Skip to content

Umsögn um frumvarp um jöfnun atkvæðavægis

Höfundur: Þorkell Helgason, November 9th, 2020

Þingmenn Viðreisnar hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um fulla jöfnun atkvæðavægis. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins bað mig um umsögn, sem ég gerði og lagði talsverða vinnu í með aðstoð Péturs Ólafs Aðalgeirssonar stærðfræðings. Umsögn mín er á faglegum nótum með ábendingum um hvað megi tæknilega betur fara í frumvarpstextanum. Jafnframt geng ég ögn lengra og reifa þann möguleika að skipta Suðvesturkjördæmi í tvennt til að jafna að nokkru stærð kjördæmanna.

Ég var kallaður á fjarfund nefndarinnar 16. nóv. 2020 til að reifa umsögnina og svara spurningum. Í kjölfar fundarins endurskoðaði ég umsögnina með hliðsjón af athugasemdum nefndarmanna. Þessa endurskoðuðu gerð er að finna á síðu Alþingis, https://www.althingi.is/altext/erindi/151/151-418.pdf. Enn fremur hér: Umsögn um frv. um jöfnun atkvæðavægis ÞH endurskoðuð.

Á nefndarfundinum fór ég yfir efni umsagnar minnar með glærusýningu, sem forvitnir geta fundið hér: YfirlitViðreisnFrvUmsögn.

 

Ég hef á öðrum vettvangi ekki farið leynt með þá skoðun mína að jafnt vægi atkvæða heyri til grundvallarmannréttinda. Þetta var og sjónarmið okkar í Stjórnlagaráði.

Í fyrstu umræðu um frumvarpið var ekki að heyra neina efnislega andstöðu. Þvert á móti. T.d. sagðist Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og sérfræðingur í þessum málaflokki, „get[a] tekið undir öll meginmarkmið frumvarpsins“ og bætti við: „Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt markmið að jafna atkvæðisréttinn.“

Geta þingmenn ekki þetta sinn náð saman um stórmál hvað sem flokkslínum líður?

Comments are closed.