Skiptir vilji þjóðarinnar máli í komandi kosningum?
[Birtist í Kjarnanum 31. ágúst 2021.]
Ný könnun Gallups sýnir að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem spurðir voru er hlynntur því „að útgerðin greiði markaðsgjald fyrir afnot af fiskimiðunum“. Spurningunni svipar til ákvæðisins í stjórnarskrártillögum Stjórnlagaráðs um að greiða skuli „fullt gjald“ fyrir afnot af auðlindum í þjóðareigu.
Meginniðurstaðan úr könnuninni er sú að 77% þeirra sem svöruðu eru hlynntir því að krafist sé markaðsgjalds en einungis 7% eru því andvígir. Afgangurinn, 16%, tók ekki afstöðu. Sé þessum óákveðnu sleppt eru tæplega 92% hlynntir en rúm 8% andvígir. Og þetta er næsta óháð kyni, menntun og tekjum þeirra spurðu. Landsbyggðarfólk er meira hikandi en höfuðborgarbúar, en sé horft fram hjá óákveðnum er munurinn eftir búsetu vart marktækur. Nokkur munur er á afstöðu fólks eftir því hvaða flokk það hyggst kjósa. Þó er meirihluti fólks í öllum flokkum hlynntur markaðsgjaldi, eða frá 54% upp í meira en 90% hjá þremur flokkanna. Sé aftur horft fram hjá hinum óákveðnu er stuðningurinn hjá kjósendum einskis flokks minni en 76%.
Þessi afgerandi niðurstaða kemur svo sem ekki á óvart enda í samræmi við margar kannanir af svipuðum toga og raunar líka við svör kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012 um það hvort lýsa eigi náttúruauðlindir sem þjóðareign í stjórnarskrá. Af þeim sem þá tóku afstöðu voru 83% þeirrar skoðunar.
En ekkert gerist
Málið er þæft fram og til baka og út úr því snúið. Sama má segja um ýmis mál önnur þar sem þjóðin virðist mjög á annarri skoðun en þingmeirihlutinn á hverjum tíma. Vissulega kjósum við fulltrúa til að ráða málum okkar. Samt er eitthvað við það bogið þegar þing og þjóð eru gjörsamlega ósammála um mikilvæg grundvallarmál árum og áratugum saman. Hví kjósum við þá ekki þá flokka sem eru sömu skoðunar og við? Hængurinn er sá að flokkar bjóða aðeins upp á einn matseðil hver. Þótt aðalrétturinn kunni að vera girnilegur kjósandanum hefur hann kannski litla lyst á eftirréttinum. Kjósendur ganga ekki að hlaðborði þar sem þeir geta valið sér matseðilinn.
Hví ekki spyrja þjóðina?
Samkvæmt stjórnskipan okkar er nánast aldrei leyft að leita til kjósenda um einstök mál. Hví ekki að leyfa það í einhverjum mæli? Sagt er að þjóðin geti haft rangt fyrir sér? En hver er dómbær í þeim efnum aðrir en þjóðin sjálf? Væri það goðgá að spyrja þjóðina skýrt og skorinort hvort hún vilji að greitt sé fullt gjald, markaðsgjald, fyrir afnot af auðlindum í almannaeigu? Reynist það fá tiltekinn lágmarksstuðning væri stjórnvöldum gert skylt að útfæra ákvæðið og bera lög þar að lútandi aftur undir þjóðina. Þetta gerist þó ekki án stjórnarskrárbreytingar. Stjórnlagaráð var með tillögu í þessum dúr, en það fór á sama veg og annað: Enda þótt tveir þriðju hlutar þeirra sem afstöðu tóku í fyrrgreindri þjóðaratkvæðagreiðslu lýstu sig því fylgjandi að tillögur ráðsins yrði grundvöllur að nýrri stjórnarskrá og enn fleiri, eða nær þrír fjórðu hlutar, vildu að mál gætu farið í þjóðaratkvæðagreiðslu, hefur tillögunum öllum verið stungið undir stól.
Á meðan þjóðin fær ekki að tjá sig beint verða þeir sem vilja fá fullt afnotagjald fyrir eigur sínar að herja á flokkana í komandi kosningum. Flokkarnir hljóta að taka mark á meirihluta kjósenda sinna.
Höfundur Þorkell Helgason, sat í Stjórnlagaráði og er félagi í Þjóðareign
Comments are closed.