[Vefsíðuhöfundur tók eftirfarandi saman fyrir landskjörstjórn eins og lesa má á síðu hennar: http://landskjor.is/kosningamal/kosningakerfi/nr/114]

Um úthlutun þingsæta gilda ákvæði XVI. kafla laga um kosningar til Alþingis, nánar tiltekið greinar 106 til og með 110.
Samkvæmt ákvæðum þessara laga fer úthlutun hinna 63 sæta á Alþingi fram í tveimur meginskrefum. Fyrst er kjördæmissætum úthlutað, en þau eru 54 að tölu. Kjördæmissætunum er alfarið úthlutað á grundvelli fylgis lista í hverju kjördæmi. Landsfylgið kemur ekki við sögu. Það gildir líka einu hvort viðkomandi flokkur hafi boðið fram í öllum kjördæmum eða ekki.
Síðan er jöfn­unarsætum úthlutað, en þau eru 9 talsins. Eins og nafn þeirra bendir til er tilgangur þeirra sá að „hver stjórnmálsamtök fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu sína“ eins og segir í 31. gr. gildandi stjórnarskrár. Það er ekki þar með sagt að fullur jöfnuður náist. Til þess kunna jöfnunarsætinsætin níu að reynast of fá.

Við úthlutun jöfnunarsæta koma þau og aðeins þau stjórnmálasamtök eða flokkar til álita sem hafa hlotið a.m.k. 5% fylgi samanlagt á landinu öllu. Þessi þröskuldur er tilskilinn skv. fyrrgreindu stjórnarskrárákvæði.

Úthlutun jöfnunarsætanna gerist þannig að þeim er samtímis skipt á milli stjórnmálasamtakanna og um leið ráðstafað til lista þeirra í ein­stökum kjördæmum.
Þegar sætum hefur þannig verið ráðstafað til lista á eftir að finna hvaða frambjóðendur hvers lista hljóta sætin. Þar ræður mestu uppstillt röð þeirra á listunum, en hún getur þó raskast ef nægilega margir kjósendur nýta sér rétt sinn í kjörklefanum til að breyta. Hér verður ekki vikið frekar að reglum þar að lútandi.
Í eftirfarandi lýsingu á sérstöku pdf.skjali er vísað til úrslita úr þingkosningunum 2009 til skýringar.