Skip to content

Staksteinar villa um fyrir fólki og forseta

Höfundur: Þorkell Helgason, June 15th, 2015

[Birtist í Morgunblaðinu 12. júní 2015.]

Í Staksteinum Morgunblaðsins 9. júní sl. er spjótum beint að undirskriftasöfnuninni Þjóðareign.is þar sem skorað er á forsetann „að vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu hverjum þeim lögum sem Alþingi samþykkir þar sem fiskveiðiauðlindum er ráðstafað til lengri tíma en eins árs á meðan ekkert ákvæði um þjóðareign á auðlindum hefur verið sett í stjórnarskrá og þjóðinni ekki verið tryggt fullt gjald fyrir afnot þeirra.“ Auk hefðbundinnar aulafyndni í þessum ritstjórnardálki er farið með rangfærslur.

Í fyrsta lagi segir í Staksteinum: „Það er of seint að skora á forsetann að skrifa ekki undir … frumvarp [um makrílkvóta], því að það er hann búinn að gera fyrir löngu, ella hefði það ekki orðið stjórnarfrumvarp.“ Sú undirskrift forseta sem hér um ræðir er formsatriði og hefur forseti enga heimild til að inna hana ekki af hendi. Auk þess birtast stjórnarfrumvörp ekki almenningi fyrr en eftir að forseti hefur skrifað undir framlagningu þeirra en þá væri áskorun á forsetann um að gera það ekki of seint á ferðinni.

Þá segir: „Og of snemmt er að senda áskorun um lögin, því fyrst þarf að samþykkja þau og birta … og þá fyrst geta menn hafið áskoranir.“ Frá samþykkt frumvarps á Alþingi og þar til forseti skrifar undir líða oft ekki nema klukkustundir, í mesta lagi dagar. Það gefur því auga leið að undirskriftasöfnun á þeim örtíma er óframkvæmanleg enda hefur alltaf verið hafist handa við undirskriftir af þessu tagi meðan mál eru enn í umfjöllun Alþingis.

Samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar getur forseti hafnað því að undirskrifa lög frá Alþingi, en því fylgir ekki heimild til að neita að undirrita framlagningu stjórnarfrumvarpa. Enda hefur núverandi forseti með undirskrift sinni staðið að framlagningu þeirra þriggja stjórnarfrumvarpa (um fjölmiðla og tvö um Icesave) sem hann síðan neitaði að staðfesta sem lög frá Alþingi og lagði því í dóm þjóðarinnar.

Hvaða tilgangi þjóna þessar blekkingar í Staksteinum? Er verið að fæla fólk frá því að skrifa undir áskorunina með röngum upplýsingum? Eða er ætlunin að væna forsetann um tvískinnung ef hann, nauðbeygður eða ekki, fellst á framlagningu frumvarps en neitar síðan að skrifa undir þegar frumvarpið er orðið að lögum frá Alþingi?

Höfundur er einn af aðstandendum undirskriftasöfnunarinnar Þjóðareign.is

Comments are closed.