Kosningafræði af ýmsu tagi er sá málaflokkur sem verður mitt sérsvið ná ég kjöri á stjórnlagaþingið. Því kann að virðast einkennilegt að ég hafi ekki tjáð mig ítarlega um þau mál fyrr en nú, á lokastigi kosningarbaráttunar, ef baráttu skyldi kalla! Ein meginástæða þessa hiks er sú að ég tel mig hafa margt annað fram að færa og vil ekki bjóða mig fram til þingsins einungis sem kosningafræðingur! Nú er ekki lengur til setunnar boðið.
Kosningamál hafa verið mér hugleikin nær alla mína starfsæfi. Fyrir stærðfræðinga eins og mig er málaflokkurinn afar áhugaverður. Bein afskipti mín af kosningamálum hófust strax á áttunda áratuginum en þá var ég reiknimeistari og „talnaspekingur“ ríkisútvarpsins á kosninganóttu. Aðkoma mín að stefnumótun í þessum málflokki hófst veturinn 1982-83 þegar ég var fenginn til ráðgjafar við formenn stjórnmálaflokkanna við gerð þeirra stjórnarskrár- og lagabreytinga í kjördæma- og kosningamálum sem komu til framkvæmdar í kosningunum 1987. Síðan endurtók sagan sig um aldamótin síðustu. Rétt er að taka það strax fram að ég taldi ekki alla þá samsuðu sem ég aðstoðaði þingmenn til að búa til ætíð þá bestu, en allt hefur sinn tíma. Upp úr þessu varð ég ráðgjafi landskjörstjórnar og hef séð um úthlutun þingsæta í aldarfjórðung. Undanfarin misseri hef ég beinlínis verið í hlutastarfi hjá landskjörstjórn en tók mér að sjálfsögðu leyfi um leið og ég ákvað að bjóða mig fram til stjórnlagaþings.
Hvað vil ég leggja áherslu á í kosningamálum? Því verður ekki svarað í stuttum pistli þar sem fjölmargs er að gæta þannig að vel takist til við gerð nýs kosningarkerfis og þeirra þátta þess sem eiga heima í stjórnarskrá. Meginþættirnir eru þó skýrir:
- Full jöfnun atkvæðisréttar. Nú er sem kunnugt er mikið misvægi atkvæða eftir búsetu. Það er að vísu minna nú en verið hefur líklega allt frá upphafi þingkosninga. Það sem meira er þá hefur verið fullur pólitískur jöfnuður allt síðan 1987 í þeim skilningi að þingflokkarnir hafa haft rétta þingmannatölu miðað við landsfylgi. Engu að síður tel ég að tryggja eigi formlega fullan jöfnuð kjósendanna, ekki bara flokkanna. Ójöfn aðstaða manna eftir búsetu verður ekki bætt með mismiklum mannréttindum. Á aðstöðumun verður að taka með öðrum hætti.
- Landið eitt kjördæmi. Þetta er einfaldasta leiðin til að ná fullun jöfnuði allra kjósenda. Fleiri leiðir að því marki koma einnig til álita svo sem að skipta landinu upp í einmenningskjördæmi með nánast jafnmörgum kjósendum í hverju. Ég tel einmenningskjördæmiskerfi hafa ýmsa alvarlega ókosti sem ekki er tóm til að útlista hér. Meginrök mín fyrir einu kjördæmi eru þó annars eðlis, einfaldlega þau að við erum ein smáþjóð í einu landi. Við eigum og verðum að gæta hagsmuna okkar allra í jöfnum mæli. Ekki síst er það hlutverk þingmanna. Hrepparígur og kjördæmapot hefur valdið okkur ómældum skaða og stofnað til illinda. Landsbyggðamenn óttast að með einu kjördæmi, með meirihluta íbúa á höfuðborgarsvæðinu, verði hlutur þeirra fyrir borð borinn. Ég er sannfærður um að svo verður ekki og nægir mér að nefna það sem ég hef oft heyrt landsbyggðaþingmenn segja að bestu stuðningsmenn góðra héraðsmála séu einatt þingmenn úr suðvestrinu. Að auki vil ég nefna að fyrirkomulagi framboða má hátta þannig að frambjóðendur geti höfðað sérstaklega til einstakra landshluta. Þetta gera Danir að nokkru leyti, svo og Hollendingar sem hafa sitt fjölmenna en litla land eitt kjördæmi. Á hitt er jafnframt að líta að kjördæmi í landfræðilegum skilningi er hugtak frá fyrri öldum og á varla við á tímum rafrænna samskipta. Þeir sem ég samsama mig mest með og vildi helst vera í „kjördæmi“ með búa ekki endilega nálægt mér.
- Persónukjör. Það er krafa flestra að fá að velja sér frambjóðendur a.m.k. í einhverjum mæli á persónulegan hátt fremur en að þurfa að kaupa ýmsa ketti í sekk flokksframboðanna. Við erum eftirbátar flestra grannþjóða okkar í persónukjörsmálum. Um þetta mál mætti hafa langa tölu, enda hef ég skrifað talsvert um efnið og vísa t.d. á grein í greinasafni mínu á þessum sama vef; sjá https://thorkellhelgason.is/?p=288. Jafnframt má benda á mjög ítarlega umfjöllun um málið í frumvörpum um persónukjör í þing- og sveitarstjórnarkosningum, sjá http://www.althingi.is/altext/138/s/0108.html. Að öðrum ólöstuðum vann ég einna mest að gerð þessara frumvarpa. Verði landið gert að einu kjördæmi er enn ríkari ástæða til að viðhafa persónukjör en ella. Að mínu mati er það forsenda landskjörsfyrirkomulagsins. Að öðrum kosti yrðu kjósendur að kyngja í einu stórum kepp þingamannsefna fyrir landið allt í heilu lagi. Ég kysi að gengið yrði nokkru lengra í persónukjörsaðferðinni en fram kemur í frumvörpunum fyrrnefndu. Þar er boðið upp á að hver einstakur listi sé að megninu til óraðaður og kjósendum falið að raða frambjóðendum og ákvarða þannig hverjir af listanum komast á þing. Ég tel að leyfa eigi kjósendum að velja þvert á lista, þ.e. velja sér frambjóðendur óháð listum. En þessu verður að fylgja pólitísk ábyrgð af hálfu kjósenda. Með því að velja frambjóðendur, einn eða fleiri, sé kjósandinn um leið að veita listanum samsvarandi stuðning. Taka má dæmi: Segjum að kjósandi velji sér einn frambjóðanda, A, af X-lista en tvo B og C af Y-lista og láti þar við sitja. Þá er hann að skipta atkvæði sínu annars vegar á milli listanna þannig að X-listi fær 1/3 en Y-listi 2/3 atkvæðisins. Að auki hefur hann veitt A stuðning til að hljóta eitt af þeim sætum sem X-listinn fær og B og C stuðning til að hreppa sæti Y-listans. Þetta er einfalt í tæknilegir útfærslu. Hví ekki að ganga enn lengra og sleppa flokkunum alfarið út úr dæminu? Ég tel að flokkar, og þá ekki endilega af því sniði sem við búum nú við, hafi pólitískan tilgang sem sé nauðsynlegur lýðræðinu. Breytingin sem þörf er á er fremur sú að þingmenn flokkanna sæki í ríkara mæli umboð sitt beint til kjósenda, en þeir komist ekki á þing fyrir það eitt að hafa klifrað upp metorðastigann innan flokkanna.
- Stjórnarmyndun fyrir kosningar. Hver kannast ekki við frasa flokkanna um að þeir gangi óbundnir til kosninga? Það merkir að þeir lofa engu fyrirfram um með hverjum þeir ætli að starfa og mynda ríkisstjórn, ef færi gefst, eftir kosningar. Kjósendur hafa því sjaldnast neina vitneskju um það hvaða ríkisstjórnarmunstur þeir eru að kjósa yfir sig. Af þessum sökum vilja sumir viðhafa einmenningskjördæmi. Þá einfaldist flokkamynstrið og til verði í meginatriðum tveir öflugir flokkar sem skiptist á að fara með ríkisstjórnarvaldið í krafti hreins meirihluta. Ég tel verulegan lýðræðishalla á slíku fyrirkomulagi sem ekki er tóm til að rekja hér í þaula.
En það eru til fleiri leiðir. Ein er sú að hafa kosningakerfið þannig að það hvetji flokkana til að mynda bandalög fyrir kosningar enda verði afleiðingin vonandi sú að eitt slíkra bandalaga fái hreinan meirihluta og geti því myndað ríkisstjórn. Ítalir hafa gengið lengst með tilraun af þessu tagi. Í kosningalögum þeirra (þó ekki nú) hefur verið kveðið á um að það bandalagið sem flest fær atkvæðin fái um leið hreinan meirihluta þingsæta, og rétt ríflega það. Með þessu móti er tryggt að eitt bandalagið getur myndað ríkisstjórn að kosningum loknum og þarf ekki að leita samstarfs við flokka úr öðrum bandalögum. Með þessu móti er verið að líkja eftir tveggjaflokkakerfi í engilsaxneskum löndum. En á þessu er vissulega mikill lýðræðishalli. Það er undir hælinn lagt hvort flokkabandalagið sem fær meirihluta á þinginu styðjist við meirihluta kjósenda.
Fara má mildari leið eins og þá að úthluta hverju bandalagi sem slíku fleiri þingsætum en flokkar þeirra fengju væru þeir ekki saman í bandalagi. Svo er nú þegar í okkar kosningakerfi að nokkru leyti. Flokkar gætu á stundum fengið svo sem eitt aukasæti með því einu að slá sér saman í bandalög. Þetta hafa flokkarnir þó ekki nýtt sér. Ábatinn er ekki nægilegur, eða hvað? Ganga mætti lengra í þessa átt án þess að þjösnast sé á því lýðræði sem felst í hlutfallskosningum; það langt að það dugi til að flokkarnir hópist saman í skýr bandalög um stjórnarmyndun fyrir kosningar. Kjósendur myndu síðan greiða atkvæði einstökum flokkum, eða enn betra einstökum frambjóðendum eins og fyrr segir. Myndun bandalaga væru einungis skilaboð til kjósenda um hvaða stjórnarmynstur sé í boði.
Gagnrýna má að með slíku fyrirkomulagi sé kostur sérframboða þrengdur. Það er að nokkru leyti rétt en þau eru þá, allt eins og flokkarnir, hvött til að sýna á spilin fyrir kosningar um það með hverjum þau vilja starfa eftir kosningarnar.
Að lokum vil ég segja að ákvæði um fyrirkomulag kosninga eiga ekki að vera mjög ítarleg í stjórnarskrá. Í henni eiga að vera grundvallaratriðin eins og að landið skuli vera eitt kjördæmi. Hugsanlega líka ákvæði um persónukjör og heimild fyrir því að hygla megi kosningabandalögum. Ákvæðin á síðan að útfæra í kosningalögum. Reynslan sýnir að þjóðfélagsþróunin kallar á all tíðar breytingar á ákvæðum um kosningar. Ótækt er að í hvert sinn þurfi að breyta stjórnarskrá eins og verið hefur, ekki síst ef það verður gert erfiðara að hrófla við stjórnarskránni en nú er, enda þurfi að bera breytingar á henni undir þjóðina, sem ég styð. Á hinn bóginn má heldur ekki vera of auðvelt að breyta kosningalögum, t.d. ekki til að styrkja stöðu meirihlutans á Alþingi. Úr þessu má leysa með því að kveða á um að slíkar lagabreytingar kalli á aukinn meirihluta á þingi. Nú þegar eru í kosningalögum ákvæði af þessu tagi og er það vel.