by Þorkell Helgason | jan 19, 2019 | Á eigin vefsíðu
Forseti Alþingis hefur skipað starfshóp um endurskoðun kosningalaga til að fara yfir tillögur vinnuhóps um endurskoðun kosningalaga ásamt frumvarpi sem lagt var fram á Alþingi 5. september 2016. Óskað er eftir athugasemdum við þessi gögn o.fl. fyrir 22. janúar 2019.
Þar sem ég hef sýslað við allmargt á þessu sviði hef ég sent nefndinni athugasemdir mínar, sem ég enda þannig:
Ég vil ljúka ábendingum með því að hvetja starfshópinn til dáða, nú þegar lýðræði á í vök að verjast víða um heim. Hvatningu minni til stuðnings vitna ég í hinn spænska hugsuð José Ortega y Gasset (1883-1955):
„Heill lýðræðisríkja, hverrar gerðar eða máttar sem þau eru,
hvílir á lítilfjörlegu tæknilegu atriði: Fyrirkomulagi kosninga.
Allt annað er aukaatriði.“
by Þorkell Helgason | jan 18, 2019 | Á eigin vefsíðu
Ég hef verið viðriðin kosningamál allt frá árinu 1982; fyrst sem stærðfræðilegur ráðgjafi við endurskoðun ákvæða um kosningar til Alþingis, bæði á árabilinu 1982-87 og aftur um og fyrir s.l. aldamót. Jafnfram hef ég liðsinnt landskjörstjórn við úthlutun þingsæta í öllum kosningum frá og með þeim árið 1987 til og með þeirra 2013.
Þegar ég af aldurssökum hætti að þjónusta landskjörstjórn eftir þingkosningarnar 2013 sendi ég henni e.k. kveðjubréf sem mig langar að halda til haga einmitt nú (2019) þegar endurskoðun kosningalaga stendur fyrir dyrum. Bréfið var þannig:
Til landskjörstjórnar.
Ég hóf afskipti af kosningamálum haustið 1982 en þá varð e.k. ráðgjafi flokksformanna sem þá voru að undirbúa breytingu á ákvæðum um kosningar til Alþingis. Síðan 1987 hef ég verið ráðgjafi landskjörstjórnar við úthlutun þingsæta. Nú er mál að linni og búið er að finna traustan eftirmann minn. Að vísu vænti ég þess að geta lokið mínu starfi með heildargreiningu á kosningaúrslitunum eins og ég hef gert á þrennum síðustu þingkosningum.
Ég vil með bréfi þessum þakka landskjörstjórn, fyrr og síðar, fyrir einkar ánægjulegt samstarf. En jafnframt vil ég með bréfinu hvetja til að allt fyrirkomulag kosninga verði tekið til endurskoðunar. Þar er ekki átt við hina pólitísku þátta málsins heldur um framkvæmdina alla. Kosningalög hafa ekki verið endurskoðuð í heild um afar langa hríð. Að hluta til má rekja ákvæðin öld aftur í tímann, jafnvel lengur.
Ég hef kynnt mér erlendar fyrirmyndir og ráðleggingar alþjóðastofnana og er eindregið þeirrar skoðunar að það eigi að vera einn lagabálkur um allar kosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur, en vitaskuld með sérákvæðum um einstakar kosningar. Mikilvægur þáttur í þeim lögum ætti að vera að styrkja stöðu landskjörstjórnar og koma húsbóndavaldinu á eina hönd, hjá landskjörstjórn. Af erlendum fyrirmyndum vil ég sérstaklega benda á slík heildarkosningalög í Noregi.
Í kjölfar endurskoðunar er síðan brýnt að endurskoða allt gagnaflæði og gagnvinnslu og fella þetta saman í eitt kerfi. Á meðf. fylgiskjali, „Gagnaflæði við þingkosningar 2013“ , er þetta sýnt fyrir nýliðnar kosningar.
Eitt markmiða með endurbættu fyrirkomulagi og heilstæðu gagnakerfi ætti að vera að lækka kostnað við kosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur, enda viðbúið að þeim muni fjölga á komandi árum.
Enda þótt formlegu starfi mínu fyrir landskjörstjórn sé að ljúka er ég reiðubúinn til að ljá þessum endurbótum lið, sé eftir því óskað.
Virðingarfyllst,
(sign. Þorkell Helgason)
by Þorkell Helgason | jan 15, 2019 | Á eigin vefsíðu
Ég hélt erindi (sem má finna með því að smella hér í málstofu í stærðfræðideild Tækniháskólans í München hinn 14. janúar 2019 undir heitinu “Bidimensional Election Systems: Apportionment methods in theory and practice”.
Erindið fjallaði um það sem ég og félagar mínir hafa lengi verið að bauka við, það stærðfræðilega viðfangsefni að úthluta þingsætum þegar úthlutunin er bundin í báða skó: Kjördæmin verða að fá sín sæti og engar refjar en flokkarnir sæti í samræmi við landsfylgi.
Þetta er hvergi nærri einfalt viðfangsefni. Þó er til ein, en aðeins ein, gerð úthlutana sem uppfyllir eðlilegar lágmarks gæðakröfur; svo sem að það má aldrei koma fyrir að listi fái fleiri sæti fækki atkvæðum hans; eða öfugt. En þetta getur gerst í flestum raunverulegum kosningakerfum, t.d. því sem er í kosningalögum á Íslandi.
Aðferðafræðin sem skilar hinni fullkomnu úthlutun þykir löggjafanum væntanlega of flókin. Þó er hún notuð í sumum kantónukosningum í Sviss. Því höfum við í svonefndum “Kosningafræðiklúbbi” verið að hugsa upp góðar nálgunaraðferðir og þróa hermilíkön til prófunar á kosningakerfum. Um þetta fjallaði erindi mitt.
Áheyrendur voru um fimmtán; stærð- og tölvunarfræðingar, bæði kennarar og doktorsnemar úr viðkomandi deildum Tækniháskólans, en hann er sá fremsti í Þýskalandi og þó víðar væri leitað. Það var gagnlegt að eiga skoðanaskipti við þessa sérfræðinga.