Tímabært að gera umbætur á fyrirkomulagi kosninga
[Birtist í Fréttablaðinu 11. febrúar 2015.]
Fyrirkomulag kosninga til Alþingis hefur verið sífelldum breytingum háð allt frá fyrstu tíð. Síðustu meginbreytingar tóku gildi 1959, 1987 og 2000.
Búsetuflutningar á landinu hafa einkum verið tilefni þessara breytinga. Í kjölfar tilfærslu fólks frá dreifbýli til þéttbýlis hefur risið krafa um jöfnun vægis atkvæða eftir búsetu svo og krafa um hlutfallslega rétta skiptingu þingsæta á milli flokka. Jafnframt hefur einatt verið kallað eftir raunhæfu persónukjöri, þ.e.a.s. því að kjósendur fái vald til að ráða því hvaða frambjóðendur nái kjöri.
Alltaf hafa þessar breytingar verið hálfkveðin vísa: Misvægi atkvæða eftir búsetu hefur verið minnkað, en því ekki verið útrýmt, og hefur því ætíð hallað á ógæfuhliðina á ný. Nú hafa kjósendur um tvöfalt meira atkvæðavægi norðan Hvalfjarðarganganna en sunnan þeirra. Dregið hefur verið úr misvægi í skiptingu þingsæta milli flokka en sá ójöfnuður þó aldrei kveðinn í kútinn, samanber ójafna skiptingu sæta milli flokka eftir síðustu kosningar. Og persónukjör hefur ávallt verið í skötulíki eftir að listakosningar urðu meginreglan.
Þjóðin kallaði eftir breytingum í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012. Þannig lýstu 2/3 þeirra sem afstöðu tóku sig því fylgjandi „að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt“ og meira en 3/4 kölluðu eftir persónukjöri „í meira mæli en nú“.
Umbætur hafa látið á sér standa
Stjórnlagaráð lagði til að í nýrri stjórnarskrá yrði tekið á öllum þessum atriðum og viðeigandi ákvæði fest í stjórnarskrá þannig að Alþingi velktist ekki í vafa um útfærsluna í kosningalögum.
Umbætur hafa þó látið á sér standa. Málið er nú til umfjöllunar í enn einni stjórnarskrárnefndinni og verður að vænta þess að þar verði tillögum stjórnlagaráðs fylgt eftir. Innan ramma gildandi stjórnarskrár má þó gera ýmsar lagfæringar á fyrirkomulagi kosninga sé vilji fyrir hendi. Nokkrar hugmyndir þar að lútandi eru reifaðar í grein höfundar í vefritinu Stjórnmál og stjórnsýsla, 2. tbl., 2014.
„Heill lýðræðisríkja … hvílir á lítilfjörlegu tæknilegu atriði: fyrirkomulagi kosninga. Allt annað er aukaatriði“ sagði hinn mikli spænski hugsuður José Ortega y Gasset. Því er kallað eftir umræðu um þennan grundvöll lýðræðisins.