Það gera Þjóðverjar – af alræmdu tilefni. Því settu þeir eftir stríð á laggirnar stjórnlagadómstóla sem eiga að vaka yfir því að valdi sé ekki misbeitt. Slíkir dómstólar eru í hverju „landi“ (fylki) Þýskalands, en sambandsdómstóll dæmir um mál sem snerta allt sambandsríkið og þó einkum um grundvallarréttindi almennings. Í síðustu viku felldi þessi alríkisdómstóll einn af sínum merkustu úrskurðum. Tilefnið var umkvörtun nokkurra borgara þess efnis að ríkisstjórnin í Berlín hefði farið út fyrir valdmörk sín þegar hún hafi gengist í ábyrgðir vegna aðstoðar við Grikkland, án þess að hafa haft nægilegt samráð við sambandsþingið. Niðurstaðan var hálfgerður Salómonsdómur: „Látum gott heita en gerið þetta aldrei aftur án góðs samráðs við þingið.“

Hér verður sjálf niðurstaðan ekki krufin heldur farið yfir rökin fyrir því að kvörtunin var metin dómtæk. Kjarni þeirra raka er sá að allt vald komi frá fólkinu sem kjósi sér sambandsþing. Færist vald frá þinginu meir en góðu hófi gegnir og þingið sniðgengið sé verið að rýra vald hins upphaflega valdhafa, þjóðarinnar. Sérhver borgari hafi því heimild til þess að vera á varðbergi og kvarta til Stjórnlagadómstólsins ef hann telur vald sinna kjörnu fulltrúa vera skert, því að þannig sé kosningarétturinn vanvirtur.

Lærdómsríkir lagakrókar

Þjóðverjar eru lagaflækjumenn. Því er kjarni málsins sá hvaða ákvæðis stjórnarskrárinnar dómstólinn vísar til máli sínu til stuðnings og er þess virði að um það sé farið nokkrum orðum. Dómurinn byggir úrskurð sinn á tilvísun í það grundvallarákvæði að þingmenn „eru kosnir í almennum, beinum, frjálsum og leynilegum kosningum þar sem allir eru jafnir“, í ákvæðið um að „allt ríkisvald komi frá þjóðinni“ og að lokum í það ákvæði að þeim grundgildum sem felast í hinum greinunum tveimur megi ekki raska, ekki einu sinni með stjórnarskrárbreytingu.

Sem sagt: Vald fólksins er friðhelgt, þess vegna verður jafnframt að tryggja vald fulltrúa þess, þingsins.

Hvað kemur þetta okkur við?

Þetta snertir vissulega umræðuefni þessara pistla, en þeir fjalla um þá nýju stjórnarskrá sem stjórnlagaráð leggur til. Í fyrsta lagi er það til eftirbreytni að Þjóðverjar hafa sérstaka dómstóla til að verja stjórnarskrá sína. Við í stjórnlagaráði fjölluðum gaumgæfilega um slíkt fyrirkomulag, en fórum einfaldari leið sem lýst verður síðar.

Að öðru leyti áréttar hinn þýski úrskurður að allt vald komi frá fólkinu sjálfu. Það var líka skoðun okkar í stjórnlagaráði. Þegar í 2. grein frumvarps stjórnlagaráðs birtist það nýmæli að „Alþingi fer með löggjafarvaldið í umboði þjóðarinnar“, en ámóta ákvæði er ekki í gildandi stjórnarskrá. Í framhaldinu er kveðið á um hina tvo valdþættina: „Forseti Íslands, ráðherrar og ríkisstjórn og önnur stjórnvöld fara með framkvæmdarvaldið. Hæstiréttur Íslands og aðrir dómstólar fara með dómsvaldið.“

Hér er það njörvað niður að þjóðin sjálf er uppspretta alls ríkisvalds, að allir aðrir valdhafar starfa í hennar umboði, beint eða óbeint. Við í stjórnlagaráði, ræddum hvort þetta ætti að vera enn skýrara og hafa svipaðan aðdraganda og hjá hinum þýsku, segja beinlínis að„allt ríkisvald komi frá þjóðinni“. Það varð ekki ofaná enda vorum við sparsöm á allt sem kalla mætti „fagurgala“; vildum hafa orðalagið skýrt og sem minnst af óþörfum endurtekningum. Ef til vill hefði þetta þó átt að vera að hætti Þjóðverja. Við erum að vísu ekki jafnbrennd og þeir, en pólitískir eldar geta blossað upp hvar sem er. Allur er varinn góður.

 

Comments are closed.