Kvótakerfið: Kjósendur eiga valið
[Eftirfarandi pistill eftir Þorkel Helgason og Bolla Héðinsson birtist í Fréttablaðinu 20. október 2016 og samdægurs á visir.is; sjá http://www.visir.is/kvotakerfid–kjosendur-eiga-valid/article/2016161029996]
Fyrir skömmu rituðum við grein í Fréttablaðið þar sem við lýstum fyrningar- og útboðsleið. Málið snýst um það hvernig ráðstafa skuli aflahlutdeildunum og innheimta eðlilegan auðlindaarð í gegnum varfærin útboð. Við teljum það raunhæfa málamiðlun. Af þeim flokkum sem bjóða fram í komandi kosningum verður að ætla að hið minnsta Björt framtíð, Dögun, Píratar, Samfylkingin, Viðreisn og Vinstri grænir, vilji að farin verði leið í anda þeirrar sem þar er reifuð.
Núverandi stjórnarflokkar, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur, hafa hingað til viljað halda sig fast við óbreytt kerfi sem mun smám saman færa útgerðinni eignarhald á þjóðareigninni, fiskimiðunum, gegn óverulegu afgjaldi. Veiðigjöld hafa verið lækkuð á kjörtímabilinu að tilstuðlan þessara flokka. Á hinn bóginn er augljóst að þrýstingur frá kjósendum fer sívaxandi um að horfið verði frá þessu gjafakvótakerfi eins og það er einatt nefnt. Þessi vilji kjósenda kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012 á þann hátt að meira en 80% þeirra vilja að ákvæði um þjóðareign á auðlindunum sé fest í stjórnarskrá.
Hvað vilja ríkisstjórnarflokkarnir?
Stefnuskrár stjórnarflokkanna eru afar rýrar um kvótamálin, sé horft til þess sem er að finna á vefsíðum þeirra. Það eina bitastæða, sem fram hefur komið um breytta stefnu úr herbúðum þeirra er frá Jóni Gunnarssyni alþingismanni og formanni atvinnuveganefndar Alþingis. Hann hlýtur því að teljast helsti talsmaður þessara flokka í kvótamálunum enda heyra þau undir nefnd hans. Jón hefur lýst hugmyndum sínum í grein í Morgunblaðinu 4. júlí sl. svo og í viðtali á morgunvakt á RÁS 1 hinn 19. september sl. Hann telur leið sína vera sáttaleið í þessu lykilmáli þjóðarinnar. Þessi leið verður hér eftir nefnd „ríkisstjórnarleiðin“.
Ríkisstjórnarleiðin er í vissulega einföld: Núverandi kvótahafar fái fiskimiðin afhent til langs tíma, væntanlega til eilífðarnóns, gegn því að skila ríkinu broti af þessum verðmætum. Lagt er til að útgerðin skili 5-7% kvótanna til eigendanna, þjóðarinnar, en haldi eftir 93-95% og þá endurgjaldslaust. Þetta gerist í eitt skipti, aðeins í upphafi þurfa útgerðirnar að láta 5-7% aflaheimilda sinna af hendi og síðan ekki söguna meir. Fyrirkomulagið er að vísu fært í flóknari búning; þann að útgerðin haldi kvótunum að fullu en láni ríkinu 5-7% af aflamarki hvers árs sem það geti síðan leigt út til smáútgerðanna. Leigugjaldið, sem ríkið kunni að fá, komi þá í stað veiðigjalds sem útgerðirnar greiða nú. Þar með séu kvótahafarnir kvitt við þjóðina.
Fyrning eða smáskil í eitt skipti
Hver er munurinn á ríkisstjórnarleiðinni og þeirri hugmynd um fyrningu og uppboð sem hefur lengi legið fyrir? Á þessu tvennu er reginmunur eins dregið er fram í meðfylgjandi töflu.
Fyrningar- og uppboðsleið | Ríkisstjórnarleiðin | |
Hvar enda kvótarnir? | Færast smám saman til baka til eigandans, þjóðarinnar. | Verða að langmestu leyti (amk. 93%) að ævarandi eign núverandi kvótahafa. |
Hvert skilar auðlindaarðurinn sér? | Þegar upp er staðið til þjóðarinnar í þeim mæli sem útgerðin sjálf telur sig ráða við. | Aðeins 5-7% af arðinum skilar sér til baka. Útgerðin heldur eftir afganginum. |
Markaðslausn? | Já, þær aflahlutdeildir sem losna á hverju ári eru boðnar upp. | Leigukvótarnir, sem útgerðin skilar, ættu að geta farið á markað. En þetta er aðeins brot af verðmætunum. |
Eru allir jafnréttsettir? | Já; þegar í byrjun verður enginn greinarmunur á þeim sem kaupa kvóta á uppboðum og hinum sem hafa þá frá fyrri tíð. | Nei; annars vegar verða það núverandi kvótaeigendur, sem halda amk. 93% kvótanna, en hinir verða leiguliðar. |
Pólitísk inngrip? | Það er pólitísk ákvörðun að ákveða fyrningarhlutfallið í upphafi, en eftir það er þarf engin inngrip. | Viðbúið að skilahlutfallið á aflamarki verði að árlegu pólitísku bitbeini. Sömuleiðis ráðstöfunin á ríkisleigukvótunum. |
Er leiðin þegar útfærð? | Fyrningarfyrirkomulagið sjálft er sáraeinfalt. Útfærsla á uppboðunum kallar á vandaðan undirbúning. | Það er einfalt að afhenda núv. kvótahöfum 93% kvótanna til eilífðarnóns. En eftir situr útfærsla á kvótaleigu ríkisins. |
Verður kollsteypa? | Nei; það verður engin kollsteypa. Með hóflegri fyrningu fær útgerðin ríflegan aðlögunartíma. Útgerðarmenn, núverandi og nýir, munu hafa megnið af sínum réttindum tryggð frá einu ári til þess næsta. | Það ekkert stórmál fyrir útgerðina að skila lítilræðinu 5-7% af kvótunum. Ríkisstjórnarleiðin felur hins vegar í sér kollsteypu eigi hún að vera jafngild fyrningarleiðinni. |
Er þetta sáttaleið? | Núvirði alls auðlindaarðsins skiptist nokkuð jafnt á milli þjóðarinnar og útgerðarinnar. Er það ekki ekta málamiðlun, sáttleið? | Kjósendur verða að dæma um það hvort það felist sátt í því að afhenda einkaaðilum 93% þjóðareignarinnar endurgjaldslaust. |
Varanleg lausn | Eftir að kerfið er komið á heldur það sér sjálft við og er því til frambúðar. | Aðeins varanleg lausn ef þjóðin getur sætt sig hina miklu eftirgjöf. |
Í þingkosningunum 29. október nk. verða kjósendur m.a. að taka afstöðu til hugmynda um farsæla lausn á áratuga deilumáli, um skiptingu þeirra miklu gæða sem felast í nýtingu fiskimiðanna. Fyrningarleiðin er leið til að hafa opna gegnsæja tilhögun á úthlutun veiðiheimilda þar sem allir standa jafnir og þjóðin sér og veit að tímabundin úthlutun fiskveiðiheimildanna er á valdi þjóðarinnar en ekki forréttindi fárra.
Valkostirnir eru vald stjórnmálamanna í bakherbergjum með þeirri óvissu sem því hefur fylgt eða markaðsákvarðanir sem teknar yrðu með útboði fyrir opnum tjöldum með tilboðum frá fyrirtækjum sem gerst þekkja eigin rekstur og vita hvaða upphæðir þeir treysta sér til að bjóða.
Vilja kjósendur þá flokka sem hyggjast festa óbreytt ástand í sessi með varanlegri afhendingu nánast allra aflaheimilda til núverandi útgerðarmanna? Eða vilja þeir að farin sé varfærin málamiðlunarleið sem færi auðæfin til baka til samfélagsins? Þessu verður að svara við kjörborðið.
Comments are closed.