Skip to content

Þeir síðustu í talningunni munu ekki verða fyrstir – Misskilningur leiðréttur

Höfundur: Þorkell Helgason, November 25th, 2010

Hinn 24. nóv. s.l. birtist grein eftir Sigurð F. Sigurðsson í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni Furðuleg nýting atkvæða. Í fyrrihluta greinarinnar vísar höfundur til kynningarblaðs sem dóms- og mannréttindaráðuneytið hefur sent á öll heimili þar sem meðal annars er leitast við að skýra hvernig atkvæði eru talin í komandi kosningu til stjórnlagaþings. Lýsingin, sem er væntanlega sú á öftustu opnu blaðsins, er því miður ekki nægilega skýr enda misskilur greinarhöfundur aðferðina og leggur því rangt út af henni. Málið fjallar um það hvernig atkvæði færast frá þeim sem náð hefur kjöri til þeirra sem tilgreindir eru að næsta vali hjá viðkomandi kjósendum.

Einfaldast er að taka talnadæmi: Frambjóðandi A fær 10.000 atkvæði að 1. vali en aðeins þarf 5.000 atkvæði til að ná kjöri. Greinarhöfundur álítur að þá séu þau 5.000 atkvæði sem síðast eru talin í bunka A færð til þeirra frambjóðenda sem eru tilgreindir á þessum seðlum. Hann telur réttilega að þetta sé „furðuleg nýtin atkvæða“ vegna þess að þá skipti máli í hvaða röð atkvæðin eru talin. Þetta er ekki svo. Það er horft til allra atkvæða A og hverju einstöku atkvæði í raun skipt í tvennt. Annar helmingur atkvæðisins er skilin eftir hjá A til að tryggja honum þau 5.000 atkvæðisígildi sem þarf til að hann ná kjöri. Hinn helmingur hvers atkvæðis, sem er þá ígildi hálfs atkvæðis, er færður til þess næsta að vali viðkomandi kjósanda.
Sú aðferð sem greinarhöfundur ranglega telur að hér verði notuð tíðkaðist í árdaga þeirra STV-aðferðar sem hér um ræðir. Það var fyrir daga tölva og ótækt talið að klippa seðla í sundur í miðjunni hvað þá í öðrum hlutföllum. Reynt var að stokka seðlana vel áður en talið var en síðan látið þar við sitja og einungis efstu atkvæðin í bunka frambjóðanda A í þessu dæmi færð. Á tölvuöld er auðvelt að gera þetta með fullri nákvæmni: Atkvæðin eru ekki klippt í sundur heldur er talnaígildi þeirra reiknað og þau færð með viðeigandi hætti.

Í seinni helmingi greinar sinnar furðar greinarhöfundur sig á því hví ekki skuli valin sú leið að beita stigagjöf þannig „að sá fyrsti fengi t.d. 100 stig , næsti eitthvað minna og svo koll af kolli …“. Þetta er sú aðferð sem er notuð við uppgjör á breyttum atkvæðaseðlum við Alþingiskosningar. Hefur svo verið gert lengst af í rúm hundrað ár. Aðferð þessi er nefnd Borda-aðferðin. Hér eru ekki tök á að færa rök fyrir því hvers vegna þessi leið var ekki farin nú. Þau eru að nokkru rakin í athugasemdum við frumvörp um persónukjör sem lögð voru síðast fram haustið 2009. Meginástæða þess að Borda-aðferðinni var hafnað er sú að hún býður upp á að kjósandinn nái markmiðum sínum betur fram með því að raða með öðrum hætti en hugur hans girnist. Þessi mótsögn á mun síður við sé STV-aðferðinni beitt. Sú aðferð hefur þann dýrmæta eiginleika umfram Borda-aðferðina að kjósandinn rýrir aldrei hlut þeirra sem hann hefur þegar sett á seðilinn við það að bæta fleirum við þar á eftir.

(Pistill þessi var ritaður 25. nóv. en rataði ekki á vefinn þá. Því er hann birtur nú, 28. nóv. en birtingartíminn aftur í tímann til þess að röð hans á vefsíðunni sé í sögulegri röð.)

Comments are closed.