Skip to content

Ný stjórnarskrá: Var stjórnlagaráð óskeikult?

Höfundur: Þorkell Helgason, November 5th, 2011

[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 4. nóvember 2011]

Vitaskuld ekki. Ráðið hefði mátt fá meiri tíma. Margt lá þó til grundvallar starfi ráðsins, svo sem fyrri stjórnarskrárnefndir, stjórnlaganefnd til undirbúnings þjóðfundar og ráðgerðs stjórnlagaþings, svo og þjóðfundurinn sjálfur.

Spurningin er ekki hvort tillögur stjórnarskrárnefndar séu fullkomnar, heldur hvort þær taki núgildandi stjórnarskrá fram. Jafnframt má spyrja hvort tillögur ráðsins megi enn bæta. Svo er efalaust, en brýnt er að það gerist þá með markvissum hætti. Um framgangsmátann skrifaði ég pistillinn „Hvað nú?“ 14. október s.l.

Alþingi hefur þegar haft eina umræðu um frumvarp ráðsins að nýrri stjórnarskrá. Þar kom bæði fram lof og last en í heild var umræðan málaefnaleg. Nú hefst umfjöllun um tillögurnar í nýrri fastanefnd þingsins, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þar munu málin efalaust verða krufin. Lítum á þá gagnrýni sem fram kom á þingfundinum 6. október s.l.

Hvað gagnrýna þingmenn?

Hér verður ekki hirt um gagnrýni á aðdragandann, stjórnlagaþingskosninguna, ógildingu Hæstaréttar eða skipun í stjórnlagaráð heldur aðeins fjallað um efnið, frumvarp stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá.

Fyrst má nefna atriði almenns eðlis:

  • Óskýr skil milli stjórnarskrár og laga: Of víða sé sagt að Alþingi beri að útfæra viss atriði með lögum. Hér er vandrataður meðalvegur. Hefðum við njörvað hlutina meira niður í stjórnarskrárákvæðum væri efalaust gagnrýnt að Alþingi hefði ekki nægt svigrúm til að útfæra og laga að þörfum hvers tíma.
  • Óskhyggja: Sumt sé óskhyggja sem ekki eigi erindi í stjórnarskrá, einkum vissir þættir félagslegra réttinda. Við teljum okkur vera að fylgja þeirri stefnu um félagsleg réttindi sem mótuð var með stjórnarskrárbreytingum 1995 svo og þróun erlendis m.a. með vísan til ýmissa alþjóðasamninga sem Íslendingar hafa undirgengist.
  • Óljós ákvæði: Nokkur dæmi voru nefnd um óskýrt orðalag eða annað sem mætti mistúlka. Sé svo er það miður. Fátt vildum við í stjórnlagaráði leggja meira kapp á en hafa ákvæðin skýr og þannig að ekki verði út úr þeim snúið. Gott væri að fram kæmu uppbyggjandi ábendingar um bættan texta, ef þess sé þörf.

Sértækari gagnrýni var m.a. þessi:

  • Auðlindir í almannaeigu: Hér togast á þau sjónarmið sem uppi hafa verið í marga áratugi um auðlindirnar og gjaldtöku fyrir afnot af þeim, hvort sem það eru fiskimið eða orkulindir. Stjórnlagaráðið tók af skarið í þeim efnum; í takt við það sem fram kom t.d. á þjóðfundinum.
  • Vald forseta: Sumir þingmenn segja vald forseta Íslands óljóst í tillögunum og vitna þá til túlkunar núverandi forseta. Sú túlkun er mjög vafasöm. Hún skiptir þó ekki meginmáli heldur verður að spyrja hvort þau verkefni sem forsetinn fær séu rétt valin og vel skilgreind, óháð því hvort þau eru meiri eða minni en nú.
  • Skipun dómara: Spurt var hvað erindi forseti Íslands eigi að því máli. Fátt var jafn ítarlega rætt í ráðinu eins og aðferð við val á dómurum, enda tilefni ærin. Forsetinn fær aðhaldshlutverk í þeim efnum, allt eins og ráðið vill sjá hlutverk hans almennt.
  • Kosningareglur: Eru sagðar flóknar og markmiðin óljós. Þessu hef ég svarað í þremur pistlum í ágúst. Vitaskuld bera ákvæðin þess merki að reynt var að samræma sem flest sjónarmið. Meðvitað var farinn meðalvegur milli þess að fastsetja sumt, eins og jafnan atkvæðisrétt og persónukjör, og hins vegar þess að halda hæfilega miklu opnu fyrir löggjafann.
  • Vernd stofnana: Gagnrýnd er að vissar stofnanir eigi að njóta sérstakrar verndar. Í ljósi reynslunnar taldi stjórnlagaráð að tryggja yrði tilvist eftirlits- og upplýsingastofnana gegn geðþótta stjórnvalda. Útfærsluna má vitaskuld gaumgæfa.
  • Sanngjörn laun: Ákvæði um rétta til sanngjarnra launa eru sögð óljós óskhyggja. Fyrirmyndin er sótt til alþjóðasamning Sameinuðu þjóðanna sem Ísland hefur undirgengist.

Upptalningin er ekki tæmandi. Þó er athyglisvert að einungis um fimmtungur lagagreina í stjórnarskrárdrögunum voru tilefni gagnrýni við þessa fyrstu en löngu umræðu á Alþingi.

Nú má ekki láta deigan síga. Koma verður stjórnarskrármálinu í höfn. Fulltrúar í stjórnlagaráði lýstu því yfir í skilaskjali með frumvarpi sínu að þeir væru fúsir til að ljá málinu aftur lið.

 

Comments are closed.