Skip to content

Ný stjórnarskrá: Lýðræðisþroski

Höfundur: Þorkell Helgason, November 25th, 2011

[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 25. nóvember 2011]

Þessi pistill er ritaður suður í Þýskalandi eins og sumir þeirra fyrri í þessari stjórnarskrársyrpu. Pistillinn ber keim að því. Oft er gott að horfa heim á hlað úr nokkurri fjarlægð.

Fáar þjóðir hafa orðið fyrir jafn miklum hremmingum og Þjóðverjar á næstliðinni öld öfganna. Þjóðverjar hafa tekið afleiðingunum og mikið lært. Mér er ekki kunnugt um aðra þjóð sem hefur jafn rækilega sagt skilið við fortíðina og Þjóðverjar og lagt sig í sama mæli fram við að skapa nýtt þjóðfélag lýðræðis og réttar. Ekki hafa Ítalir tekið sér sama tak eftir endalok fasismans. Nýfrjálsu ríkin í Austur-Evrópu hafa líka fæst farið í gegnum sömu naflaskoðun og Þjóðverjar eftir einræðið sem yfir þau dundi.

Varsla stjórnarskrárgilda

Til þess að takast á við fortíðina og byrgja brunna hafa Þjóðverjar komið á fót stofnunum sem eiga sér vart eða ekki hliðstæðu hjá öðrum þjóðum. Ég hef í fyrri pistlum drepið á eina þeirra, stjórnlagadómstól. Þýskir ráðamenn ganga svo langt að segja að stjórnarskrá sé haldlítið plagg án slíks dómstóls sem geti gefið afgerandi svör um það hvort lög og stjórnvaldsathafnir brjóti í bág við grundvallarlögin. Stjórnlagadómstóll hefur orðið þýsk „útflutningsvara“ handa nýjum lýðræðisríkjum. Því miður vannst okkur í stjórnlagaráði ekki tími til að ræða það mál til hlítar en við leggjum þó til góðan vísi að slíkri stjórnarskrárgæslu. Annað sem Þjóðverjar komu upp er stjórnarskrárvarsla („Verfassungsschutz“) sem eru sérstakar löggæslustofnanir sem eiga að hafa auga með þeim öfgaöflum sem kunna að ógna lýðræðissamfélaginu. Þessir vörslumenn hafa þó sætt mikilli gagnrýni undanfarið og ekki sagðar hafa staðið sig í stykkinu gagnvart hægri öfgahópum.

Stjórnmálamenntun

Þriðja stofnunin á þessu sviði á sér enga hliðstæðu, að minnsta kosti ekki í okkar heimshluta. Það er sérstök opinber miðstöð sem hefur það hlutverk að efla og auka stjórnmálavitund, ekki síst meðal ungs fólks; sjá http://www.bpb.de/ („Bundeszentrale für politische Bildung“, alríkisstofnun sem á sér að auki systurstofnanir í einstökum löndum þýska sambandslýðveldisins).

Tilgangur stofnunarinnar er „að auka skilning á pólítískum málefnum, styrkja lýðræðislega meðvitund, og efla vilja til pólitískrar þátttöku.“ Unnið er í þessa veru með ýmsu móti, ekki síst með útgáfustarfsemi og hvers kyns vefmiðlun.

Ég átti þess kost að ræða við næstæðsta mann þessarar stofnunar nýverið og kynnast starfseminni. Stórmerkilegt. Vitaskuld bar íslensku stjórnarskrármálin líka á góma. Ég fékk til dæmis ábendingar um hvernig miðla mætti fróðleik um stjórnarskrármálefnin til almennings. Sá þýski spurði sérstaklega hvort við legðum ekki til stjórnlagadómstól, en svör mín voru heldur loðin. Hann lagði eins og aðrir ríka áherslu á slíkan dómstól.

Erum við lýðræðislega þroskuð?

Stjórnarskráin sem stjórnlagaráð leggur til gerir umtalsverðar kröfur um lýðræðisþroska. Ákvæði um þingkosningar eru gjörbreytt. Kjósendur þurfa ekki aðeins að taka afstöðu til meginfylkinga, það er flokka, heldur líka til þess hvaða einstökum frambjóðendum þeir treysta best til að stýra þjóðfélaginu. Fyrirkomulag forsetaembættisins er breytt og enn frekar en fyrr þarf að vanda val til þess embættis, en nýtt kosningafyrirkomulag á að auðvelda valið. Síðan fær almenningur umtalsvert vald til að hafa bein afskipti af lagasetningu. Þjóðin verður í þeim efnum að ganga hægt um gleðinnar dyr og beita þessu nýja tæki að vel hugsuðu máli.

Erum við þroskuð til alls þessa? Stjórnmálaflokkar eru óvenju öflugir hjá okkur og gegna miklu hlutverki í þessum efnum. En það nægir ekki til. Fólk verður líka að taka afstöðu á eigin forsendum og ábyrgð.

Umfram allt verður að viðhalda – en helst auka – þann mikla áhuga sem þó er á þjóðfélagsmálum. Hvernig gerum við það? Hvernig verður samábyrgð fólks á lýðræðinu vakin? Ný stjórnarskrá hjálpar þar sjálf til. Fólk fær áhuga og vilja til þátttöku þegar það sér að því er treyst og því fengið viðeigandi vald.

Þorkell Helgason, sat í stjórnlagaráði

Comments are closed.