Í fyrri pistlum hef ég varpað fram spurningum um valið á milli þingræðis og forsetaræðis og tjáð mig fylgjandi þingræðinu, þó ekki að öllu leyti eins og það hefur verið. Þvert á móti tel ég nauðsynlegt að styrkja þingræðið. Hvað á ég við? Áður en ég svara því vil ég hamra á því að landsmenn eru innan við þriðjungur milljónar. Umfang stjórnkerfisins verður að taka mið af því. Fámennið setur vissar skorður en gefur okkur líka tækifæri.
Þingræðið felur það í sér að flokkar á þingi koma sér saman um að mynda ríkisstjórn sem síðan starfar í umboði þingsins. Oftast býr stjórnin fyrirfram við stuðning meiri hluta þingmanna. Alla vega verður hún að geta varist vantrausti. Hvaða gagnrýni hefur komið fram á þetta fyrirkomulag? Ég nefni það helsta sem heyrst hefur:
- Að kjósendur viti sjaldnast hvað stjórn þeir eru að kjósa yfir sig. Hver þekkir ekki yfirlýsingar flokkanna um að ganga óbundnir um stjórnarsamstarf til kosninga?
- Að völdin safnist saman hjá ríkisstjórn og jafnvel hjá forystumönnum hennar einum. Ríkisstjórn starfi því ekki í umboði þingsins heldur öfugt! Þetta lýsi sér í því að þingmenn stjórnarflokkanna hafi sig lítt í frammi og láti allt yfir sig ganga, af því að þeir „eigi að vera í liðinu“. Frumkvæði þeirra sé sáralítið.
- Að ráðherrar hafi litla faglega þekkingu á málaflokkum sínum. Þetta endurspeglast m.a. í því að utanþingsráðherrarnir tveir sem eru nýfarnir úr ríkisstjórninni nutu mestra vinsælda allra ráðherranna.
- Að þrátt fyrir meintan yfirgang foringja ríkisstjórnar leiki einstakir ráðherrar lausum hala. Þeir ráðskist með sín mál svo sem mannaráðningar. Meðráðherrarnir signi sig síðan og segist ekki bera ábyrgð á afglöpum félaganna.
Sumt af þessari gagnrýni er ekki með öllu makleg og annað stangast á. Um leið og fólk kallar eftir auknu sjálfstæði og aðhaldi þingsins, ekki síst frá stjórnarþingmönnum, er það líka gagnrýnt að ríkisstjórn komi ekki málum í verk vegna óþægðar „órólegu deildanna“ í stjórnarliðinu.
Hugum að lausnum lið fyrir lið, en í þessum pistli mun ég aðeins tæpa á lausnum, en vísa á væntanlega sérpistla um einstaka þætti:
- Taka má á þessu með fyrirkomulagi kosninga. Vitaskuld er einmenningskjördæmi ein leiðin, þar sem þá myndast gjarnan aðeins tveir sterkir flokkar sem skiptast á að hafa völdin, en sú leið hugnast mér ekki. Unnt er að þvinga – eða a.m.k. hvetja – flokkana til að spyrða sig saman fyrir kosningar og mynda kosningabandalög sem síðan yrðu eftir atvikum að ríkisstjórnarmeirihluta. Þetta mætti gera með því að það bandalagið sem fengi flest atkvæði fengi sjálfkrafa hreinan meirihluta þingsæta. Ekkert er fullkomið, þetta kann að hljóma ólýðræðislegt. Þá má huga að einhvers konar mildari útgáfu. Meira síðar.
- Mér sýnist lausnin geta verið sú að færa ríkisstjórnarforystuna meira inn á þingið, að formennska þingflokks verði æðst á metorðastiga stjórnmálamanna. Það að sitja í ríkisstjórn verði fremur verkefni en pólitísk forysta. Þar með er ég um leið að segja að ráðherrar – sem mættu um leið fá hógværari titil – séu fremur fagmenn en forystusauðir. Ræða þarf kosti þessa og galla og um leið hvort eða hvernig þetta sé framkvæmanlegt. Hvort kveða megi á um slíkt í stjórnaskrá kallar á ítarlegri umfjöllun. Lykilatriði í þessa átt er vitaskuld að ráðherrar sitji ekki á þingi. Aftur efni í sérpistil.
- Hér geta sjónarmið hæglega stangast á. Vitaskuld er ekki verra að ráðherra hafi faglega þekkingu á sínum málaflokki. En er um leið sjálfgefið að hann hafi þá pólitísku reisn sem þörf er á? Með því fyrirkomulagi sem reifað er í 2. lið, að hin pólitíska forysta sé hjá þingflokksformönnum, yrðu ráðherrar að framkvæmdarstjórum. Flokksformennirnir yrðu stjórnarformenn fyrirtækisins landsstjórn, svo tekið sé mið af einkarekstrinum. Aftur efni til umþættingar í sérpistil.
- Meginlausnin á þessu er sú að gera ríkisstjórn fjölskipað stjórnvald, eins og það heitir á lögfræðingamáli. Á mæltu máli merkir það að ráðherrarnir beri sameiginlega ábyrgð; að allar meiri háttar stjórnarathafnir kalli á formlega afgreiðslu í ríkisstjórn. Nú er það svo að mál af því tagi sem hér eru höfð í huga eru almennt borin upp í ríkisstjórn en ekki þannig að því fylgi formlegt samþykki. Ráðherrar geta því komið út af ríkisstjórnarfundi alsaklausir í framan af gerðum félaga sinna! Rannsóknarskýrslan góða bendir æ og aftur á skort á formfestu í stjórnarathöfnum. Þetta er dæmi um það. Dusta mætti rykið af ríkisráði, sem er ríkisstjórn auk forseta, og láta stjórnarathafnir ávallt fá lokaafgreiðslu þar. Ekki bara eftir á eins og nú tíðkast. Enn og aftur meira um þetta síðar, m.a. um forsetaembættið.
Ekki treysti ég mér til að leggja þetta allt til án ítarlegrar umræðu. Á hinn bóginn hefur mér oft reynst vel að örva ímyndunaraflið í mér og samverkamönnum mínum með því að fara á báða enda á lausnarófinu. Þá finnst oft góður meðalvegur. Held áfram í næstu pistlum.