Skip to content

Þú hefur aðeins eitt atkvæði, röðun skiptir meginmáli

Höfundur: Þorkell Helgason, November 6th, 2010

Á vefsíðunni kosning.is má finna flipann Kynning á frambjóðendum til stjórnlagaþings. Þar er hægt að tína  til frambjóðendur og raða þeim á hjálparkjörseðil. Kjósendur geta raðað á þennan hjálparseðil hvenær sem tóm gefst til, hann er sjálfkrafa vistaður. Að lokum getur kjósandinn prentað seðilinn út og haft hann með sér á kjörstað. Dvölin í kjörklefanum þarf þá ekki að vera löng; einungis til að færa auðkennistölur af hjálparseðlinum yfir á hinn eiginlega kjörseðil.  Þetta er þakkarvert framtak og hvetja verður kjósendur að nýta sér þetta mikilvæga hjálpartæki.

Á vefsíðunni kemur því miður ekki fram að röð frambjóðenda skiptir meginmáli. Margir muna tína eftirlætisframbjóðendur sína til í stafrófsröð. Þeir raðast þá í þeirri röð á hjálparseðilinn. Þá verður kjósandinn að fara inn í seðilgluggann og endurraða frambjóðendunum í þá forgangsröð sem hann telur rétta.

Því miður er enn mikil misskilningur í gangi um þá kosningaraðferð sem beitt er. Jafnvel lærðir álitsgjafar vaða reyk og villu í þessum efnum í fjölmiðlum. Málið er einfalt:

  • Hver kjósandi hefur aðeins eitt atkvæði, ekki 25.
  • Sá frambjóðandi sem hann raðar efst, að fyrsta vali, fær fyrst að nýta sér atkvæðið. Ef hann kemst inn, en ekki nema rétt svo, er atkvæðið fullnýtt. Hinir sem eru neðar á kjörseðlinum hafa þá ekkert gagn af atkvæðinu.
  • Komist sá efsti inn á ríflegu fylgi færist tilsvarandi vannýttur hluti atkvæðisins til þess sem næst er raðað. Hann getur þá hugsanlega komist inn á þessu atkvæðisbroti.
  • Ef sá sem efst er raðað nær á hinn bóginn ekki kjöri sakir lítils fylgis færist allt atkvæðið til þess sem er valinn að öðru vali.
  • Þetta heldur svo áfram koll af kolli niður eftir kjörseðlinum. Sé kjósandinn svo óheppinn að enginn af þeim sem hann raðar á seðilinn nái kjöri fellur atkvæðið dautt niður.
  • Þeir sem vilja að atkvæði sitt komi að lokum einhverjum góðum frambjóðanda að gagni ættu því að raða sem flestum. Ekki er gefið færi á að raða fleiri en 25, en sú takmörkun hefur ekkert með það að gera að 25 sitja stjórnlagaþingið.
  • Á hinn bóginn er atkvæðið fullgilt hvort sem aðeins er raðað einum, og þá í efstu vallínu, eða 25 eða þar á milli.

Í stuttu máli eru því ráðleggingarnar mínar til kjósenda þessar:

  • Undirbúið ykkur heima og veljið ykkur frambjóðendur af vefnum eða eftir prentuðum upplýsingum sem dreift verður í hús.
  • Raðið eins mörgum frambjóðendum og þið frekast treystið ykkur til, en munið eftir því að skipa þeim í forgangsröð; hún skiptir meginmáli.
  • Skundið síðan á kjörstað og gerið kosninguna glæsilegan sigur fyrir lýðræðið.

Comments are closed.