Ný stjórnarskrá: Lög að frumkvæði almennings
[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 30. september 2011]
Áfram verður haldið að lýsa tillögum stjórnlagaráðs um beint lýðræði; um það hvernig flétta megi það saman við fulltrúalýðræðið. Nú verður fjallað um frumkvæðisrétt þjóðarinnar, hvernig hún getur samið og fengið sett lög.
Lög frá grasrótinni
Djarfasta nýmælið í tillögum stjórnlagaráðs um beint lýðræði felst í ákvæðum um frumkvæði kjósenda. Þar er tvennt lagt til. Annars vegar að 2% kjósenda geti lagt hvað eina mál fyrir Alþingi. Það kemst þá á dagskrá þingsins, en engin fyrirmæli eru um afdrif málsins. Hin frumkvæðisleiðin er formlegri. Samkvæmt henni getur tíundi hluti kjósenda lagt fram fullbúið frumvarp til laga fyrir Alþingi. Svo er um hnútana búið að þingið getur leitað til talsmanna kjósendahópsins um málmiðlun vilji það ekki fallast á frumvarpið óbreytt. Ef ekki nær saman fer frumvarp kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu, og einnig gagntillaga sem þingið kann að leggja fram. Alþingi getur falið þjóðinni að taka af skarið með því að gera atkvæðagreiðsluna bindandi, ella er hún þinginu til ráðgjafar um lyktir málsins. Markmiðið er ekki í sjálfu sér að haldin sé þjóðaratkvæðagreiðsla heldur er keppikeflið að sem breiðust samstaða náist um mál sem liggur þjóðinni á hjarta. Nánari fyrirmæli eru um alla þessa málsmeðferð í tillögum stjórnlagaráðs. Fyrirmynd er einkum sótt til Sviss, en þar er reynslan sú að fæst slíkra mála enda í þjóðaratkvæði; að jafnaði finnst lausn sem sættir nást um.
Lýðræðisblanda
Umræða er víða um heim um þróun lýðræðisins. Athyglisverð er t.d. hugmynd um það sem kallað er á útlensku „fljótandi lýðræði“, en „flæðiræði“ væri styttra. Með því er t.d. átt við að hver einstakur kjósandi geti gripið fram fyrir hendurnar á þingmönnum og greitt (rafrænt) atkvæði um þingmál þegar honum býður svo við að horfa. Þar með dregur hann til baka það atkvæðisbrot sem hann hafði framselt fulltrúunum. Þeir kjósendur sem ekki beita þessum rétti fela þinginu að fara áfram með umboð sitt. Þetta fyrirkomulag hefur þann kost umfram almenna þjóðaratkvæðagreiðslu að þeir sem ekki taka afstöðu eru samt ekki hafðir útundan. Þingmenn fara áfram með umboð þeirra. Þar með er byggt fyrir hugsanlegt gerræði þeirra sem afstöðu taka, þótt útfærslan megi heldur ekki verða slík að hinir virku séu gerðir máttvana. Ekki er vitað til þess að slík lýðræðisblanda hafi nokkurs staðar verið innleidd, en umræðuna má rekja á veraldarvefnum undir ensku leitarorðunum „liquid democracy“ eða ámóta á öðrum málum.
Er beint lýðræði hættulegt?
Sagt er að þjóð geti verið tækifærissinnaðri en fulltrúar hennar, t.d. að þjóðin veigri sér við að taka óþægilegar en þó brýnar ákvarðanir. Varnagli er sleginn í tillögum stjórnlagaráðs varðandi þetta þar sem vissir málaflokkar eru undanskyldir í hinu beina lýðræði, svo sem skattamál. Þá er mikilvægt að Alþingi er falið að setja lög um framkvæmdina, m.a. um að vandað sé til undirskriftasöfnunar en ekki unnt að riðjast fram með vafasamri netsöfnun.
Heimspekingurinn Karl Jaspers segir í einu rita sinna að áhætta sé tekin með lýðræðinu, allt eins og með allri tilvist mannsins. Meirihlutinn, hvort sem er fulltrúa eða kjósenda, geti hæglega tekið óheillavænlegar ákvarðanir. Engin trygging sé til, en valddreifing sé helsti varnaglinn. Hæfileg blanda af fulltrúalýðræði og beinu lýðræði fólksins sé þáttur í slíkri valddreifingu en umfram allt verði að styrkja og síðan treysta á skynsemi fólks og ráðamanna, segir heimspekingurinn. Við getum ekki annað en treyst því að skynsemin blundi í öllum og lýðræðið sé leiðin til að virkja skynsemina til farsællar stjórnar á þjóðfélaginu, svo að lagt sé út af hugsun Karls Jaspers.
Með tillögum stjórnlagaráðs um beint lýðræði er stigið skref, en ekki bundinn endahnútur. Tillögur ráðsins um starf stjórnmálaflokka, svo og um aðferð við val á þingmönnum, eru líka þáttur í eflingu lýðræðisins. Lýðræðið er og verður í þróun.
Comments are closed.