Um útreikning á atkvæðahlutföllum í þjóðaratkvæðagreiðslum
Ég hef sent stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis minnisblað um réttan og rangan útreikning á úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012 þegar þjóðin var spurð um tillögur stjórnlagaráðs. Sjá pdf-skjalið Minnisblað um útreikninga þjóðaratkvæðagreiðslna.
Í inngangi minnisblaðsins segir eftirfarandi:
„Í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012 var þjóðin spurð ráða um sex aðskilin atriði um gerð og efni nýrrar stjórnarskrár.
Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar hafa verið birt á vefsíðum landskjörstjórnar og innanríkisráðuneytisins. Ennfremur hefur Hagstofan gert þeim skil í sérhefti svo og á vefsíðu sinni. Það er álit undirritaðs að hlutfallstölur um úrslit þessarar atkvæðagreiðslu eins og þær hafa verið birtar í annarri af tveimur tilkynningum landskjörstjórnar, hjá innanríkisráðuneytinu svo og sem aðalniðurstaða í riti Hagstofunnar séu villandi.
Rangfærslan byggist á því að atkvæði þar sem tiltekinni spurningu er ekki svarað eru engu að síður talin til gildra en ekki auðra atkvæða varðandi viðkomandi spurningu og hlutfallstölur reiknaðar í samræmi við það. Samtala hlutfalla já-svara og nei-svara er því ekki 100%. Þannig getur það gerst, samkvæmt þessari túlkun, að tillaga sem borin væri undir þjóðaratkvæðagreiðslu teljist hvorki hafa verið samþykkt né að henni hafi verið hafnað. Hlutfallstölurnar sem hafa verið birtar gefa því ekki þá mynd sem löggjafinn hlýtur að hafa verið að leita eftir, þar sem fram eigi að koma vilji þeirra sem tóku afstöðu til hverrar spurningar fyrir sig, og þeirra einna.
Birting úrslita í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 með ofangreindum hætti er nýlunda í íslenskri kosningasögu, enda eru fylgishlutföll lista í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórna ætíð reiknuð þannig að þau safnast saman í 100%. Sama á við um forsetakosningar. Í öllum öðrum skýrslum Hagstofunnar um þjóðaratkvæðagreiðslur er ennfremur hið sama uppi á teningnum. Fyrst með þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 eru niðurstöður kynntar með hinum nýja hætti.
Úrslitin með umræddum hlutfallstölum hafa verið tekin sem viðtekinn sannleikur og t.d. ratað í fyrstu áfangaskýrslu starfandi stjórnarskrárnefndar. Aðferðafræðin getur haft fordæmisgildi og boðið heim hættu á misnotkun þjóðaratkvæðagreiðslna.
Því ber viðkomandi stjórnvöldum að leiðrétta þessa rangfærslu, en löggjafinn taki af allan vafa með lagabreytingu sé þess talin þörf.“