[Viðbót 19. mars 2015: Lesendabréf mitt um fiskinn og evruna var birt skjótt og óstytt í Süddeutsche Zeitung í dag – við hliðina á mynd af páfanum! Sjá sá SZ Forum 19.03.15 og hér fyrir neðan, úrklippt. Fyrirsögnin er að vísu á þeirra ábyrgð en tekin upp úr mínum texta. ]]

Hið undarlega bréf utanríkisráðherra til kæra Edgars og kæra Hr. Hahn um þá stefnu ríkisstjórnarinnar um „að stöðva aðildarviðræðurnar [við Evrópusambandið] að fullu“ hefur verið til umræðu í erlendum fjölmiðlum og ekki síst í Þýskalandi þar sem ég held mig oft. Þannig var ítarleg ritstjórnargrein í aðalblaði Suður-Þýskalands, Süddeutsche Zeitung, um helgina 14.-15. mars 2015.

Fyrirsögn greinarinnar var sláandi,  Fisch und Euro (Fiskur í stað evru). Greinin er í aðalatriðum rétt og skilmerkileg, nema hvað mér þótti a.m.k. tvennt vanta. Því hef ég sent blaðinu lesendabréf undir yfirskriftinni Fisch und Euro (Fiskur og evra) þar sem ég fjalla um þetta tvennt:

  •  Í fyrsta lagi segi ég að ríkisstjórnin hafi sent bréfstúfin upp á eigin spýtur. Ekki hafi verið haft samráð við Alþingi eins og þó sé lögboðið (a.m.k. við utanríksmálanefnd) og því síður við þjóðina enda þótt stjórnarflokkarnir hafi lofað fyrir síðustu kosningar að bera samningamálin undir þjóðina. Síðan rek ég að meirihluti þjóðarinnar virðist vera á móti ESB-aðild en þó vilji enn stærri meirihluti þjóðarinnar að aðlildarviðræðurnar verði leiddar til lykta áður en greitt verði þjóðaratkvæði um aðildarsamning. Trúlega sé meiri hluti Alþingis sama sinnis. Þess vegna hafi ríkisstjórnin verið með þennan einleik og laumuspil.
  • Í öðru lagi bendi ég á að sjávarútvegsmálin hafi ekki enn verið tekin til umræðu í aðildarviðræðunum. Á hinn telji a.m.k. þeir sem er hlynntir ESB-aðild líklegt að við myndum halda forræði yfir fiskistofnunum þegar á reyndi. Í þessu sambandi segi ég mikilvægt að vita að núverandi stjórnarflokkar vilji einkavæða fiskimiðin með langtíma- ef ekki viðvarandi framsali á kvótunum til þeirra sem hafa þá nú undir höndum – og hafi þeir sömu raunar styrkt þessa flokka kröftuglega í kosningabaráttu þeirra.

Stórblöð eins SZ birta ekki nema brot af þeim bréfum sem þeim berast, svo að ég veit ekki enn um afdrif  bréfs míns. Þó hefur blaðið birt þau tvö bréf önnur sem ég hefi sent þeim undanfarin ár.

Skjalið „Fisch und Euro“ inniheldur bréf mitt og mynd af greininni í SZ.