[Greinarstúfur þessi birtist í Morgunblaðinu 1. júlí 2014]
Þorkell Helgason
Skálholt hefur um aldir verið partur af þjóðarsálinni. Svo er enn eins og sannast hefur á þeim mikla og maklega áhuga sem ópera Gunnars Þórðarsonar hefur vakið, en í henni er fjallað um ástir í meinum á sjálfu biskupssetrinu, ástir þeirra Ragnheiðar og Daða. Sagt hefur verið að Ragnheiður hafi leikið á klavíkord en fátt er þó vitað um tónlistariðkun í Skálholti á öldum áður. Hitt er víst að nú er hafin í fertugasta sinn ein elsta og umfangsmesta tónlistarhátíðin á landinu, Sumartónleikar í Skálholtskirkju, og í þetta sinn er hún ekki af lakara taginu.
Í tilefni af fertugsafmælinu ljá norrænir sjóðir, samtök og listamenn hátíðinni lið. M.a. verða Sumartónleikar vettvangur þriðju EAR-ly-keppninnar, norrænnar samkeppni ungra tónlistarhópa sem leika forna tónlist á upprunaleg hljóðfæri.
Þá er það sérstakt fagnaðarefni að margir þeir sem voru frumkvöðlar Sumartónleikanna koma nú fram. Meðal þeirra er Ann Wallström fiðluleikari sem kornung kom í Skálholt, sá og sigraði hjörtu áheyrenda. Síðan hefur hún orðið að einum helsta túlkanda barokktónlistar í Svíaríki. Ann mun leika til minningar um Helgu Ingólfsdóttur semballeikara, stofnanda Sumartónleikanna, bæði að kvöldi 2. júlí og síðdegis hinn 5. júlí.
Annar frumkvöðull er hollenski fiðluleikarinn Jaap Schröder, en enginn erlendur listamaður hefur lagt hátíðinni jafnmikið lið og hann. Svo eru það frumkvöðlarnir Bachsveitin í Skálholti og sönghópurinn góði, Hljómeyki.
Stundum stendur styr um Skálholt. Það sýnir að engum stendur á sama um staðinn, kirkjuna og söguna. Nú er tækifæri til að gleðjast í Skálholti, njóta góðrar tónlistar á fögrum stað á hásumri. Um allt þetta má fræðast nánar á vefsíðunni www.sumartonleikar.is.
Það verður tónaveisla í Skálholti allan júlímánuð og fram á verslunarmannahelgi. Sem fyrr er aðgangur ókeypis.
Höfundur er stærðfræðingur og áhugamaður um málefni Skálholts.