[Birtist upphaflega í Fréttatímanum 30. desember 2011]

Allt frá því að stjórnlagaráð skilaði Alþingi frumvarpi sínu að nýrri stjórnarskrá hinn 29. júlí s.l. hef ég með nær vikulegum pistlum í Fréttatímanum leitast við að skýra út og rökstyðja tillögurnar. Pistlana má alla finna á vefsíðu minni: thorkellhelgason.is. Nú er mál að linni, a.m.k. að sinni.

Árið framundan skiptir sköpum um framvindu stjórnarskrármálsins. Þingið, en ekki síst þjóðin, verður að koma því í höfn að við eignumst nýjan samfélagssáttmála.

Hvað er í boði?

Frumvarp stjórnlagaráðs um nýja íslenska stjórnarskrá er afrakstur mikillar vinnu ráðsfulltrúa og sérfræðinga stjórnlagaráðs þar sem byggt er á ítarlegri skýrslu stjórnlaganefndar og starfi fyrri nefnda um málið. Þrátt fyrir vafasaman úrskurð Hæstaréttar um ógildingu á stjórnlagaþingskosningunni hafa fulltrúar ráðsins hlotið stuðning kjósenda og síðan Alþingis til verksins. Í frumvarpi stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá er m.a. boðið upp á eftirfarandi:

  • Ákvæði um mannréttindi eru stórefld, m.a. ný ákvæði um rétt til upplýsinga og um frelsi fjölmiðla.
  • Náttúruvernd er gert hærra undir höfði en áður. Tekið er af skarið um að auðlindir í þjóðareigu megi ekki selja, en einungis leigja og þá gegn fullu gjaldi.
  • Gjörbreytt ákvæði um kosningar til Alþingis þar sem kveðið er á um jafnan atkvæðisrétt óháðan búsetu svo og því að kjósendur geti valið sér þingmannsefni. Einnig ákvæði um að landskjörstjórn úrskurði um gildi kosninga, en ekki þingið sjálft eins og nú.
  • Staða Alþingis er styrkt andspænis framkvæmdarvaldinu, m.a. með því að öll frumvörp séu mótuð á Alþingi. Eftirlitsvald þingsins er eflt.
  • Ítarleg ný ákvæði eru um beint lýðræði, það að almenningur geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um lagafrumvörp og jafnvel lagt fram eigin þingmál.
  • Stjórnarskráin er vernduð með skipun Lögréttu sem gefi álit um stjórnarskrárgildi lagafrumvarpa að ósk Alþingis, og þarf ekki meirihluta þess til.
  • Ákvæði um forseta Íslands eru gerð skýr en felldar burt marklausar greinar um hlutverk hans. Honum er aftur á móti ætlað að veita öðrum valdhöfum traust aðhald.
  • Lögð eru til heilstæð ákvæði um ráðherra og ríkisstjórn en slík ákvæði hefur skort. Með því að Alþingi kjósi forsætisráðherra er tekinn er af allur vafi um þingræðið.
  • Ákvæði til að tryggja óháð val á dómurum og öðrum æðstu embættismönnum eru styrkt.
  • Sveitarfélögunum er lyft á stall í sérstökum kafla.
  • Í fyrsta sinn eru stjórnarskrárákvæði um utanríkismál, t.d. um að ekki megi afsala vald til alþjóðlegra samtaka, svo sem Evrópusambandsins, án skýrs vilja þjóðarinnar.
  • Og að lokum, að framvegis verður þjóðin að staðfesta stjórnarskrárbreytingar.

Við, sem sátum í stjórnlagaráði, erum sannfærð um að sú stjórnarskrá sem við gerum tillögu um sé til mikilla bóta, enda stóðum við saman að frumvarpinu í heild.

Árið 2012 verði stjórnarskránni til heilla

Nú er tækifærið til treysta lagalegan grundvöll samfélagsins. Eftir tækifærinu hefur verið beðið allan lýðveldistímann. Notum komandi ár, árið 2012, til að ljúka málsmeðferðinni. Ný stjórnarskrá ætti þá að sjá dagsins ljós eftir kosningar 2013 að fengnu samþykki þings – en ekki síst með beinni staðfestingu þjóðarinnar með einum eða öðrum hætti.