Skip to content

Stjórnskipan sem hentar okkur

Höfundur: Þorkell Helgason, November 14th, 2010

Í fyrri pistlum hef ég varpað fram spurningum um valið á milli þingræðis og forsetaræðis og hallast að þingræðinu. Ein af meginforsendum svarsins er hvernig við lítum á stöðu okkar sem smáþjóð úti í miðju Atlantshafi. Við verðum, hvort sem okkur líkar það betur eða verr að horfast í augu við það að við landsmenn erum innan við þriðjungur milljónar. Oft segja menn máli sínu til stuðnings: „Svona gera aðrar þjóðir og við getum ekki verið minni menn.“ Það er nú meinið að við verðum stundum að sætta okkur við smæðina, án þess þó að vera „minni menn“. Við höfum ekki nægilegan mannafla til að gera allt með sama hætti og stórþjóðir, ekki einu sinni það sama og smáþjóðirnar sem byggja hin Norðurlöndin.

Hvað kemur þetta stjórnskipaninni við, þingræðinu og öllu því? Svarið er að þetta er ef til vill kjarni málsins: Við verðum að smíða okkur stjórnkerfi sem hentar okkur, fámennri þjóð á stóru eylandi. Þetta kann að hljóma eins og einangrunarstefna. Það er mér víðsfjarri. Við eigum að ástunda nána samvinnu við grannþjóðirnar og læra af þeim í hvívetna. Lýðræði, mannúð og velferð þegnanna er hvergi meiri en hjá þeim, á Norðurlöndunum og hjá öðrum grönnum okkar meðal Evrópuþjóða. Við þurfum bæta okkur upp smæð okkar með tengslum og samvinnu.

Engu að síður viljum við búa í sjálfstæðu og fullvalda ríki um allt það sem skiptir okkur höfuðmáli: Tunguna, náttúruna okkar fagra lands, auðlindir þess til lands og sjávar og umfram allt mannréttindi og velferð okkar, sérhvers Íslendings. Stjórnkerfið verður að taka á þessu með þeim hætti sem við ráðum við og hentar okkur.

En hvernig? Meira um það í næstu pistlum.

Comments are closed.