Skip to content

Kosningin til stjórnlagaþings í hnotskurn

Höfundur: Þorkell Helgason, October 20th, 2010

Fjöldi fulltrúa: Kosið verður til stjórnlagaþings 27. nóvember. Meira en 500 frambjóðendur eru í boði. Kosnir verða a.m.k. 25 fulltrúar sem kann að fjölga í 31 til  að jafna kynjahlutföllin.
Auðkennistala: Hverjum frambjóðanda verður úthlutað sérstakri fjögurra stafa auðkennistölu. Kjósendur skulu færa þessar auðkennistölur á sjálfan kjörseðilinn sem hefur rúm fyrir 25 slíkar tölur.
Prufukjörseðill: Upplýsingum um frambjóðendur og auðkennistölur þeirra verður dreift í hús ásamt prufukjörseðli.
Forgangsröðun: Kjósandinn velur sér allt að 25 frambjóðendur og raðar þeim í forgangsröð á kjörseðlinum. Efst setur hann auðkennistölu þess sem hann leggur mest kapp á að nái kjöri, síðan auðkennistölu þess sem hann vill að taki við atkvæðinu að þeim fyrsta frátöldum og svo framvegis.
Raða sem flestum: Engin áhætta er tekin með því að raða fremur fleiri en færri frambjóðendum. Frambjóðandi að efsta vali skaðast ekki af því kjósendur hans raði öðrum neðar á kjörseðilinn.
Undirbúinn kjörseðill: Brýnt er að kjósendur komi undirbúnir í kjörklefann með útfylltan prufuseðil sem þeir nota síðan sem fyrirmynd við útfyllingu hins gilda kjörseðils.
Færanlegt atkvæði: Talningin fer þannig fram að fyrst ná þeir kjöri sem fá nægilegt fylgi samkvæmt fyrsta vali. Fái þeir meiri stuðning en þarf til að hljóta sæti færist viðeigandi hluti atkvæðanna til þeirra frambjóðenda sem tilgreindir eru sem næsti kostur. Fái frambjóðandi of lítið fylgi til að eiga möguleika á kjöri færast atkvæði hans óskert til þeirra sem tilgreindir eru sem næsti kostur og svo framvegis.
Atkvæði nýtast til fulls: Kjósendur geta því valið frambjóðendur af hjartans list. Þeir þurfa ekki að óttast að atkvæðið fari forgörðum ef þeir veðja á frambjóðanda sem  spáð er litlu fylgi. Þeir sóa ekki heldur atkvæði sínu velji þeir einhvern sem flýgur inn.

Comments are closed.