Skip to content

Virkt þingræði

Höfundur: Þorkell Helgason, October 29th, 2010

Hvort vil ég halda í þingræðið eða taka upp hreint forsetaræði? Annars vegar ræður þingið því í reynd hverjir skipa ríkisstjórn eða þá að foringi ríkisstjórnar er kosin beint af almenningi. Ég verð að játa að ég hef sveiflast nokkuð til í þessum efnum eftir þeim rökum sem ég hef heyrt. En því betur sem ég kynni mér málið, horfi til baka yfir reynsluna hallast ég nú að þingræðisleiðinni en þó í þeirri gerð sem henti okkur sem fámennri þjóð. Nái ég kjöri á stjórnlagaþing mun ég þó í þessum málum sem öðrum hlusta á rök annarra.

Vík ég þá að rökum mínum fyrir þingræðisleiðinni:

  • Þingræðisleiðin er sú leið sem við höfum farið í meira en öld. Söðlum ekki um nema að vel athuguðu máli. Spyrjum heldur hvað hafi á bjátað og mætti laga að meginstefnunni óbreyttri. Meinið er að hér hefur ekki ríkt raunverulegt þingræði. Ríkisstjórn – og þó einkum frægir forystusauðir ríkisstjórna sem þarf ekki að nefna – hafa farið sínu fram án þess að þingið hafi gripið í taumana. Ég kem að því síðar hvernig megi styrkja þingræðið.
  • Gæti ekki þjóðkjörinn forseti eða forsætisráðherra orðið mjög valdamikill? Allt vald spillir. Það yrði þá að minnsta kosti að búa þannig um hnútana að enginn gæti verið í slíkri aðstöðu nema mjög takmarkaðan tíma.
  • Ef við tækjum upp fullan aðskilnað þings og ríkisstjórnarvalds væri það að óbreyttu ójafn leikur. Þjóðkjörinn forsætisráðherra eða forseti hefði allt stjórnarráðið undir sér og væri því með ótvírætt forskot á þingið um þekkingu og sérfræðingalið. Þingið myndi skjótt bregðast við. Hugboð mitt er að þingið kæmi sér upp umtalsverðu sérfræðingaliði til að eiga í fullu tré við framkvæmdarvaldið. Grófir reikningar benda til 2-3 milljarða kr. kostnaðarauka á ári sem er ámóta og niðurskurðurinn á sjúkrahúsunum nú. Höfum við efni á því?
  • Hitt er alvarlegra að þing og stjórn gætu eldað grátt silfur saman þannig að erfitt yrði að leiða brýn mál til lykta. Það er ekki það sem er okkur fýsir einmitt um þessar mundir.

Hvaða markmiðum vilja menn ná með fullum aðskilnaði löggjafar- og framkvæmdarvalds? Helst heyrist að með því eigi að efla Alþingi og stemma þannig stigu við því að framkvæmdarvaldið valti yfir þingið. Er þá ekki verið að kalla eftir virkara þingræði frekar en sjálfstæðara framkvæmdarvaldi? Næst markmiðið ekki betur með því að styrkja þingræðið fremur en að gefa framkvæmdarvaldinu lausan tauminn eins og yrði með fullum aðskilnaði þessara valdaþátta? Ég mun reifa svör við þessum spurningum í næstu pistlum mínum.

Comments are closed.