Mikilvægt er að hinir þrír stólpar ríkisvaldsins, löggjafinn (Alþingi), framkvæmdarvaldið (ríkisstjórnin) og dómsvaldið (dómstólarnir) séu aðskildir og hafi aðhald og eftirlit hver með öðrum. Ýmis sjónarmið eru uppi um það hvernig þetta skuli gert. Sumir vilja að framkvæmdarvaldið sé kosið sérstaklega. Aðrir vilja efla þingið, styrkja þingræðið, svo að það eigi í fullu tré við framkvæmdarvaldið. Ég reifa þessi sjónarmið í nokkrum pistlum á vefsíðu minni og hallast þá fremur að seinni lausninni. Um sjálfstæði dómstólanna eru allir sammála.

En gagnkvæmt eftirlit er eitt, utanaðkomandi eftirlit er annað. Nú eru allmörg embætti og eftirlitsstofnanir sem hafa það hlutverk að úrskurða í deilum borgaranna og stjórnvalda, að veita aðhald og gefa ábendingar af ýmsum toga um hvað eina sem úrskeiðis fer eða betur má fara í starfi framkvæmdarvaldsins. Fyrstan má nefna Umboðsmann Alþingis og aðra sérhæfða umboðsmenn en Samkeppniseftirlit og Fjármálaeftirlit eru hugsanlega líka af þessum meiði. Hvernig væri að setja ramma utan um þetta aðhalds-, úrskurðar- og eftirlitsvald og tryggja enn betur að það sé hlutlaust og standi utan við hið þrískipta stjórnvald? Þá hef ég í huga eins konar fjórða þátt ríkisvaldisins, fjórða valdið. Mér hugnaðist að kalla þetta vald umboðsmann almennings. Það er í samræmi við það að allt vald í lýðræðisríki er komið frá almenningi, fólkinu sem landið byggir.

Er þá verið að leggja til enn eitt ríkisskrímslið sem kosti morð fjár og verði nýtt sjálfumglatt vald? Nei, alls ekki. Fyrirkomulagið ætti að geta leitt til sparnaðar þar sem ég sé fyrir mér að sameinuð verði þau smáu embætti sem nú starfa á þessu sviði. Hins vegar þarf að gæta að ýmsu þannig að þetta fjórða vald geri það sem þá á að gera, þjóna fólkinu. Hver á t.d. að skipa það og hver að veita því forystu? Það væri vitaskuld á skjön við tilganginn að einhver hinna valdþáttanna kæmi þar nærri enda þótt ekki yrði hjá því komist að Alþingi skammtaði embættinu fé. En hvernig væri að þarna fengi forseti lýðveldisins hlutverk, að hann væri æðsti maður þessa aðhaldsvalds í þeim skilningi að hann skipi yfirmann þessa valds, en það sé síðan óháð öllum, líka forsetanum? Forsetinn er þó alla vega þjóðkjörinn og hefði því gott umboð til slíkrar forystu. Þetta gæti um leið orðið hluti af því verkefni að finna forsetanum stað í nýrri stjórnarskrá, vilji menn halda í þetta embætti.

Auk slíks umboðsmanns almennings þarf Hæstiréttur að fá það hlutverk að vera um leið stjórnlagadómstóll. Umboðsmaður almennings ætti að geta vísað lögum til úrskurðar þess dómstóls. Þannig veitti umboðsmaðurinn Alþingi einnig aðhald.

Ég býð mig fram til stjórnlagaþings undir þeim formerkjum að vinna vel, hlusta á rök og gagnrök en ríghalda mig ekki í niðurnjörvaðar skoðanir. Ég varpa framangreindri hugmynd fram til umræðu á þessum forsendum. Komi fram rökstuddar ábendingar um að hugmyndin hafi fleiri galla en kosti mun ég ekki hika við að skipta um skoðun. Stjórnlagaþingið á að vera rökræðuvettvangur, ekki þrasþing. Af því höfum við nóg.