Ég hef oft hugleitt hvernig þjóðin getur búið við fámennið og jafnvel fært sér það í nyt. Meginsvarið er að það gerum við best með almennri þátttöku allra, með því nýta okkur allt okkar mannvit. Hefð er fyrir því að sumir, t.d. embættismenn, haldi sig til hlés í þjóðfélagsumræðunni. En höfum við efni á því? Oft er nær öll þekking eða vitneskja um einstök málefni hjá þröngum hópi manna. Verða þeir ekki að deila viti sínu með okkur hinum?

Hugsanir sem þessar fóru í gegnum kollinn á mér þegar ég var að ígrunda framboð mitt til stjórnalagþings. Ég tel mig hafa reynslu og þekkingu sem gagnast megi við endurgerð stjórnarskrárinnar, fyrir utan brennandi áhuga. En nú háttar svo til að ég hef verið viðriðinn undirbúning stjórnlagaþingsins allt frá því að fyrsta frumvarpið þar um var lagt fram á vorþinginu 2009. Þriggja manna nefnd, sem ég stýrði, samdi það ásamt frumvörpum um persónukjör, en hafði þó aðeins til þess örfáa daga. Síðla nýliðins sumars hef ég aftur unnið að stjórnlagaþingsmálinu, nú að tæknilegum þáttum þess. Ég hugleiddi því hvort ég væri of nákominn viðfangsefninu til að geta boðið mig fram og fór því í gegnum alla aðkomu mína að málinu en hnaut ekki um neitt sem gæti valdið hugsanlegum hagsmunaárekstri. Ég ákvað því að liggja ekki á liði mínu og bjóða mig fram. Um leið og sú ákvörðun lág fyrir hætti ég ráðgjöf við stjórnvöld um allt þetta mál og er nú í leyfi frá hlutastarfi mínu þar að lútandi. Ég get því um frjálst höfuð strokið.

Þegar þetta er ritað hafa nöfn frambjóðenda ekki verið birt. Ég vænti þess og vona að þar verði margt gott fólk. Efalaust eru þar á meðal fleiri en ég sem hafa þurft að spyrja sig hvort þeir gætu boðið sig fram starfa sinna vegna og komist að þeirri niðurstöðu að störfin ættu ekki að hindra þá í því að ljá málefninu lið.

Stjórnarskráin á það skilið að allir leggi sig fram.