Skip to content

Nýjar spurningar í þjóðaratkvæðagreiðslu

Höfundur: Þorkell Helgason, March 29th, 2012

Að kvöldi 28. mars 2012 gekk meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis frá nýju uppleggi spurninga sem leggja eigi fyrir þjóðina samhliða forsetakosningum í sumar.  Í fljótu bragði virðast spurningarnar nú mun skýrari en þær upprunanlegu, einkum þó aðalspurningin um afstöðu til frumvarps stjórnlagaráðs.

Seinni umræða um málið hefst kl. 10:30 nú 29. mars. Þingið verður að afgreiða málið í dag eigi það að verða a af þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Texti nefndarmeirihlutans er nú svona:

    “Alþingi ályktar að tillögur að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga sem stjórnlagaráð afhenti forseta Alþingis 29. júlí 2011 og álitaefni þeim tengd skuli borin upp í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/2010, um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.
Þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram samhliða forsetakosningum 30. júní 2012.
Eftirfarandi spurningar verði bornar upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni:
1.     Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?
*    Já, ég vil að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.
*    Nei, ég vil ekki að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.
2.     Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?
*    Já.
*    Nei.
3.     Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?
*    Já.
*    Nei.
4.     Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?
*    Já.
*    Nei.
5.     Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?
*    Já.
*    Nei.
6.     Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?
*    Já.
*    Nei.
Jafnframt komi skýrt fram á kjörseðli að kjósandi geti sleppt því að svara einstökum spurningum.
Einnig geymi kjörseðillinn eftirfarandi skýringartexta: Stjórnarskrá er breytt þannig að frumvarp er lagt fram á Alþingi. Það er rætt við þrjár umræður og getur tekið breytingum í meðförum þingsins. Verði frumvarpið samþykkt skal rjúfa Alþingi og kjósa nýtt þing. Frumvarpið er þá lagt fram að nýju og samþykki Alþingi það óbreytt taka breytingarnar gildi að fenginni staðfestingu forseta. Stjórnlagaráð hefur skilað Alþingi tillögum að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Verði það lagt fram sem frumvarp á Alþingi fær það þá meðferð sem lýst hefur verið.”

 

Comments are closed.