Hrindum atlögunni að Skálholti !

[Birtist í Morgunblaðinu 19. nóvember 2013]

Þorkell Helgason:

Uppbygging

Skálholt var í raun höfuðstaður landsins um aldir. Síðan hallaði undan fæti og um miðja síðustu öld var þar orðið lítt meira en stekkur. En þá spratt upp hreyfing um endurreisn staðarins en fyrir henni stóð einn mesti kirkjuhöfðingi seinustu aldar, sr. Sigurbjörn Einarsson biskup. Allt gekk undravel. Vinir staðarins nær og fjær, ekki síst annars staðar á Norðurlöndunum, gáfu fé og önnur verðmæti sem dugðu til að reisa þá göfugu höfuðkirkju sem þar stendur, verk Harðar Bjarnasonar húsameistara og hans manna, skreytt ómetanlegum listaverkum þeirra Nínu Tryggvadóttur og Gerðar Helgadóttur. Við vígsluna fyrir fimmtíu árum færði þáverandi kirkjumálaráðherra, Bjarni Benediktsson, þjóðkirkjunni jörðina Skálholt að gjöf og með vilyrði um viðvarandi heimanmund.

Sumarið 1975 hófst það menningarstarf í Skálholti sem alþjóð þekkir, Sumartónleikar í Skálholtskirkju. Helga Ingólfsdóttir, sem þá var nýkomin frá námi í semballeik, fyrst Íslendinga, og um leið brautryðjandi í túlkun barokktónlistar, hreifst af Skálholti og skynjaði hvílíkt undur hljómburður í Skálholtskirkju er fyrir þá tónlist sem hana langaði að koma á framfæri. Fjölmargir komu til liðs, svo sem Manúela Wiesler sem töfraði alla með flautuleik sínum. Margir heimsfrægir tónlistarmenn urðu þátttakendur, jafnvel þótt þeir eins og aðrir fengju litla sem enga umbun fyrir. Brautryðjandi í endurvakningu barokktónlistar, Hollendingurinn Jaap Schröder, hefur tekið ástfóstri við Skálholt og komið á hverju sumri í tvo áratugi. Ekki nóg með það heldur hefur hann gefið geysiverðmætt nótna- og bókasafn sitt til staðarins.

En Sumartónleikarnir voru og eru ekki aðeins smiðja barokktónlistar, og þar með tónlistar Jóhanns Sebastíans Bachs, heldur markaði Helga strax í upphafi þá stefnu að Sumartónleikarnir ættu að vera miðstöð nýrrar tónlistar. Tónskáld voru fengin til að semja, ekki einhverja tónlist heldur þá sem hæfði staðnum og helgi kirkjunnar. Tónskáldin hlýddu þessu kalli, bæði þau sem þekkt voru en ekki síður ungskáldin sem náðu mörg að hasla sér völl í gegnum Sumartónleikana. Tónverkin, stór og smá, sem frumflutt hafa verið á Sumartónleikum í Skálholtskirkju skipta hundruðum. Sum þeirra hafa orðið að þjóðargersemum, eins og Óttusöngur að vori eftir Jón Nordal við texta Matthíasar Johannessen; verk sem var endurflutt á kristnitökuhátíðinni á Þingvöllum aldamótaárið síðasta.

Sumartónleikar í Skálholtskirkju undir listrænni stjórn Sigurðar Halldórssonar sellóleikara stefna nú á fertugasta sumarið í starfsemi sinni. Þessi alþjóðlega tónlistarhátíð er elsta starfandi barokktónlistarhátíð á Norðurlöndum. Af þeim sökum er ráðgerð mikil norræn hátíð á komandi sumri, á fertugsafmæli hátíðarinnar.

Niðurrif

En nú stefnir í að öll þessi uppbygging og starf í Skálholti verði lagt í rúst og það strax á komandi ári. Kirkjuráð, sem virðist búið að taka öll völd innan Þjóðkirkjunnar, ætlar að leigja allan staðinn út undir ferðamennsku. Þetta kom fram á kirkjuþingi því sem haldið er þessa dagana. Hvorki vígslubiskupinn í Skálholti né aðrir heimamenn hafa verið spurðir álits á þessari ákvörðun æðsta ráðsins. Þeir sem vilja koma til starfa á staðnum mega þá þóknanlegast borga hótelprísa fyrir allan beina og það ekki af lægra taginu, því að þetta á að verða mikill bisness sem skili fúlgum fjár. Sumartónleikarnir munu þá leggjast af. Kirkjuráð hefur smám saman verið að skera niður fjárframlag til Sumartónleikanna og var ekkert beint framlag á seinasta sumri. En nú á að úthýsa þeim alveg.

Vígslubiskupa á að leggja niður í núverandi mynd. Þetta kemur fram í frumvarpi til nýrra þjóðkirkjulaga sem liggur fyrir kirkjuþingi sem situr þegar þetta er ritað. Greinargerð með frumvarpinu tekur af allan vafa um þessa ætlan. En ekki aðeins það. Heldur stendur nú til að gera sjálfan biskup Íslands að „undirkontórista“, ekki í kirkjumálaráðuneytinu eins og segir í Kristnihaldi Kiljans, heldur hjá kirkjuráði eða kirkjuþingi. Þetta jaðrar við að biskupi sé steypt af stóli. Alþingi Íslendinga verður að hafna þessu ákvæði frumvarpsins.

Rekstur Skálholtsstaðar mun hafa verið í ólestri og skuldir höfðu safnast upp. En núverandi vígslubiskup, sr. Kristján Valur Ingólfsson, hefur náð að snúa þeirri þróun við. Það þarf því ekki að braska með Skálholt til að bæta fjárhag staðarins. Hver hefur gefið þessu Kirkjuráði heimild til að setja Skálholt undir Mammon? Samræmist það skilmálum gjafar ríkisins? Stjórnvöld verða að svara því. Er þá ótalin sú vanvirða sem öllum þeim er sýnd sem hafa lagt líf sitt og sál til endurreisnar Skálholts.

Mala domestica maiora sunt lacrimis varð Brynjólfi Skálholtsbiskup að orði um harmasögu sína og sinna. Nú dugar ekki harmagrátur heldur verður að skera upp herör gegn atlögunni að Skálholti, einum þeirra höfuðstaða sem geyma okkar þjóðarsál að fornu og nýju. Það á enginn að geta ráðskast með Skálholt með þessum hætti, ekki frekar en Þingvelli. Skálholt er þjóðareign – eins og Þingvellir.

Höfundur er ekkill eftir Helgu Ingólfsdóttur

Grafarþögn um Þorláksbúð

 [Þessi grein, sem birtist í Morgunblaðinu 9. nóvember 2013, eru eftir  Eið Svanberg Guðnason, Hörð H. Bjarnason, Jón Hákon Magnússon, Vilhjálm Bjarnason og Þorkel Helgason.]

Eins og kunnugt er hefur bygging verið reist ofan á svokallaðri Þorláksbúð, skáhallt á hina formfögru Skálholtskirkju. Þessi yfirbygging er ranglega sögð tilgátuhús, en Þorláksbúð hefur engin söguleg tengsl við Þorlák biskup helga. Þetta er skemmd á allri ásýnd Skálholtsstaðar og vanvirða við þá sem stóðu að gerð þeirrar kirkju, sem átti hálfrar aldar vígsluafmæli á liðnu sumri. Fram hefur komið í umræðunni að kofinn við kirkjuvegginn er byggður á ósannindum og rangfærslum. Þjóðkirkjan íslenska má ekki una því. Þögn hefur ríkt um málið að undanförnu. Mörgum spurningum er enn ósvarað.

Við bygginguna ofan á Þorláksbúð hafa lög og reglugerðir ítrekað verið brotin.

1. Hvers vegna leyfði Minjastofnun Íslands að grafarró væri raskað í kirkjugarðinum í Skálholti? Tilgátuhúsið er byggt ofan á grafir frá fyrri tímum. Forstöðumaður Minjastofnunar Íslands hefur aldrei svarað hvers vegna hún leyfði þessa fordæmalausu framkvæmd.

2. Hvers vegna leyfði Minjastofnun Íslands að byggt væri ofan á friðlýstar fornminjar við vegg dómkirkjunnar í Skálholti og þeim raskað? Forstöðumaður Minjastofnunar Íslands hefur aldrei svarað því.

3. Byggingarleyfi Bláskógabyggðar fyrir torfkofanum sem nú er risinn var gefið út þegar framkvæmdum var nánast lokið. Hvernig stóð á því?

4. Fjárveitingar komu til verksins úr ríkissjóði. Samtals 9,4 milljónir á árunum 2008 til 2011. Aldrei hefur verið gerð grein fyrir því hvernig þeim fjármunum úr vösum almennings var ráðstafað. Bað Alþingi aldrei um endurskoðaða ársreikninga? Hversvegna hefur Ríkisendurskoðun ekki gengið eftir svörum um það hvernig þessum fjármunum var varið?

5. Hefur kirkjuráð gert grein fyrir því hvernig fjármunum kirkjunnar sem runnu til byggingar Þorláksbúðar var varið? Það voru 3 milljónir króna á árunum 2008 til 2011. Hefur kirkjuráð óskað eftir uppgjöri eða endurskoðuðum ársreikningum fyrir árin 2011 og 2012?

6. Hve mikið fé hefur runnið samtals til Þorláksbúðarfélagsins frá Alþingi og frá Kirkjuráði fyrir og eftir 2012?

7. Í bréfi Ríkisendurskoðunar til forseta Alþingis 28. júní 2012 kom fram að Þorláksbúðarfélag ætti von á reikningum „upp á nokkrar milljónir“ vegna þegar unninna verka. Hefur Ríkisendurskoðun fylgt því máli eftir?

8. Hefur sá sem byggði húsið fengið greitt fyrir sína vinnu og efnisframlag?

9. Í skýrslu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis (141. löggjafarþing, 2013) segir orðrétt: „Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hvetur Ríkisendurskoðun til að ljúka því verki að upplýsa um hvernig skattfé sem runnið hefur til þessa verkefnis hefur verið varið. Nefndin telur það ekki varpa ljósi á ráðstöfun fjárins að nokkrar milljónir króna séu útistandandi og að óvissa ríki um fjárhagsstöðu félagsins eins og fram kom í bréfi Ríkisendurskoðunar, dags. 28. júní 2012. Telur nefndin að í því efni skipti engu þó að byggingin verði ekki afhent Skálholtsstað fyrr en skuldir hennar hafa verið gerðar upp. Nefndin hvetur Ríkisendurskoðun til að ráðast í þetta verkefni hið fyrsta.“ Hvað hefur Ríkisendurskoðun gert í þessu máli? Hefur Ríkisendurskoðun sinnt þessum tilmælum Alþingis? Af hverju þessi þögn?

Ríkisendurskoðun, Minjastofnun Íslands og kirkjuráð þurfa að rjúfa þögnina sem ríkt hefur um þetta mál áður en það verður enn óþægilegra fyrir biskup Íslands og íslensku þjóðkirkjuna. Þjóðin á rétt á því að vita hvernig fé úr opinberum sjóðum er ráðstafað. Yfir því á ekki að vera neinn leyndarhjúpur.

Ekki er nóg að svör fáist við þessum spurningum, heldur verður að bæta fyrir þessi staðarspjöll með því að finna hinu meinta tilgátuhúsi annan stað.

Höfundar eru áhugamenn um velferð Skálholtsstaðar.