[Við Jóns Steinsson, hagfræðingur höfum tekið saman eftirfarandi yfirlit yfir fyrirætlanir Færeyinga um kvótauppboð og komið efninu á framfæri við nokkra fjölmiðla.]

Nefnd skipuð af sjávarútvegsráðherra Færeyja skilaði 3. október s.l. ítarlegri skýrslu um skipan fiskveiðistjórnunar sem taki gildi í ársbyrjun 2018 en þá falla núverandi fiskveiðistjórnunarlög úr gildi. Skýrsluna má finna á vef ráðuneytisins færeyska; sjá http://www.fisk.fo/kunning/tidindi/neydugar-tillagingar-i-foroysku-fiskivinnuni/.

Skýrsla nefndarinnar ber heitið „Ný og varanleg skipan fiskveiðimála fyrir Færeyjar“. Hún er afar ítarleg, nær 250 síður að lengd, og áhugaverð fyrir alla þá sem er umhugað um að finna góða málamiðlun í kvótamálunum hér á landi.

Nefndinni var með erindisbréfi ráðherra falið að fjalla um öll lykilatriði í skipan færeysks sjávarútvegs. Í þessu yfirliti verður þó einblínt á þann þátt í erindisbréfinu sem felur nefndinni að útfæra skipan á stjórnun veiðanna sem byggir á markaðslausnum. Nefndin leggur til að þetta verði útfært með uppboðum á veiðiheimildum. Nánar tiltekið leggur hún til  að árlega verði allstór hluti fiskveiðiheimilda boðinn upp en rétturinn að afganginum framlengdur til árs í senn. Þó skal það þannig gert að þegar frá upphafi renni auðlindarentan að fullu í landssjóð. Lagt er til val á milli tveggja leiða sem þó eru náskyldar. Hér verður þó aðeins horft til þeirrar leiðarinnar sem er einfaldari í framsetningu, leiðar 2.

Þessa meginleið færeysku nefndarinnar má bera saman við hugmyndir hér á landi um varfærna fyrningu veiðiheimilda og uppboð á þeim heimildum sem þannig losna. Má þar vísa til skýrslu sem við undirritaðir unnum fyrir stjórnskipaða nefnd um endurskoðun á stjórn fiskveiða sumarið 2010, nánar tiltekið til þeirrar gerðar þar sem hluti aflaheimilda er boðinn upp til árs í senn en með skertum forleigurétti um framhaldið. Skýrsla okkar er aðgengileg hér: http://www.columbia.edu/~js3204/greinar/tilbodsleidin.pdf

Bæði í færeysku hugmyndunum og hugmyndum okkar er gengið út frá aflamarkskerfi til ráðstöfunar á leyfðum heildarafla. Jafnframt hafa hugmyndirnar það sammerkt að í upphafi er gengið er út frá þeim heimildum sem útgerðirnar hafa þá og þeim endurúthlutað með vissri skerðingu eða fyrningu. Þessi skerðing haldi síðan áfram hlutfallslega á hverju ári. Það sem þannig losnar verði boðið upp til árs í senn með fyrirheiti um endurúthlutun en með fyrrgreindum skerðingarákvæðum. Í báðum hugmyndunum má setja tilbjóðendum skilyrði eins og að þeir verði að vera innlendir og að setja megi því skorður hvað safnast megi á sömu útgerð.

Hugmyndirnar eru þó gjörólíkar að því leiti að Færeyingar vilja bæði bjóða stærri hluta heimildanna upp á hverju ári en við lögum til í okkar hugmyndunum. Ennfremur fá núverandi handhafar veiðiréttindanna enga fjárhagslega aðlögun í tillögum Færeyinganna, en í okkar hugmyndunum er núverandi kvótahöfum veitt drjúg aðlögun. Draga má þennan afgerandi mun saman þannig:

  • Færeyingar vilja bjóða upp 20% heimildanna á hverju ári en endurúthluta 80%. Í okkar hugmyndum er gengið út frá mun hægari innkomu uppboða, eða 8% á ári. Endurúthlutunarhlutfallið er að sama skapi hærra í okkar tillögum, eða 92%.
  • Færeyingar veita þeim útgerðum, sem fyrir eru, engin grið. Enda þótt þeim sé gefin kostur á að fá 80% af fyrri heimildum endurúthlutuðum – fram hjá uppboðunum – þurfa þeir að greiða fyrir þær heimildir fullt verð, það verð sem verður til á uppboðunum. Í okkar hugmyndum fá núverandi kvótahafar 92% réttinda sinna framlengd og það án nokkurs endurgjalds, en með árlegri skerðingu.
  • Auðlindaarðurinn – sá umframarður sem verður til við nýtingu takmarkaðra en eftirsóttra gæða – er strax í upphafi innheimtur að fullu í landssjóðinn í tillögum Færeyinga. Í okkar hugmyndum er aðeins 8% arðsins innheimtur á fyrsta ári og eftir að nýtt kerfi væri búið að vera í gildi í 9 ár skiptist þessi aukaarður enn að jöfnu milli samfélagssjóða og gömlu útgerðanna.

Aðferðafræðin í hugmyndum færeysku nefndarinnar og í uppboðs- og fyrningarleiðinni eins og við höfum útfært hana er að grunni til eins. Það sem á milli skilur er hvað Færeyingar vilja fara greitt af stað. Okkar tillögur eru varfærnari og veita núverandi útgerðum mjög drjúgan aðlögunartíma.

Meginatriðin í færeysku hugmyndunum og okkar hugmyndum koma fram í eftirfarandi viðauka, þar sem tillögurnar eru um leið bornar saman.

 

Þorkell Helgason, thorkellhelga@gmail.com, + 354 499 3349 og + 354 893 0744

Jón Steinsson, jsteinsson@columbia.edu, +1 857 919 3675


 

 

Viðauki: Samanburður á tillögum nefndar Færeyinga og okkar hugmyndum um fyrningar- og uppboðsleið. Þau atriði þar sem verulegu munar eru með rauðu letri.
Atriði Færeyingar Þorkell og Jón
Stjórn fiskveiðanna Aflamarkskerfi, þar sem skilgreindur er leyfilegur afli hvers fiskiskips af hverri tegund á viðkomandi ári. Aflamarkskerfi, eins og verið hefur og tillaga Færeyinga gengur út frá.
Uppboð 20% aflaheimilda hvers árs verði boðin upp með fyrirheiti um endurúthlutun. 5-15% (t.d. 8%) aflaheimilda hvers árs verði boðin upp með fyrirheiti um endurúthlutun.
Fyrirkomulag uppboða Ýmsar hugmyndir reifaðar en lagt til að leitað verði til alþjóðlegra sérfræðinga um endanlega útfærslu. Setja megi ýmis skilyrði, svo tilboð aðeins frá innlendum útgerðum og takmörkun á samansöfnun. Fyrirkomulagið er reifað, en einkum bent á jaðarverðsuppboð þar sem enginn greiði meira en felst í því lægsta tilboði sem tekið er. Sömu skilyrði nefnd og hjá Færeyingum.
Endurúthlutun Útgerðum standi til boða að fá 80% aflaheimilda fyrra árs endurúthlutað en gegn fullu markaðsgjaldi. Útgerðum standi til boða að fá 85-95% (sem dæmi 92%) aflaheimilda fyrra árs endurúthlutað, en án endurgjalds.
Viðmið fyrningar og forkaupsréttar Afli fyrra árs. Aflahlutdeild fyrra árs.
Eru hlutföll endurúthlutana og fyrninga föst? Nei, þeim má breyta vegna breytinga á leyfðum heildarafla. Já, en þó eru reifaðar hugmyndir um breytileika.
Greiðsla fyrir endurúthlutun uppboðinna aflaheimilda Allir greiði að fullu fyrir endurúthlutaðar heimildir, það sama verð og fram kemur í uppboðunum. Greitt verði uppboðsverð hvers tíma fyrir framlengingu þeirra aflaheimilda sem fegnar hafa verið til ársleigu á uppboðunum.
Greiðsla fyrir endurúthlutun gamalla aflaheimilda Reglan um greiðslu fyrir framlengingu leyfa gildir jafnt um þá sem stunduðu veiðar fyrir upptöku nýs kerfis sem og hinna sem afla sér nýrra heimilda á uppboðunum. Allir greiða fullt auðlindagjald. Þeir sem eru handhafar kvóta þegar kerfið tekur gildi þurfa EKKI að greiða neitt fyrir hinn endurúthlutaða hluta leyfa sinna.
Greiðslufyrirkomulag Nefndur er sá möguleiki að ekki þurfi að greiða fyrr en fiskinum er landað. Jafnframt bent á að greiðsla fyrir endurúthlutuð leyfi geti tekið mið af almennu fiskverði. Allt þetta kemur og til greina í hugmyndum undirritaðs, en viðmiðið við fiskverð virðist bæði flókið og óþarft, þar sem breyting á fiskveði mun strax endurspeglast í uppboðsverðinu.
Aðlögun núv. útgerða Engin aðlögun. Allir greiða markaðsverð fyrir allar veiðiheimildir. Eina aðlögunin er forkaupsréttur m.v. fyrri afla (kvóta). Mikið forskot. Núverandi kvótahafar fá endurúthlutað, með vægri skerðingu, endurgjaldslausa kvóta.
Auðlindarentan Skilar sér strax að fullu í landssjóðinn. Núv. kvótahafar halda eftir um helmingi auðlindarentunnar, þegar allt framtíðarvirðið er dregið saman á núvirði.