Skemmdarverk á Skálholti
[Birtist í Morgunblaðinu 19. febrúar 2014.]
Kirkjuráð, sem virðist hafa náð öllum völdum innan þjóðkirkjunnar, hefur ákveðið að leigja veitinga- og gistiþjónustu í Skálholti undir hótelrekstur. Áformum um að slá líka vígslubiskup af virðist þó hafa verið frestað.
Hvað gengur mönnum til? Sagt er að rétta þurfi fjárhag staðarins við. Núverandi vígslubiskup er þegar búinn að því. Hann tók að vísu við allmiklum skuldum en þær verða seint greiddar af staðnum einum. Vissulega hefur fjárhagur þjóðkirkjunnar versnað eftir hrun og taka þarf á því máli. Í þeim efnum er margt sem grípa má til sem veldur ekki þjóðarskaða eins og niðurrif í Skálholti.
Benda má að enn tíðkast það að prestar hirði arð af kirkjujörðum. Ekki þeir sem mestan hafa starfann og ættu e.t.v. launauppbót skilda. Nei, það eru einkum prestar í fámennum prestaköllum sem hafa ómældan arð af laxveiðileyfum, æðarvarpi eða leigutekjum svo að dæmi séu tekin. Þetta er arfleifð frá 19. öld, nokkuð sem löngu er búið að leggja af hjá embættismönnum ríkisins, en kirkjan er hér fórnarlamb harðrar hagsmunagæslu. Þá er engin goðgá að sameina minnstu prestaköllin. Nú er það svo að „sálusorgunarmisvægi‘“ er 1:20 þar sem tala sóknarbarna hvers prests er á bilinu frá 300 til 6000. Margir telja nauðsynlegt að jafna atkvæðisrétt til þingkosninga eftir búsetu en þar er þó misvægið aðeins 1:2. Leigutekjur af Skálholti yrðu vart meiri en það sem sparast gæti við samruna tveggja prestakalla.
Skálholt er ekki bara einhver kirkjustaður. Skálholt var og er miðstöð mennta, menningar og sögu og ekki aðeins fyrir þjóðkirkjufólk heldur þjóðina alla. Ríkisvaldið hefur sýnt það í verki með því að færa þjóðkirkjunni Skálholtsstað og kosta byggingu skólans að verulegu leyti og rekstur hans um hríð. Ráðherra sagði við afhendingu staðarins að þar ætti að starfrækja það sem „sæmdi staðnum“. Og enn eru í gildi lög um Skálholtsskóla. Hefur kirkjan lagalegan rétt til að leigja staðinn, þjóðargjöfina, einkaaðilum? Alla vega ekki siðferðilegan.
Sumir kunna að segja að varla skaði það kirkju- og menningarstarf á Skálholtsstað að þar sé rekin hótelstarfsemi. Það fer allt eftir því hvernig og hvar á staðnum. Vissulega gæti það orðið staðnum upplyfting að meira líf verði í næsta nágrenni, jafnvel hótel. En ekki á hlaðinu við kirkjuna. Skólinn og kirkjan heyra saman og gera hið andlega starf mögulegt. Vart myndi söfnuður leigja burt safnaðarheimili sitt undir fjarskylda starfsemi. Skálholtsskóli er safnaðarheimili við þjóðarkirkju.
Eitt af því sem vel hefur heppnast og haldið nafni Skálholts á lofti eru Sumartónleikar í Skálholtskirkju sem munu fagna fertugasta sumri sínu í ár með glæsilegri dagskrá, og það þrátt fyrir að þjóðkirkjan – að undirlagi kirkjuráðs – sé steinhætt að styrkja starfsemina. Í þetta sinn hefur fengist fé úr norrænum sjóðum til að hafa veglegt norrænt ívaf, enda eru Sumartónleikarnir elsta starfandi barokkhátíð á Norðurlöndum. En að loknu komandi sumri er allt eins víst að hátíðinni verði beint eða óbeint úthýst, hvort sem er af kirkjuráði eða hótelhaldara.
Hvað með virðingu fyrir þeim sem hafa lagt sig fram um heill Skálholts: Sigurbjörn Einarsson biskup, Hörð Bjarnason húsameistara, Bjarna Benediktsson þáverandi kirkjumálaráðherra, Þórarin Þórarinsson lýðháskólafrömuð, Heimi Steinsson fyrsta rektor Skálholtsskóla, Harald Hope prest í Noregi auk fjölda annarra gefenda á Norðurlöndum; eða þá tónlistarmenn sem hafa tekið ástfóstri við Skálholt og kirkjuna með sínum fagra hljómburði? Nefna má Róbert Abraham Ottósson sem stóð fyrir tónmennt í Skálholti í áratugi, Helgu Ingólfsdóttur semballeikara sem stofnaði Sumartónleikana og varði starfsævi sinni í þeirra þágu eða Manúelu Wiesler flautuleikara sem fyllti kirkjuna töfratónum sumar eftir sumar. Allt þetta fólk er látið en einum núlifandi skal bætt í þessa upptalningu: Jaap Schröder heimsfrægum fiðluleikara sem hefur í tvo áratugi leikið og stjórnað á Sumartónleikunum og síðan gefið staðnum umfangsmikið og verðmætt nótnabókasafn sitt.
Hver ber ábyrgð á því skemmdarverki sem nú vofir yfir Skálholti? Er ekki biskup Íslands forseti kirkjuráðs? Er hún sammála? Varla. Er biskup undir ægivaldi sjálfskipaðra æðstupresta? Hverjir eru þessir vandræðamenn? Nýta þeir sér að biskup er nú kona sem vill öllum vel? Hvernig væri þá að kvenprestar, sem brátt komast í meirihluta, styðji stöllu sína og standi gegn karlrembunum?
Það er þungbært að tala um skemmdarverk, en í ljósi þess sem ég hef orðið áskynja er það því miður lýsing á því sem er að gerast í Skálholti. Og þó hef ég í þessari grein ekki fjallað um annað hneyksli, yfirbyggingu yfir svokallaða Þorláksbúð sem verður tafarlaust að fjarlægja.
Skálholt á sinn stað í hjarta þjóðarinnar, rétt eins og Þingvellir. Það má aldrei líðast að fámenn klíka innan kirkjunnar stofni framtíð þessa helgistaðar í voða.
Höfundur er velunnari Skálholts.