Skip to content

Umsögn um hugmyndir flokksformanna um stjórnarskrárákvæði um forsetann

Höfundur: Þorkell Helgason, July 22nd, 2020

Klúbbur formanna stjórnmálaflokka á Alþingi heldur áfram bútasaum á stjórnarskránni gömlu og lúnu. Nú hafa þeir birt á Samráðsgáttinni hugmyndir um breytingar stjórnarskrárákvæðum um forseta Íslands, ríkisstjórn, verkefni framkvæmdarvalds o.fl.  Gefinn var afar stuttur tími til að senda inn umsagnir.

Ég hef þó sent inn allítarlega umsögn sem hér má rekja í heild sinni (eftir leiðréttingu á par ritvillum!): ÞorkellHelgasonUmsognForsetamal.

Einnig má finna þessa umsögn mína (þá nr. #1o8) og aðrar á Samráðgáttinni: https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=2713#advices

Ég spyr þar hvort það samræmist yfirlýstu markmiði um „gagnsæi“ við þetta viðfangsefni að fela tveimur lögfræðingum, þótt mætir séu, að ganga frá þessum hugmyndum og það í frumvarpsformi án þess að fram komi hvað er hvurs, formannanna og lögfræðinganna.

Þá lýsi ég vonbrigðum yfir því að hvergi er hægt að sjá hvort eða hvaða áhrif umsagnir um fyrri hugmyndir formannaklúbbsins hafa haft.

Ég tel að með frumvarpsdrögunum horfi margt til bóta, enda er víða byggt á sjónarmiðum Stjórnlagaráðs. Á hinn bóginn þarf meira til þess að úr verði heilsteypt og samræmd endurskoðun á stjórnarskránni. Því bendi ég enn og aftur á að tillögur Stjórnlagaráðs frá sumrinu 2011 eru eini grundvöllur að stjórnarskrárbótum sem hefur hlotið beina lýðræðislega umfjöllun og þjóðarstuðning.

Nokkrir punktar úr umsögn minni:

  • Hnykkja ætti á því að allt vald komi frá þjóðinni en kjörnir fulltrúar fari með það í hennar umboði.
  • Þess er saknað að ekki skuli tekin upp tillaga Stjórnlagaráðs um raðval til að tryggja að kjörinn forseti njóti á endanum stuðnings meirihluta kjósenda.
  • Spurt er um það ákvæði sem á að takmarka setu forseta við tólf ár. Óljóst er hvort sami maður geti gegnt embættinu enn lengur sé seta hans í stóli ekki samfelld.
  • Tillögur um aðkomu forseta að stjórnarmyndun eru athyglisverðar en verða ekki gagnrýndar innan þess stutta tímafrests sem gefinn er.
  • Dregið er í efa að ríkisráð hafi einhvern tilgang.
  • Því miður eru „þykjustuhlutverk“ forseta ekki afnumin, jafnvel nýjum bætt við.
  • Orðlag um gildistöku nýs ákvæðis um hámark á embættistíð forseta þykir óskýrt.
  • Brýnt er að stjórnarskrá sé öllum læsileg og aðgengileg og verði þjóðinni hjartfólgin. Bútasaumuð stjórnarskrá er ekki til þess fallin.

Comments are closed.