Í umræðu gætir einatt misskilnings um tillögur stjórnlagaráðs um það hvernig kjósa skuli til Alþingis. Kjarni tillagnanna er einfaldur:

  • Flokkar velja frambjóðendur á lista, allt eins og verið hefur.
  • Listar eru ýmist kjördæmislistar eða landslistar. Sami frambjóðandi má vera á báðum stöðum.
  • Hver kjósandi fer með eitt atkvæði sem hefur sama vægi alls staðar á landinu. Hann getur varið því til að merkja við listabókstaf eða valið frambjóðendur með persónukjöri.
  • Þannig getur kjósandinn krossað annað hvort við einn kjördæmis- eða einn landlista, eins og nú, og leggur þá alla frambjóðendur á listanum að jöfnu.
  • Eða hann getur tekið þátt í persónukjöri og merkt við einn eða fleiri frambjóðendur á kjördæmis- eða landslista þess flokks sem hann vill styðja. Hann má tína til frambjóðendum ýmist af kjördæmis- eða landslistanum eða af báðum. Alþingi getur gengið lengra og heimilað kjósendum að velja frambjóðendur þvert á flokka.
  • Flokkarnir fá sín sæti og engar refjar á grundvelli allra atkvæða á landinu, hvort sem þau eru greidd listum hans beint eða skipt upp á milli einstakra frambjóðenda hans. Það mun því ríkja fullur jöfnuður á milli flokkanna, sem er engan veginn tryggt í núverandi kerfi.
  • Þeir frambjóðendur ná kjöri í sæti síns flokks sem njóta mest stuðnings í persónukjörinu hvort sem það er vegna merkinga á kjördæmis- eða landslistum.

Gagnrýni á þetta fyrirkomulag byggir í meginatriðum á því að kjósendum er vantreyst; að þeir kunni ekki að verja atkvæði sínu. Einhvern veginn á allt fara í vaskinn ef kjósandi skyldi sjá atkvæði sínu vel varið með því að víkja frá kjördæmislistum og styðja landslista síns flokks eða merkja við einhverja þá frambjóðendur sem þar er að finna. Er það þá ekki frjáls ákvörðun kjósandans sjálfs? Er löggjafinn þess umkominn að hafa vit fyrir kjósandanum?

Á síðustu öld voru einatt skörungar í framboði á Vestfjörðum, svo að dæmi sé tekið. Margir þeirra hefðu efalaust líka boðið sig fram á landslistum ef þess hefði verið kostur og hiklaust fengið mikinn stuðning „að sunnan“.

Flokksforingjar verða efalaust í boði á landslistum undir nýju kerfi. Dettur þá einhverjum í hug að kjósendur á landsbyggðinni sem merkja við þá séu að „svíkja“ kjördæmi sitt? Þvert á móti eru þeir að leggja áherslu á að foringjarnir hugsi nú um þá ekki síður en höfuðborgarbúana.

Stjórnlagaráð bíður engu að síður upp á svokallaða „kjördæmavörn“ í tillögum sínum. Alþingi má í kosningalögum tryggja að viss lágmarksfjöldi þingmanna verðin að koma af kjördæmislistum. Þannig mætti tryggja landsbyggðarkjördæmunum allt að 23 þingsæti beint af kjördæmislistum þótt það kunni að ganga að nokkru á svig við persónukjörið. Vonandi þarf ekki að beita þessu ákvæði þegar í ljós er komið að kjósendur vita fullvel hvað þeir eru að gera í kjörklefanum.

Kosningakerfið í tillögum stjórnlagaráðs er ekki að fullu útfært. Það á að sjálfsögðu að gera í kosningalögum, en kerfinu er settur rammi í tillögum ráðsins.

Meginsjónarmiðið er að hverjum kjósanda er treyst fyrir atkvæði sínu.