Um fjöllistaframboð: Hannibalsmálið í kosningunum 1967

[Leiðrétt kl. 12, 31. mars 2013 eftir ábendingar frá Benedikt Jóhannessyni. Auk þess er Hagstofan beðin afsökunar á smáskætingi um hana, sem nú er horfinn!]

Mjög er nú, fyrir þingkosningarnar 2013, til umræðu meðal nýrra framboða að slá sér saman undir einum listabókstaf til að standa betur að vígi við úthlutun jöfnunarsæta.

Fyrir fleiru en einu framboði í sama kjördæmi í nafni sömu stjórnmálasamtaka eru ekki mörg dæmi. Síðan 1959 hefur það alla vega aðeins gerst einu sinni. Það var 1983 þegar Framsóknarflokkurinn bauð upp á sérframboð, BB-lista, auk aðalllistans, B-lista, í Norðurlandskjördæmi vestra.

Hannibal Valdimarsson og félagar buðu fram lista í Reykjavík 1967 og vildu fá hann skráðan sem sérlista Alþýðubandalags; sem GG-lista. Fyrirsvarsmenn G-lista andmæltu. Yfirkjörstjórn fór að þeirra ósk og kallaði lista Hannibals „I-lista Utan flokka“. Hannibal kærði til landskjörstjórnar sem úrskurðaði honum í vil. Yfirkjörstjórn í Reykjavík hundsaði þann úrskurð, auglýsti listann sem I-lista og skrifaði jafnframt til dómsmálaráðuneytis í þá veru.

Landskjörstjórn hélt við sinn keip og úthlutaði Alþýðubandalagi uppbótarsætum að meðtöldum atkvæðum Hannibals. Það varð til þess að Alþýðubandalagsmaðurinn Steingrímur Pálsson varð uppbótarmaður.

Málið kom til kasta kjörbréfanefndar (bókun hennar hef ég ekki) og síðan Alþingis. Nú skiptu Allaballar auðvitað um skoðun og þeir ásamt Framsókn studdu kjörbréf fyrrgreinds Steingríms. Einn greiddi atkvæði á móti (Pétur Benediktsson) en aðrir sátu hjá. Athyglisvert er að hinn umdeildi Steingrímur greiddi atkvæði með sjálfum sér (að því er virðist skv. kosningaskýrslu Hagstofunnar). Hann var því dómari í eigin máli!

Þess má geta að eitt af því sem stjórnlagráð lagði til var að Alþingi úrskurði ekki sjálft hvort það sé löglega kjörið. En þessu hefur nú öllu verið kastað á haugana.

Í umræddum kosningum 1967 voru 12 utankjörfundaratkvæði í Rvík merkt GG. Yfirkjörstjórn var samkvæm sjálfri sér og úrskurðaði þau ógild en landskjörstjórn vísaði málinu til Alþingis sem tók ekki afstöðu enda breyttu þau engu.

Allt þetta sýnir og sannar enn og aftur að það þarf að stokka upp kosningalögin og m.a. gera landskjörstjórn hærra undir höfði. Í raun ættu yfirkjörstjórnir ekkert að vera annað en starfsstjórnir landskjörstjórnar og – að mati okkar sem sátum í stjórnlagaráði – á ekki Alþingi að úrskurða um eigið ágæti. Greinilegt er af afgreiðslu Alþingis 1967 á umræddu kjörbréfi að þar réð pólitík ferðinni.


Hvernig á ekki að breyta stjórnarskrá

Viðbót síðdegis 27. mars 2013:

Nú er „samkomulagið“ komið fram; sjá http://www.althingi.is/altext/141/s/1367.html.

Eins og ég sagði í lok pistils míns hér neðar vonaði ég að þetta væri ekki alveg eins svart og sagt var í netmiðlum. Hin framlagða gerð er eilítið skárri. Í fyrsta lagi er þetta bráðbirgðaákvæði, í öðru lagi þarf ekki samþykki tveggja þinga og enn fremur virðist mega breyta stjskr. áfram upp á gamla mátann líka. En eitt er verra í hinni framlögðu tillögu: Það þarf 2/3 meirihluta á Alþingi, ekki bara 60% eins sögusagnir hermdu. Ég stend því við það að stjórnarskrárbreytingar verða með þessu lagi handan við dönsku öfgarnar.

Í skýrslu sinni, CDL-AD(2010)001, ON CONSTITUTIONAL AMENDMENT, tekur Feneyjarnefndin Danmörku sem dæmi um land þar sem einna erfiðast sé að breyta stjórnarskrá. Þar þarf samþykki tveggja þinga og kosningar á milli og síðan samþykki meirihluta kjósenda en þó minnst 40% þeirra sem eru á kjörskrá. Jafnframt nefna þeir Svíþjóð og Íslands sem dæmi um land þar sem auðvelt sé að breyta, þ.e.a.s. einfaldur meirihluti á tveimur þingum með kosningum á milli.

Nú, á hádegi 27. mars 2013, er sagt að „samkomulag“ sé á Alþingi um að fara úr einum öfgunum í aðrar, að taka upp danska fyrirkomulagið, en með því viðbótarskilyrði að það eigi líka að þurfa aukinn meirihluta á fyrra þinginu, 60% herma sumir.

Hvaða rannsókn skyldi nú hafa farið fram? Hvaða siðferðilegan rétt hefur þetta þing á lokadögum að binda komandi kynslóðir og gera þeim illmögulegt að komast út úr bráðabirgðastjórnarskránni frá 1944? Er verið að hafa þá að fífli sem mættu á þjóðfundinn 2010, þá sem buðu sig fram til stjórnlagaþings og tóku síðan sæti í stjórnlagaráði, og ekki síst þjóðina sem sagði skýrt álit sitt 20. október 2012?

Vita þingmenn hvað þeir eru að gera? Enn er von til að sögusagnirnar um „samkomulagið“ séu orðum auknar. Held í þá von, en bið samt alla að hafa varann á sér.

Sorgarsaga stjórnarskrármálsins

Stjórnarskrármálið fór glæsilega af stað á vorþinginu 2009 með frumvarpi um bindandi stjórnlagaþing og flutt var fyrir hönd þeirra þriggja flokka sem studdu þáverandi ríkisstjórn. Síðan tók við hrakfallaferli sem hófst strax þá um vorið með málþófi sem drap þetta frumvarp. Sögu stjórnarskrármálsins verður að skrá í smáatriðum því hún verður að vera þjóðinni lærdómsrík.

Grundvöllur þjóðfélagsins hefur verið mér hugleikinn allt frá unglingsárum. Því bauð ég mig fram til stjórnlagaþings haustið 2010, náði góðu kjöri og tók sæti í stjórnlagaráði. Þar reyndi ég, eins og við öllum sem þar sátum, að vinna vel og af heilindum. Ég hef helgað mig þessu máli í nær þrjú ár.  En allt þetta virðist hafa verið unnið fyrir gíg.

Úr því sem komið er verð ég að viðurkenna að það skásta sem hægt er að gera nú er að Alþingi samþykki þá tvíþættu tillögu sem lögð hefur verið fram af þremur flokksformönnum – væntanlega fyrir hönd meirihluta þingmanna – um nýtt breytingarákvæði og þingsályktun um framhald málsins á næsta þingi.

Þessi sami meirihluti mun ekki samþykkja fyrirliggjandi stjórnarskrárfrumvarp í heild sinni. Tillaga þremenninganna er því eini vonarneistin um framhald, þótt daufur sé.

Ég kom því reyndar á framfæri í viðeigandi herbúðum að farinn yrði sá millivegur að samþykkja stjórnarskrárpakkann nú í heild en með því mikilvæga ákvæði til bráðbirgða að ný stjórnarskrá taki fyrst gildi eftir ár, t.d. á sjötíuára afmæli lýðveldisins. Breytingarákvæðið taki þó strax gildi, þ.e.a.s. ákvæðið um að héðan í frá fari stjórnarskrárbreytingar, sem Alþingi hefur samþykkt, rakleiðis í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég taldi þetta geta verið málamiðlun milli þeirra sem vilja umbæturnar afgreiddar nú og hinna sem vilja betra tóm. Á næsta vetri væru tök á að koma fram með lagfæringar þar sem stjórnarskráin væri í eins konar biðstöðu, yrði lagfæringa talin þörf. Slíkar breytingar yrði þá að bera undir þjóðina, sem mætti útfæra sem bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá í heild sinni.

Meginkosturinn við þessa leið er að framhald er tryggt, nema þá að nýtt þing felldi allt strax í upphafi. En það gæti nýr þingmeirihluti ekki gert með þeim rökum að ekki sé tækifæri til að lagfæra eða bæta stjórnarskrána.

En ég hef engin viðbrögð fengið við þessari hugmynd; játa mig sigraðan og finnst skömminni skást að þingið samþykki tillögu þremenninganna.