[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 28. október 2011]

Traust á stjórnmálamönnum er rýrt bæði hérlendis og í löndum í kringum okkur. Sama gildir um lýðræðið sjálft og stofnanir þess, ekki síst Alþingi. Sagt er að allt sé þetta blekking. Að vísu kjósi þjóðin menn á þing á fjögurra ára fresti en eingöngu pakkalausnir séu í boði; flokkslistar sem kjósendur fái ekki hnikað. Myndun ríkisstjórna sé einatt lítt í samræmi við kosningaúrslit; jafnvel flokkur sem galt afhroð veiti ríkisstjórn forystu. Ríkisstjórn valti síðan yfir þingið en láti sjálf leiðast af „sérfræðingastóði“. Yfir öllu tróni svo hagsmunasamtök og ekki síst peningaveldið.

Þjóðin, kjósendur, finna til vanmáttar og gefa lýðræðinu langt nef. Undirritaður ræddi við fólk í stórmörkuðum í aðdraganda kosningarinnar til stjórnlagaþings fyrir ári um þetta lykilmál; benti á mikilvægi bættrar stjórnarskrár sem lið í því að efla vald fólksins, að bæta stjórnarfarið og svo framvegis. Margir, of margir, brugðust þannig við að allt væri rotið, að þeir sem fást við að stjórna séu allt sama hyskið – þar með talin við sem buðum okkur fram.

Þessu verður að snúa við eigi ekki illa að fara.

Hvað er til ráða?

Hvarvetna er rætt um þessa stjórnmálaþreytu en lausnir liggja ekki á lausu. Í margra augum, ekki síst ungs fólks, skiptir gagnsæi miklu, að allt liggi upp á borðinu, að hætt verði öllu laumuspili. Beint lýðræði, þar sem kjósendur geta hafnað lögum og jafnvel sett lög, er líka til þess ætlað að auka tiltrú almennings á mátt lýðræðisins. En það sem oftast er nefnt, bæði heima og erlendis, er að styrkja þurfi þingræðið, efla vald þjóðþingana.

Um þessar mundir takast þing og ríkisstjórnir víða í Evrópu á um stuðning við fjárhagslega fallvölt ríki, eins og Grikkland. Þýski stjórnlagadómstóllinn tók af skarið í þessum efnum þegar hann kvað upp úr með það að ríkisstjórn Þýskalands yrði að spyrja þingið áður en hún tæki skuldbindandi ákvarðanir sem þessar. Að margra dómi er þetta dæmi um að nú sé pendúllinn að snúast við þjóðþingunum í vil eftir síminnkandi völd þeirra undanfarna áratugi.

Hvað leggur stjórnlagaráð til?

Fulltrúar í stjórnlagaráði voru mjög meðvitaðir um þennan vanda og taka á honum í tillögum sínum með margvíslegum hætti. Helstu atriðin í því sambandi eru:

  • Kjósendur fá nær öllu ráðið um það hverjir veljist á þing af framboðslistum.
  • Alþingi kýs forsætisráðherra með beinum hætti og ræður þar með í raun alla ríkisstjórnina. Ríkisstjórn getur þá vart starfað í blóra við vilja þingsins.
  • Þingmál hefja göngu sína í þingnefndum. Með þessu er ýtt undir það að þingið taki ekki við stjórnarfrumvörpum sem gerðum hlut, heldur taki þátt í mótun mála.
  • Kjósendur geti haft frumkvæði bæði að því að fella lög úr gildi eða skapa nýja löggjöf.
  • Stjórnmálaflokkum verða sett lagafyrirmæli um starfshætti, fjármál o.fl.
  • Ráðherrar sitja ekki á þingi og ganga þar ekki um gólf sem ráðamenn. Þeir koma fyrir þingið eins og hverjir aðrir embættismenn.
  • Ráðherrar bera sameiginlega ábyrgð á helstu ákvörðunum sínum.
  • Upplýsingaréttur almennings um opinber gögn er tryggður um leið og frelsi fjölmiðla er elft verulega.
  • Fjölmiðlum er tryggt ritstjórnarlegt frelsi og þeir sem upplýsa njóta verndar.
  • Forseta Íslands er ætlað verulegt aðhaldshlutverk m.a. til að koma í veg fyrir gerræðislega skipun dómara.
  • Umboðsmaður Alþingis er festur í sessi, en hlutverk hans er að veita stjórnvöldum aðhald.
  • Rannsóknarnefndir Alþingis fá stöðu í stjórnarskránni.
  • Fjármálalegt aðhald að stjórnvöldum er aukið með ýmsum hætti.

Komum góðri stjórnarskrá á grunni þessara tillagna í höfn!