Skip to content

Hvað nú?

Höfundur: Þorkell Helgason, October 15th, 2011

[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 14. október 2011]

Frumvarp stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá var til ítarlegrar umræðu á Alþingi í vikunni. Hér er ekki tóm til að taka á einstökum athugasemdum þingmanna um efnið, heldur verður vikið að því hvernig framhaldið ætti að vera.

Vanagangurinn

Upphaflega átti stjórnlagaþing að starfa í þremur hrinum með umþóttunarhléum á milli. Því miður náði sú leið ekki fram að ganga. Verði ekki að gert mun framhaldið því verða með eftirfarandi formlegum hætti:

Formlega leiðin: Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fjallar um frumvarp stjórnlagaráðs og gerir á því breytingar. Nefndin leggur síðan fram frumvarp til samþykktar á Alþingi í síðasta lagi vorið 2013. Síðan verður kosið nýtt þing sem staðfestir frumvarpið svo að úr verður ný stjórnarskrá.

Auðvitað er ekkert nema gott um það að segja ef Alþingi getur með þessu móti bætt tillögur stjórnlagaráðs. Hættan er fólgin í því að aðeins verði til moðsuðuleg meðalmennska um lágmarksbreytingar á núgildandi stjórnarskrá og það án aðkomu þjóðarinnar, eða að málið hreinlega dagi uppi. Það hefur hingað til verið venjan!

Ný vinnubrögð

Að mati undirritaðs þarf önnur vinnubrögð. Verklagið mætti og ætti að vera þetta:

Samræðu- og sáttleið: Þingið, en ekki síst almenningur, fjallar ítarlega um tillögur stjórnlagaráðs. Út úr því koma vonandi góðar ábendingar um betrumbætur. Stjórnlagaráð verður síðan aftur kallað saman og falið að endurskoða frumvarp sitt með hliðsjón af þessari umfjöllun. Þannig breytt frumvarp fer í þjóðaratkvæðagreiðslu og þjóðin veitir því stuðning, sem vænta má, staðfesti Alþingi vilja hennar eftir hinni formlegu leið.

Hvers vegna að blanda stjórnlagaráðinu aftur í málið? Svarið er einfalt. Þar er orðin til mikil samanlögð þekking á viðfangsefninu sem ætti að nýta. Enn fremur að þetta var upphaflega ætlunin og það stutt góðum rökum. Í þriðja lagi leggja alþjóðlegar ráðgjafarstofnanir áherslu á að unnið sé í áföngum. Þannig verði vinnan hvað vönduðust.

Vitaskuld vakna spurningar um þessa málsmeðferð. Næst til dæmis að kalla stjórnlagaráð aftur saman? Efalaust ekki án affalla, en ætla má að það næðist í að minnsta kosti tvo þriðju hluta ráðsfulltrúa. Geta þeir talað í umboði alls hópsins? Vitaskuld ekki en hinir fjarstöddu fengju þó óbein áhrif ef svo væri fyrir mælt fyrir að það þyrfti stuðning upphaflegs meirihluta, það er að segja 13 af 25, til að samþykktir þessa seinna ráðsþings yrðu marktækar.

Þingmannafrumvarp um ámóta málsmeðferð er þegar komið fram á Alþingi.

Þjóðin verður að veita fulltingi

Hvernig svo sem málinu vindur fram er brýnt að þjóðin komi að því með beinni þjóðaratkvæðagreiðslu. Ný stjórnarskrá verður að fá fulltingi hennar. Það er þjóðin sem er að setja stjórnvöldum leikreglur með stjórnarskrá, líka þingmönnum. Æskilegt væri að þjóðin gæti tjáð hug sinn þegar á umræðustiginu og þannig veitt Alþingi leiðsögn. Enn mikilvægara er að lokagerðin hljóti blessun hennar. Þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrána verður því að vera bindandi. Nokkrar leiðir koma þá til greina. Ein er sú að láta atkvæðagreiðsluna fara fram samhliða kosningu til þess nýja þing, sem þarf til að staðfesta stjórnarskrárbreytinguna. Með því móti sparast fé og fyrirhöfn. Í stjórnarskrártillögunni sjálfri gæti í þessu skyni verið hliðstætt ákvæði og 1944 um að hin nýja stjórnarskrá taki því aðeins gildi að hún hafi við þessa kosningu hlotið samþykki þjóðarinnar. Þjóðin fengi þannig neitunarvald, en hið nýkjörna þing hefði það raunar líka.

Eru ljón á veginum?

Þau eru alltaf tilbúin við vegkantinn og hafa þegar látið í sér heyra. Undirritaður trúir því og treystir að þjóð og þing láti ekki úrtöluraddir hrekja sig frá því endamarki að til verði góð stjórnarskrá handa landi og lýð; stjórnarskrá sem verði þjóðinni grunnur að traustara samfélagi.

 

Comments are closed.