Skip to content

Er kosning til stjórnlagaþings í hættu?

Höfundur: Þorkell Helgason, October 19th, 2010

Um fimm hundruð manns hafa boðið sig fram til kosninga til stjórnlagaþings. Fram hafa komið áhyggjur af því að kosningin geti farið úrskeiðis sakir þessa mikla fjölda frambjóðenda. Þessi ótti er ástæðulaus. Undirbúningur kosninganna miðaðist við að tala frambjóðenda gæti orðið há, jafnvel þúsundir. Af þeim sökum varð skráin yfir frambjóðendurna að vera aðskilin frá sjálfum kjörseðlinum. Frambjóðendalistinn verður vissulega stór en kjörseðillinn er óháður fjölda frambjóðenda. Hann mun því ekki vefjast fyrir mönnum.

Jafnframt var valin kosningar- og talningaraðferð sem hentar betur en aðrar þegar frambjóðendur eru þetta margir. Horfið var frá því að láta kjósendur hafa aðeins kross til að velja sér frambjóðendur heldur fá þeir að raða þeim í forgangsröð. Með einum krossi fer mikill meiri hluti atkvæða forgörðum, þau hafa í reynd engin áhrif á það hverjir ná kjöri. Það er ekki lýðræðislegt niðurstaða. Með forgangsröðun og viðeigandi talningaraðferð næst að tryggja nær öllum kjósendum áhrif á niðurstöðuna.

Stjórnlagþingskosningin getur orðið sigur fyrir lýðræðið. Til þess að svo megi verða þurfa kjósendur að taka öflugan þátt í kosningunni, velja sér frambjóðendur af kostgæfni og raða allt að 25 þeirra í forgangsröð.

Comments are closed.