Í þættinum Silfrið í ríkissjónvarpinu sunnudaginn 8. nóvember sl. var viðtal við Cathrine Dupré um stjórnarskrármálið í tilefni af nýútkominni bók sem hún og Ágúst Þór heitinn Árnason ritstýrðu. Sjá https://www.ruv.is/utvarp/spila/silfrid/29054?ep=8l2ifu.
Eins og gengur þegar útlendingar fjalla um íslensk mál skolast ýmislegt til, þótt um margt sé þetta áhugavert viðtal.
Ég hnaut þó sérstaklega um það að spyrlan (Fanney Birna Jónsdóttir) spurði hvort erfitt væri að breyta stjórnarskránni sem nú gildir, þ.e. með ákvæðum þar um í 79. gr. hennar. Katrín franska sagði svo vera, en bætti því við að þjóðin kæmi verulega að breytingarferlinu, jafnvel í þrígang í hvert sinn. Þjóðin kysi þing sem samþykkti stjórnarskrárbreytinguna í fyrra skiptið, kysi svo aftur þing til að staðfesta (eða hafna) breytingarfrumvarpinu og síðan væri forsetinn, sem þyrfti að undirskrifa stjórnarskrárlögin, þjóðkjörinn. Hann gæti skotið málinu til þjóðarinnar (skv. 26. gr.).
Að mínu mati fer Cathrine Dupré hér vill vega. Hún lýsir formalisma en ekki raunveruleikanum. Ég tel þvert á móti bæði auðvelt að breyta stjórnarskránni, jafnvel of auðvelt, og jafnframt að þjóðin hafi nánast enga almenna aðkomu að stjórnarskrárbreytingum skv. ákvæðum gildandi stjórnarskrár.
Ég veit ekki til þess að þing hafi nokkru sinni verið kosið sérstaklega til að leggja fram tiltekna stjórnarskrárbreytingu. Kosningar snúast um almenn málefni, sem oftast eru efnahagsmálin. Á lýðveldistímanum hafa kosningar aðeins einu sinni lotið alfarið að staðfestingu á stjórnarskrárbreytingu. Það var árið 1959. Breytingin þá var á ákvæðum um kjördæmaskipan og úthlutun þingsæta. Flokkarnir, sem að þeirri breytingu stóðu, lofuðu kjósendum því á undan fyrri kosningunum, þeim um vorið, að þing yrði rofið eftir að nýtt þing hefði staðfest breytinguna og kosið yrði á ný. Því væri breytingin á kosningaákvæðunum eina málið í vorkosningunum.
Var þetta fyrirkomulag 1959 merki um beint lýðræði, um að þjóðin fengi að kjósa um stjórnarskrárbreytingu, þótt með óbeinum hætti væri? Nei, ég leyfi mér að fullyrða að lýðræðisást lá ekki að baki þessu fyrirkomulagi, heldur var þetta valdapóltík. Breytingin á kosningaákvæðunum var einkum til þess gerð að ná auknum jöfnuði á milli flokkanna, m.ö.o. að ná sem flestum þingsætum af Framsókn sem flokkurinn hafði alla tíð fengið umfram það sem hann átti tilkall til miðað við landsfylgi. Framsóknarflokkurinn var auðvitað á móti breytingunni. Hinir flokkarnir vildu aftur á móti geta uppskorið ávinninginn strax. Þess vegna skyldi kosið aftur, sem var gert um haustið 1959 og þá á grundvelli nýrra kosningaákvæða á grundvelli nýrra kosningaákvæða. Í kjölfarið kom svo Viðreisnarstjórnin, en það er önnur saga.
Fullyrða má að þjóðin hafi í þetta eina sinn, alla vega eftir lýðveldisstofnunina, fengið raunverulegt tækifæri til að tjá sig um stjórnarskrárbreytingu, en þó aðeins á flokkspólitískum grundvelli. Þeir sem voru á móti breytingunni 1959 hefðu þurft að kjósa Framsókn, sér e.t.v. að öðru leyti þvert um geð.
Hér var ekki boðið upp á kosningu með jái eða neii um stjórnarskrárbreytingu. Það hefur aðeins tvívegis gerst. Fyrst um sambandslögin 1918, en í 2. mgr. 21. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 12/1915 var kveðið á um að samþykkti „Alþingi breyting á sambandinu milli Íslands og Danmerkur skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar“.
Hitt dæmið er um stjórnarskrárbreytinguna, sem stofnun lýðveldisins 1944 kallaði á, og fjallaði um að skipta út orðinu „kóngur“ fyrir „forseta“! Þá var beitt ámóta aðferð, þeirri að í sjálfum stjórnskipunarlögunum, er kveðið á um þjóðaratkvæðagreiðsluna. Þessi stjórnarskrárgrein hljóðar svo: „81. gr. Stjórnarskipunarlög þessi öðlast gildi, þegar Alþingi gerir um það ályktun, enda hafi meiri hluti allra kosningarbærra manna í landinu með leynilegri atkvæðagreiðslu samþykkt þau.“
Merkilegt nokk er þessi grein enn í gildi. Alþingi væri í lófa lagið að gefa þjóðinni kost á að velja eða hafna breytingum á stjórnarskránni með þessum hætti. Ég benti á það vorið 2013 að þannig mætti fara að um frv. stjórnlagaráðs eða frv. á grundvelli þess.
Í Silfrinu var þessi kostur ekki reifaður. Í þess stað nefndi Cathrine Dupré að þjóðin hefði þriðju leiðina til að hafa áhrif á stjórnarskrárbreytingu, þ.e. með því að kjósa forseta Íslands, en hann gæti neitað að undirskrifa stjórnarskipunarlög sem færu þá í þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og hver önnur lög. Þetta er auðvitað út í hött. Skyldi þjóðin t.d. hafa kosið Ólaf Ragnar Grímsson forseta 1996 til þess að hann síðan myndi ekki undirskrifa stjórnarskrárbreytinguna 2013, 17 árum síðar; breytingu sem skaut fyrst upp kollinum nokkrum mánuðum á undan? (Hann skrifaði reyndar undir!) Þetta kalla ég lögfræðilegan formalisma.
Niðurstaðan er sú að það er auðvelt fyrir einfaldan meirihluta á Alþingi að breyta stjórnarskránni án þess að gefa þjóðinni raunhæfan kost á að hafa áhrif.
Hvað ef gerræðisleg stjórnarskrárbreyting væri samþykkt á Alþingi?[1] Þá er að vona að þjóðin myndi bera gæfu til að kjósa stjórnmálasamtök sem hefðu það eitt að markmiði að staðfesta ekki breytinguna, enda myndu samtökin lofa því að standa síðan að þingrofi. Í kjölfarið mætti svo kjósa um önnur mál – og síðan drægi þessi sérmálshreyfing sig í hlé. Væri þetta haldreipi til að sporna við hugsanlegri gerræðisstjórn? Sporin frá Ungverjalandi og Póllandi hræða, þó aðeins sé tekin nýleg dæmi og enn verri dæmi fyrr á síðustu öld látin ónefnd.
[1] Bráðbirgðaákvæði það, sem skotið var inn 2013 til þess að réttlæta það að gera ekkert með tillögur Stjórnlagaráðs, var að mínu mati af þessum toga. Ákvæðið hefði gert það næsta ógerlegt að breyta stjórnarskránni á ný. Sem betur fer var ákvæðið bæði valkvætt og tímabundið. Sem almennt ákvæði myndi það frysta stjórnarskrána um ókomna tíð og væri því stórhættulegt að mínu mati.