Skip to content
Flokkar

Hvet alla 232.374 kjósendur landsins til að kjósa til stjórnlagaþings

Höfundur: Þorkell Helgason, November 17th, 2010

Kosningin til stjórnlagaþings 27. nóvember er merkisatburður í sögu þjóðarinnar.  Í kosningunni sjálfri felast tímamót þar sem nú er kosið hreinni persónukosningu án kjördæmaskiptingar. Hitt er auðvitað aðalatriðið að kosið er til þings sem fær það verkefni að ljúka loksins gerð stjórnarskrár fyrir lýðveldið Ísland. Kynningarblaði um frambjóðendur hefur verið dreift í hús. Mikilvægt er að kjósendur kynni sér frambjóðendur eftir föngum og velji ekki bara þá fyrstu sem þeir rekast á.

Kjósendur, látið ekki ykkar hlut eftir sitja. Flykkist undirbúin á kjörstað, með útfyllt kjörseðilsdrög með ykkur. Þið getið látið duga að velja aðeins einn frambjóðanda en veljið eins marga og þið treystið ykkur til, allt að 25. Aðgætið jafnframt að röðunin skiptir máli. Þetta er forgangsröðunarkosning þar sem hver kjósandi fer aðeins með eitt atkvæði, ekki 25 eins og margir halda. Mikilvægt er að vita að það skaðar aldrei þann frambjóðanda sem þið hafið mestar mætur á að þið bætið öðrum við á eftir honum.

Til eru þeir sem reyna að gera lítið úr þjóðfundinum, kosningunni og væntanlegu stjórnlagaþingi. Þeir dæma sig sjálfir. Það hafa verið sett lög á Alþingi um þessa tilhögun með 39 atkvæðum gegn aðeins einu. Vilji þings og þjóðar er ótvíræður. Kosningin verður að vera glæsileg og stjórnlagaþingið að starfa að mikilli elju og vandfýsi. Nú er aðalatriðið að hvetja alla kjósendur landsins til að undirbúa sig vel og skunda svo á kjörstað laugardaginn 27. nóvember.

Comments are closed.