[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 7. október 2011]

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, gerði frumvarp stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá að umræðuefni í þingsetningarræðu sinni. Það er vel og fengur að því að forseti lýðveldisins vekji þjóð og þing til umhugsunar um þetta stórmál, nýja stjórnarskrá handa landi og lýð. Ólafur Ragnar gerði einkum embætti forseta Íslands að umræðuefni. Um það fjallar þessi pistill.

Þrískipting valdins

Allt frá dögum Montesquieus hefur það verið leiðarljós við mótun allrar lýðræðisstjórnskipunar að ríkisvaldið skuli skiptast í þrjá aðgreinda þætti: Löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Mörgum hefur þótt sem hjá okkur væri þessi aðskilnaður ekki skýr, að ríkisstjórnin væri að jafnaði með þingið í vasanum og jafnvel dómarana líka þar sem þeir voru til skamms tíma skipaðir af dómsmálaráðherra að eigin hentisemi. Síðast en ekki síst hefur hlutverk og staða forsetans sem einhvers konar tengill löggjafarvalds og framkvæmdarvalds verið óskýr. Hefðum samkvæmt hefur þó forsetinn haldið sig til hlés, þótt núverandi forseti hafi haft sig meira í frammi en fyrirrennarar hans og beinlínis gripið í taumana.

Að margra mati er ekki nóg að þrískipta valdinu heldur þurfi eftirlitsvald að auki. Þar getur forsetinn haft hlutverki að gegna og endurspeglast það að nokkru í tillögum stjórnlagaráðs, þeim sem urðu Ólafi Ragnari umræðuefni.

Hvert yrði vald forsetans?

Meginatriðin í tillögum stjórnlagaráðs um hlutverk forseta eru fjögur:

  • Tillaga um forsætisráðherra: Í upphafi ráðgerðrar stjórnarskrárgreinar um stjórnarmyndun segir að „Alþingi kýs forsætisráðherra.“ Með þessu er tekinn af vafi um þingræðið, það að ríkisstjórn verður á hverjum tíma að hafa stuðning Alþingis. Forseti Íslands er falið að gera tillögu um forsætisráðherraefni. Honum ber fyrst að ráðfæra sig við þingheim enda verður hinn tilnefndi að njóta stuðnings þingsins. Forseti getur ekki skipað utanþingsstjórn að eigin frumkvæði eins og nú. Forsetinn fær tvívegis tækifæri til að leggja tillögu um forsætisráðherraefni fyrir þingið. Vilji þingið hvorugan þeirra sem hann tilnefnir er það í höndum þingsins að velja.
  • Málskotsréttur: Forsetinn getur, allt eins og nú, skotið nýsamþykktum lögum frá Alþingi til þjóðarinnar til samþykktar eða synjunar. En þjóðin fær líka beina leið til þess sama eins og rakið hefur verið í tveimur síðustu pistlum. Málskotsréttur forseta er því einungis hugsaður sem neyðarhemill, enda verður forseti að rökstyðja ákvörðun sína og getur hann þá vart vísað til vilja þjóðarinnar. Hún tjáir þann vilja sjálf. Slíkur öryggisventill þjóðhöfðingja tíðkast víða og er hugsaður til að stöðva gerræði meirihluta þings.
  • Aðild að skipun dómara og ríkissaksóknara: Hver og hvernig á að skipa dómara er vandaverk. Nýlega hafa verið samþykkt lög sem bæta fyrirkomulagið mjög. Stjórnlagaráð leggur til að andi þeirra laga verði festur í stjórnarskrá en hnykkt á. Lykilatriði er að hæfni og málefnaleg sjónarmið verða að ráða við skipun í öll embætti. Í samræmi við gæsluhlutverk forsetans fær hann heimild til að skjóta vali ráðherra á dómaraefni til Alþingis, þar sem þriðjungur atkvæða nægir til að hafna dómaraefni ráðherra. Fari svo þarf ráðherra að koma með nýja tillögu.
  • Aðild að skipun æðstu embætta: Forseti kemur við sögu um skipan þeirra æðstu embættismanna sem Alþingi kann að kveða á um. Hér er hlutverk forseta minna. Honum er einugis ætlað að skipa formann hæfnisnefndar, en að öðru leyti hefur hann ekki aðkomu að málinu. Hann væri t.d. að fara út fyrir valdsvið sitt ef hann segði nefndarformanninum fyrir verkum.

Aukin völd?

Ólafur Ragnar telur að með tillögum stjórnlagaráðs séu umsvif forsetembættisins efld og ábyrgð aukin. Um það má deila en skiptir þó ekki höfuðmáli. Að mínu mati fær forsetinn skýrara og markvissara hlutverk en nú. Í þremur síðustu liðunum fær hann vel skilgreind verkefni sem öll lúta að öryggiseftirliti. Í fyrsta liðnum heldur hann því óljósa hlutverki sem hann hefur haft við stjórnarmyndun, en settar eru reglur um hvernig hann skuli bera sig að. Kjarni málsins er þó sá að það er að lokum Alþingis að kjósa forsætisráðherra. Það er ein veigamesta nýmælið í tillögum ráðsins.

Vissulega er forsetaembættið mikilvægt, bæði nú og framvegis, verði tillögur ráðsins að stjórnarskrá. Því skiptir höfuðmáli hver á embættinu heldur. Þjóðin verður að vanda val sitt. Í því skyni er í svo um kjör forseta búið að tryggt sé að hann njóti stuðnings meirihluta kjósenda, en svo hefur ekki verið við fyrsta kjör forseta ef undan er skilin kosning Kristjáns Eldjárns. Mistakist þjóðinni valið situr hún þó ekki uppi með forseta lengur en í þrjú kjörtímabil samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs. Þetta ákvæði var ekki rakið í samantekt forsetans.