Skip to content

Stjórnlagaþingið í Morgunblaðinu

Höfundur: Þorkell Helgason, February 17th, 2011

[Þessi pistill birtist á mbl.is 17. febrúar 2011 og í styttri gerð á 22. síðu Morgunblaðsins sama dag. Því miður hafa skáletur og gæsalappir utan um tilvitnanir farist fyrir hjá Mogganum. Lesið því heldur grein þessa hér.]

Hvers vegna verður orðræða um þjóðmál á Íslandi svo oft að skætingi eða aulafyndi um leið og gert er lítið úr þeim sem eru annarrar skoðunar, þeir gerðir tortryggilegir í hvívetna eða þeim jafnvel gerðar upp illar hvatir? Hvers vegna er lítt hirt um staðreyndir heldur kastað fram fullyrðingum án rökstuðnings, einatt án þess að minnsta tilraun sé gerð til að grafast fyrir um sannleiksgildi þeirra?

Í dagbók sem Matthías Johannessen hefur birt á vefsíðu sinni segir skáldið frá því að 18. maí 1998 hafi hann snætt hádegisverð með Davíð Oddssyni, þáv. forsætisráðherra, og þriðja manni þar sem borið hafi á góma skrif tveggja blaða sem einkennist af allskyns illgirni sem komið sé fyrir í litlum klausum, eins og Matthías skrifar, og segir síðan að Davíð [sé] sama sinnis og ég um þetta efni; að fólk vilji ekki kaupa illgirni. Þessi orð eiga ekki síður við nú en þá.

Dylgjur

Undanfarið hefur a.m.k. í þrígang verið dylgjað um undirritaðan í Morgunblaðinu í sambandi við stjórnlagaþingið og kosninguna til þess. Ég hef hummað þetta fram af mér og hugsað sem svo að dylgjur afhjúpi sig sjálfar. Ástæða þess að ég svara þessu núna er því fremur til að nota tækifærið til að koma á framfæri nokkrum réttum upplýsingum um viðfangsefnið, kosninguna til stjórnlagaþingsins og aðkomu mína að því máli öllu.

Þau skrif sem ég ætla að bregðast við eru annars vegar frá ónafngreindum höfundi tveggja Reykjavíkurbréfa og hins vegar frá fyrrverandi ráðherra, Guðna Ágústssyni.

  1. Á s.l. aðfangadag jóla fékk ég og félagi minn þessa sendingu í Reykjavíkurbréfi: [T]il þess að kjósa til slíkrar ráðstefnu [stjórnlagaþingsins] skyldi nota kosningaaðferðir sem ekki nokkrir menn skildu nema þá helst þeir tveir sem sömdu kerfið og höfðu síðan geð í sér og siðferðisstyrk til að bjóða sig fram. Þessir tveir óþurftarmenn er ekki nafngreindir, en við erum aðeins tveir sem falla að lýsingunni, ég og Pawel Bartoszek.
  2. Eftir að Hæstiréttur felldi hinn alkunna úrskurð um ógildingu kosningarinnar var langur bálkur í Reykjavíkurbréfi 30. janúar. Honum lýkur með þessu: Aðeins þrír menn í heiminum skilja regluna. Einn er indverskur prófessor, sem lést fyrir fáeinum misserum. Annar missti vitið við vinnslu málsins og er nú talinn reika um í regnskógum Suður-Ameríku. Sá þriðji er vanhæfur til að fjalla um það, því hann skellti sér í framboð til stjórnlagaþings eftir að hann var búinn að fá stjórnmálamenn sem botnuðu ekki neitt í neinu til að lögfesta regluna. Pawel virðist nú sloppinn en ég sit uppi með það að hafa afvegaleitt stjórnmálamennina.
  3. Guðni Ágútsson skrifar í blaðið 3. febrúar: Þegar tæknimeistararnir höfðu komið andanum eða reiknireglunum í heilann á róbótanum sem taldi atkvæðin á dularfullan hátt, brugðu þeir á það undarlega ráð að fara sjálfir í framboð, menn sem bjuggu yfir miklu leyndarmáli. Hugsunin er sú sama og hjá ritstjóranum nafnlausa en nú er gengið sínu lengra, ekki aðeins vandlæting yfir framboði mínu heldur beinlínis verið að væna mig (og Pawel?) um e.k. „innherjasvik“ að hætti útrásarvíkinga. Ætli slíkt sé ekki athæfi sem varði við margra ára tugthús?
  4. Enda þótt það snerti ekki sjálfan mig get ég ekki stillt mig um að vitna áfram í orð Guðna: Ennfremur virðast varaþingmenn hafa brotið lögin, fóru í framboð og tveir þeirra náðu kjöri. Það lét yfirkjörstjórnin átölulaust. Það átti að standa þó lögin hafi harðbannað svoleiðis fólk, svo ekki sé talað um alþingismenn. Jafnframt heyrði ég talað um að aðstaða frambjóðenda hefði verið mjög misjöfn, einhverjir þeirra hefðu sent tölvupósta í þúsundavís, þess vegna á kostnað almennings, aðrir höfðu yfir engu fé að ráða. Mér er sagt að sigurvegari kosninganna hafi hlotið 3% atkvæða og að 14 stjórnlagaþingmenn hefðu alls ekki náð kosningu. Þessar aðdróttanir eru rangar, enda byggðar á Gróu á Leiti samanber hina merku heimild „mér er sagt“. En báðar þær talnafullyrðingar sem settar eru fram í síðustu setningunni eru kolrangar. Sá sem fékk flest atkvæði í kosningunni, og það að fyrsta vali, fékk nær þrefallt meira fylgi en Gróa sagði Guðna, eða tæp 9%, og fullyrðingin um að 14 stjórnlagaþingmenn hefðu alls ekki náð kosningu hefur margoft verið rekin ofan í Gróu.

Svör

Hverju er til að svara og þá með það í huga að upplýsa?

  1. Er kosningaraðferðin, hin svokallaða STV-aðferð, íslensk uppfinning? Höfundur Reykjavíkurbréfanna telur uppfinningarmanninn hafa verið undirritaðan. (Sama segir Jónas Kristjánsson, fyrrv. ritstjóri, í mörgum bloggpistlum sínum en það væri að æra óstöðugan að eltast við þau skrif öll.) Hið rétta er að höfundar aðferðarinnar voru tveir, Englendingurinn Thomas Hare og Daninn Carl Andræ, báðir uppi á 19. öld. STV-aðferðinni er beitt víða um lönd og er til í ýmsum gerðum en sú útfærslan sem notuð var hér er skosk, ekki íslensk. Írar hafa einna mesta reynslu af aðferðinni en þar hefur hún verið notuð í öllum kosningum í ein 90 ár. Á Bretlandi var stofnað félag árið 1884, Electoral Reform Society, til að berjast fyrir því að STV-aðferðin verði tekin upp í almennum kosningum þar í landi. Félagið hefur nú unnið þann áfangasigur að breska ríkisstjórnin ætlar að leggja það í þjóðaratkvæði að horfið verði frá meirihlutakosningum og tekið upp afbrigði STV-aðferðarinnar í þingkosningum þar í landi.
  2. Hvers vegna varð kosningaraðferðin, STV-aðferðin, fyrir valinu hér? Höfundur seinna Reykjavíkurbréfsins telur að ég hafi vélað stjórnmálamenn sem botnuðu ekki neitt í neinu til að lögfesta regluna. Málavextir eru hins vegar þeir að ég var fenginn til þess á árinu 2009, ásamt fleirum, að semja frumvörp um innleiðingu persónukjörs í alþingis- og sveitarstjórnarkosningum. Margar leiðir voru reifaðar, m.a. STV-aðferðin. Ríkisstjórnin valdi hana og tel ég það hafa verið gott val. Frumvarpið um stjórnlagaþing var seinna á ferðinni og þá þótti sjálfsagt að viðhafa sömu aðferð við kosningu til þess, þó ekki væri nema til þess að rugla ekki kjósendur í ríminu mörgum ólíkum reglum. Fróðlegt er að STV-aðferðinni var einna fyrst hampað hér á landi af foringjum ungliðahreyfinga „lýðræðisflokkanna“ eins og þeir voru kallaðir þá. Þetta var árið 1976 og þeir sem voru í forsvari heita Finnur Torfi Stefánsson, Jón Sigurðsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og hafa allir orðið þjóðþekktir menn. Sá síðast nefndi skrifaði ítarlega tímaritsgrein um aðferðina. Hann hefur heldur betur komið við sögu umrædds máls nú. Það má því rekja a.m.k. aldarfjórðung til baka að stjórnmálamönnum sé bent á þessa ágætu persónukjörsaðferð.
  3. Framboð mitt. Bæði ritstjórinn og Guðni lýsa vanþóknun sinni á því að ég hafi brug[ið] á það undarlega ráð að fara sjálf[ur] í framboð. Ég hef haft þann starfa um áratugaskeið að stýra opinberum stofnunum og jafnframt verið ráðgjafi stjórnvalda um margvíslega mál, ekki síst kosningamál. Ég taldi mig því hafa mikla reynslu af því hvernig stjórnkerfið virkar í reynd og búa yfir sérþekkingu um kosningafræði, allt sem gagnast mætti við endurgerð stjórnarskrár. Þeirri hugmynd laust því niður hjá mér að bjóða mig fram. Ég hugleiddi ítarlega hvort ég væri of nákominn viðfangsefninu til að geta farið í framboð og fór því í gegnum alla aðkomu mína að málinu en hnaut ekki um neitt sem gæti valdið hugsanlegum hagsmunaárekstri eða að ég hefði komið þannig að undirbúningi málsins að það hefði vanhæfi í för með sér. Ég ákvað því að liggja ekki á liði mínu og bjóða mig fram. Um leið og sú ákvörðun lá fyrir hætti ég ráðgjöf við stjórnvöld og fór í leyfi frá hlutastarfi mínu þar að lútandi. Fyrir þessu gerði ég grein á vefsíðu minni þegar ég bauð mig fram, sjá http://thorkellhelgason.is/?p=192.
  4. Leyndarmálið mikla. Guðni telur mig hafa búið yfir leyndarmáli eftir að hafa komið andanum í heilann á róbótanum (sem er orð sem var upphaflega notað um tölvur). Svona aðdróttanir eru grafalvarlegar. Vitaskuld kom ég hvergi nærri talningartölvunum eða forritun þeirra. Það var allt í höndum óháðra aðila, mestmegnis erlendra. Að öðru leyti er svona aulafyndni ekki svaraverð. En aðdróttanirnar kynnu að varða við meiðyrðalöggjöf. Það verður þó látið liggja á milli hluta en ég get bent á verðlaunaða menningarstarfsemi í fyrrum kjördæmi ráðherrans sem hann mætti styrkja til að sýna iðrun og yfirbót.

Niðurlag

Margt fleira mætti upplýsa um hina merkilegu kosningu til stjórnlagaþings sem heppnaðist vonum framar sem slík – og læt ég þá liggja á milli hluta þá þætti framkvæmdarinnar sem Hæstiréttur telur hafa verið með annmörkum. Þeim sem vilja vita meira um kosninguna bendi ég á vefsíðugrein mína um málið, sjá http://thorkellhelgason.is/?p=715.

Mikið væri ánægjulegra að búa á Íslandi ef hér væri upplýst og rökvís umræða um vanda okkar og viðfangsefni, þar sem hlustað væri á aðra án þess að gera lítið úr þeim, þar sem aulafyndi væri ekki notuð til að ná athygli. Ég er þess fullviss að sá góði hópur sem var kjörinn var til setu á stjórnlagaþingi 27. nóvember s.l. færi aðrar og uppbyggilegri umræðuleiðir en þær sem tíðkast hafa fengi hann til þess tækifæri.

 

Comments are closed.