Skip to content

Kosningaraðferðin hyglir ekki nýnasistum – Reginfirra leiðrétt

Höfundur: Þorkell Helgason, November 25th, 2010

Einar Júlíusson ritar 24. nóv. s.l. grein í Fréttablaðið undir fyrirsögninni Er nokkur nýnasisti í framboði? Þessi grein byggir því miður á reginmisskilningi á þeirri kosningaraðferð sem beitt er við kosninguna til stjórnlagaþings. Aðferðin hefur verið nefnd forgangsröðunaraðferð en er oftast auðkennd með skammstöfuninni STV erlendis.

Einar gengur út frá því að 100.000 kjósendur greiði atkvæði og velji á milli 500 frambjóðenda. Einn þeirra vill hann kalla nýsnasista og sá hljóti 4.000 atkvæði að 1. vali hjá fylgismönnum sínum. Atkvæði hinna 96.000 kjósenda skiptist handahófskennt á milli frambjóðendanna 499 og raðist einhvern vegin á seðla þeirra. Hver þessara 499 fái að meðaltali (um) 200 atkvæði að 1. vali. Þá segir Einar réttilega að nýnasistinn svonefndi muni ná kjöri. Það er rétt enda fær hann 1/25 af öllum greiddum atkvæðum að 1. vali. Vandfundinn er sú lýðræðislega kosningaraðferð sem gæti með réttu komið í veg fyrir það. Svo segir Einar „en aðrir … detta út“ sem verður vart skilið á annan veg en að þeir nái ekki kjöri. Þetta er auðvitað kórvilla. Á þinginu skulu sitja 25 fulltrúar (að kynjajöfnunarsætunum slepptum). Það er því sama hvaða aðferð beitt yrði, 24 þessara munu að sjálfsögðu ná kjöri. Væri beitt einfaldri krossmerkingu væri það undir hælinn lagt hverjir þessir 24 væru og hver þeirra hefði aðeins um 200 atkvæði að baki sér. STV-aðferðin er með allt öðrum hætti. Með henni er lesið þannig úr vilja kjósenda samkvæmt forgangsröð þeirra að þeir 24 sem að lokum verða valdir, auk hins eina „vinsæla“, munu hafa stuðning mun fleiri kjósenda, allt að 4.000 hver.

Blaðagrein þessi er það myrk að ekki verður ráðið í hvað veldur þessum hrapalega misskilningi höfundar en svo virðist vera að grunnhugsun STV-aðferðarinnar, þeirrar sem hin mikilvæga kosning til stjórnlagaþingsins byggir á, sé höfundi algerlega hulin ráðgáta. Aðferðin byggir á forgangsgröðun: Hver kjósandi fer aðeins með eitt atkvæði, ekki 25 eins og greinarhöfundur virðist telja. Sá sem kjósandinn setur að 1. vali er sá sem hann raunverulega kýs. Hann er sá sem kjósandinn vill allra helst að nái kjöri. Hinir sem á eftir koma á kjörseðlinum eru eins konar varamenn, þeir sem kjósandinn vill að gripið sé til þegar sá að efsta vali hans er úr leik.

Greinarhöfundar ættu að vera alveg vissir í sinni sök áður en þeir ríða fram á ritvöllinn til að villa lesendum, og þar með kjósendum, sýn nú þegar örfá dægur eru í lýðræðislegar kosningar, einar þær mikilvægustu sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir.

Comments are closed.