Skip to content

Þingræði eða forsetaræði?

Höfundur: Þorkell Helgason, October 28th, 2010

Við búum við þingræði á Íslandi, ekki forsetaræði, enda þótt orðlag gildandi stjórnarskrár um valdsvið forseta sé óljóst. Það verður eitt stærsta verkefni stjórnlagaþings að taka af skarið í þessum efnum.

Hvað er átt við með þessum hugtökum? Stuttar skilgreiningar eru þessar:

Þingræði er sú stjórnskipun að ríkisstjórn geti aðeins setið með stuðningi löggjafarþingsins, Alþingis. Kjósendur hafa þannig ekki beina aðkomu að vali á ríkistjórn heldur aðeins í gegnum fulltrúa sína, þingmennina.

Forsetaræði er nafgift sem er notuð um það að framkvæmdarvaldið sé í höndum forystumanns eða manna, forseta eða forsætisráðherra, sem kjörnir eru beint af þjóðinni óháð hvernig þjóðþingið, Alþingi, er skipað.

Spurningin er hvort við eigum í meginatriðum að halda í þingræðið eða snúa við blaðinu. Hvor leiðin sem farin verður er verk að vinna. Þingræðisleiðin verður ekki farin óbreytt. Það verður þá a.m.k. að kveða skýrt á um hana og skilgreina hlutverk forsetans í þeim efnum. Viðsnúningur að hreinu forsetaræði þarfnast vitaskuld ítarlegrar yfirlegu.

Það er skiljanlegt að margir horfa nú hýru auga til fullkomins aðskilnaður löggjafar- og framkvæmdarvalds, skiljanlegt eftir áratugi þar sem valdið hefur í meginatriðum verið hjá framkvæmdarvaldinu. Hjá öðrum kann ástæðan að vera meint getuleysi Alþingis til að taka á málum sjálft.

Hvort fyrirkomulagið vil ég? Um það fjalla ég í öðrum pistli.

Comments are closed.