Greining á úrslitum kosningar til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010

Greinargerð þessi birtist í  í heild sinni í veftímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla 1.tbl. 7. árg. sem kom út 30. júní 2011.

Samantekt á innihaldi greinargerðarinnar:

  • Margt var sérstætt við þessa kosningu. Þetta var landskjör, þ.e. landið var eitt kjördæmi, framboð voru einstaklingsbundin, hreint persónukjör. Kosningin var um margt nýmæli, ekki aðeins hér á landi heldur líka sé leitað samanburðar út í hinn stóra heim.
  • Frambjóðendur skiptust þannig eftir kyni að 70% voru karlar en 30% konur. Hlutfall frambjóðenda var verulega umfram hlutfall kjósenda á kjörskrá í Reykjavík. Þessi hlutföll voru mjög ámóta á Suðvesturlandi en í öðrum kjördæmum hallaði á frambjóðendur, mest í Suðurkjördæmi þar sem hlutfall þeirra var einungis helmingur af hlutfalli kjósenda.
  • Kosningarþátttaka var dræm, 35,95%. Ógildir kjörseðlar, þar með talin auðir, námu 1,43% sem er minna en gerist og gengur í kosningum hérlendis. Á hinn bóginn  kunna allmörg atkvæði að hafa verið óvirk að hluta vegna umdeilanlegra  ákvæða laga um meinbugi á kjörseðlum.
  • Uppgjör kosningarinnar fór fram með aðferð, STV, sem ekki hefur verið notuð hérlendis áður. Kostir STV-aðferðarinnar eru tíundaðir: Atkvæði fara lítt í súginn, aðferðin er hlutfallsaðferð, hægt er að kjósa eftir sannfæringu, kjósandinn tekur ekki áhættu við að auka við röðun sína og það er erfitt að beita brögðum. STV-aðferðin hefur líka galla: Hún kann að þykja flókin, sem er aðallega vegna þess að hún er lítt þekkt. Enn fremur er hún ekki einhalla (frekar en margar aðrar), þ.e. búa má til dæmi þess efnis að frambjóðandi missi af kjöri við að fá of mörg atkvæði og öfugt.
  • Aðferðin í stuttu máli: Hver kjósandi fer með eitt atkvæði og raðar frambjóðendum í vallínur eftir þeim forgangi sem hann vill að þeir hafi að atkvæðinu. Sá sem er í efstu vallínu hjá kjósandanum hefur fyrstur aðgang að atkvæðinu. Sé frambjóðandinn úr leik – þ.e. hefur náð kjöri eða fallið út sakir lítils fylgis – færist atkvæðið til þess sem er næstur á óskalista kjósandans. Og síðan koll af kolli. Ítralegri lýsing er í fylgiskjali.
  • Þátttaka kjósenda í röðunarferlinu var mjög góð. Að meðaltali raðaði hver kjósandi 14,8 frambjóðendum en 29% röðuðu í allar þær 25 línur sem stóðu til boða. Hinir kjörnu hlutu 38,5% atkvæða þegar að 1. vali. 83,4% atkvæða áttu að hlutdeild í vali þeirra sem kjöri náðu. Afgangurinn, eða 16,6% atkvæða, dagaði uppi í þeim skilningi að þau atkvæði gögnuðust engum hinna kjörnu frambjóðenda. Að meðaltali hafði hver kjósandi nöfn 3,7 þeirra frambjóðenda sem kjöri náðu á seðli sínum.
  • Úthlutun með STV-aðferðinni, þeirri sem notuð var í raun, er borin saman við útkomu eftir ýmsum öðrum aðferðum: Einn kross, allt að 25 krossar, stigagjafaraðferð, prófskjörsaðferðin. 18 til 21 af hinum 25 kjörnu hefðu líka náð kjöri með hinum aðferðunum. Með STV-aðferðinni náðu 10 konur kjöri. Þær hefðu orðið 1-2 færri með hinum aðferðunum. Eftir STV-aðferðinni höfðu 59%-83% atkvæðanna raunverulega áhrif á val hinna 25 en aðeins 16%-21% atkvæðanna hefðu skipt sköpum um úthlutun sætanna ef öðrum aðferðum hefði verið beitt.
  • Brugðist er við ýmissi gagnrýni á kosningarkerfið: Því er andmælt að kosningaraðferðin sé íslenskur sérvitringsháttur og hrákasmíð. Vakin er athygli á þeirri gagnrýni að STV-aðferðin sé ekki einhalla. Því er andmælt að aðeins þeir sem ná fullum sætishlut séu rétt kjörnir. Leiðréttur er sá misskilningur að það skipti máli í hvað röð seðlarnir séu taldir. Öfgakenndu dæmi um að STV-aðferðin geti hyglað fámennri klíku er andmælt. Því er svarað hví ekki voru notaðar þróaðri útgáfur af STV-aðferðinni. Tekið er undir þá gagnrýni að aðferðin til úthlutunar sæta til kynjajöfnunar hafi verið gölluð, en sem betur fer reyndi ekki á hana.
  • Fjallað er ítralega um þá skoðun að kosningin hafi verið dauðadómur yfir persónukjöri og því að hafa landið eitt kjördæmi. Fullyrt er að því fari fjarri að stjórnlagaþingskosningin hafi sýnt að persónukjör á landsvísu sé illgerlegt. Kosningin hafi á hinn bóginn leitt í ljós viðfangsefni sem leysa þarf til að slíkt fyrirkomulag heppnist sem best. Bent er á nokkrar lausnir í því sambandi.
  • Í fylgiskjölum eru annars vegar vangaveltur um það hvers vegna fólk hafi setið heima í kosningunni. Hins vegar er farið ítarlega yfir STV-kosningaraðferðina og henni lýst með tilvísun í úrslit kosningarinnar.

 

Hvað þurfa margir að strika út mann til að hann færist niður?

Í kjölfar sveitarstjórnarkosninga 29. maí 2010 er spurt hver sé munurinn á mati á útstrikun (og öðrum breytingum á kjörseðlum) annars vegar samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis og hins vegar samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna. Um þetta er ítarlega fjallað í niðurlagi greinargerðar um þingkosningarnar 2003 annars staðar á þessum vef.  Þú getur lesið greinina í pdf með því að smella hér.

Hér verður því ekki farið út í aðferðafræðina en útfærslurnar bornar saman í eftirfarandi töflu þar sem því er svarað sem oftast er spurt um í þessu sambandi: „Hve stór hluti kjósenda lista þarf að strika út sama manninn til að hann falli niður um sæti?“

Útstrikanir í kosningum
Við sveitarstjórnarkosningar (þar sem fram fara hlutbundnar kosningar) er svarið einfalt: Meira en helmingur kjósenda lista verður að strika mann út svo að hann falli niður um sæti. Gerist það fellur hann raunar alveg út af listanum.

Eftir þeirri aðferð sem beitt er við þingkosningar (frá og með kosningunum 2003) er þetta flóknara og fer eftir fjölda sæta sem listinn fær og því sæti sem frambjóðandinn er boðinn fram í. Taka má sem dæmi um fjórða mann á lista sem fær fjóra menn kjörna. Þá þarf meira en 16,7% þátttöku í slíkri útstrikunaraðgerð til að frambjóðandinn falli út niður um sæti og nái ekki kjöri sem aðalmaður (en verði í staðinn fyrsti varamaður).

Allt er þetta byggt á þeirri forsendu að ekki sé hróflað við frambjóðendum á listanum að öðru leyti. Stuðningsmenn umrædds fjórða manns geta t.d. beitt þeim mótleik að strika út fimmta mann listans. Útstrikanir ofar á listanum geta líka gert það erfiðara að víxla röð tveggja frambjóðenda.

Til að finna hvað hátt hlutfall útstrikana verður að vera til að færa mann niður í um tvö sæti í þingskosningum þarf einfaldlega að tvöfalda töluna í töflunni, o.s. frv.

ICESAVE er prófraun á beint lýðræði

[Þessi pistill birtist í Fréttatímanum 8. apríl 2011]

Þannig hefur oftsinnis háttað til að stutt hefur verið á milli kosninga til sveitarstjórna og kosninga til Alþingis; ár eða minna. Eitt sinn gerði ég lauslega tölfræðilega könnun á úrslitum slíkra kosningapara og fékk sterka fylgni með tilfærslum milli vinstri og hægri í hvorum tveggja kosningunum. Gott ef fylgnin var ekki sterkust milli úrslita í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík og landsúrslita í þingkosningum. Greinilegt var að kjósendur voru oft að „hefna þess í héraði sem hallaðist á Alþingi“.

Það er því miður algengt í öllum kosningum að kjósendur horfi um víðan völl en einbeiti sér ekki að því sem kosningin á að snúast um hverju sinni. Þetta er einkum bagalegt þegar greitt er þjóðaratkvæði um einstakt afmarkað efni og eru það ein meginrökin sem beitt er gegn beinu lýðræði. Um þrjátíu þjóðaratkvæðagreiðslur hafa farið fram um ýmis málefni viðvíkjandi Evrópusambandinu í aðildarríkjum þess, svo sem um aðild að sambandinu, um einstakar breytingar á grunnsamningum þess eða um evruna. Vitað er að úrslitin hafa oft ráðist af vinsældum ríkisstjórnar í viðkomandi aðildarlandi.

Kosningin nú snýst um eitt mál

Á morgun, 9. apríl, reynir á þjóðina í afar mikilvægri atkvæðagreiðslu um nýjan Icesave-samning. Málið er flókið en í mjög einfaldaðri mynd snýst valið um það hvort við viljum ljúka málinu með þeim samningi sem nú liggur fyrir, og talinn er sá besti sem fengist getur, eða hvort við viljum láta reyna á dómstóla, innlenda og erlenda, og sjá hvernig okkur skattgreiðendum reiðir af í ólgusjó lögspekinnar. Vissulega eru mörg fleiri sjónarhorn, svo sem hin siðferðilega hlið málsins, sem skiptir marga miklu máli, meðal annars undirritaðan sem vill ekki vera talinn óreiðumaður. Siðaðir menn semja við granna sína. En skoðun mín er ekki tilefni þessa pistils heldur hitt að hvetja kjósendur til að einskorða sig við viðfangsefnið, að segja „já“ eða „nei“ um fyrirliggjandi samning einan. Þessi kosning snýst EKKI um forseta lýðveldisins, ekki um Evrópusambandið, ekki um evruna, ekki um kvótakerfið, ekki um ríkisstjórnina. Enn síður um stjórnlagaráðið og hvernig því reiðir af. Með kosningunni erum við heldur ekki að ná okkur niðri á ráðamönnum Breta og Hollendinga. Kosningin snýst ekki um allt það sem kjósendur kunna að vera fúlir út í. Hún snýst aðeins um eitt mál, Icesave-samninginn.

Hver svo sem úrslitin verða munu þau efalaust verða túlkuð út og suður af lýðskrumurum. Mikilvægara er að vandaðir fræðimenn kanni niðurstöðuna út frá því sem hér er rætt: Stóðst þjóðin prófið? Kynntu kjósendur sér málefnið og létu það eitt ráða atkvæði sínu?

Beint lýðræði er heillandi

Það er heillandi viðauki við fulltrúalýðræðið að þjóðin geti tekið af skarið um mikilvæg lagafrumvörp sem Alþingi hefur afgreitt, jafnvel lagt til lagabreytingar. En þetta krefst áhuga og aga af hálfu þjóðarinnar. Það kemur ekki af sjálfu sér og ekki í einu vetfangi. Við höfum nánast enga reynslu af þjóðaratkvæðagreiðslum. Mest er reynslan í þeim efnum annars vegar í Sviss og hins vegar í einstökum ríkjum Bandaríkjanna. Í Bandaríkjunum má rekja upphafið til öndverðrar 17. aldar í fylkjum Nýja-Englands. Síðustu áratugina heyrist einkum af slíkum atkvæðagreiðslum í Kaliforníu, þar sem þróunin hefur verið með ýmsu móti og að margra dómi orðið að eins konar skrílræði. Í Sviss finnast dæmi um beint lýðræði allt aftur til 15. aldar. Í nútímabúningi er þessi ríka lýðræðishefð þeirra frá miðri 19. öld. Síðan 1848 hefur um 500 sinnum verið efnt til þjóðaratkvæðagreiðslna í Sviss. Í einstökum sýslum landsins (kantónum) skipta slíkar atkvæðagreiðslur þúsundum. Fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan í Sviss var um nýja stjórnarskrá en meðal dæma frá þessari öld er að finna þjóðaratkvæði um bann við akstri bíla einn sunnudag á hverjum ársfjórðungi. Sú tillaga var felld með 62% atkvæða en 49% svissnesku þjóðarinnar létu sig málið það miklu skipta að að þau mættu á kjörstað. Í slíkum atkvæðagreiðslum láta Svisslendingar ekkert trufla sig, til dæmis ekki það hvernig ríkisstjórn reiðir af – enda láta þeir sig yfirleitt litlu skipta hverjir skipa hana.

Vöndum valið

Við væntanlega endurskoðun stjórnarskrár okkar verða ákvæði um þjóðaratkvæði eitt af stóru málunum. Þá verður efalaust dreginn lærdómur af tvennum kosningum um Icesave-málið alræmda. Meðal annars af þeim sökum er mikilvægt að þjóðin hugsi vel sinn gang, mæti á kjörstað og taki afstöðu til þessa eina málefnis – og vandi valið!

Stjórnarskráin verður að vera þjóðinni hjartfólgin

[Þessi pistill birtist í Fréttatímanum 1. apríl 2011]

Allt frá stofnun lýðveldisins hefur það verið ætlun Alþingis að endurskoða stjórnarskrána. Alkunna er hvernig til hefur tekist. Eftir langan aðdraganda og ýmis skakkaföll hefur Alþingi nú falið sérstöku Stjórnlagaráði, skipuðu 25 konum og körlum, það verkefni að semja frumvarp að nýjum sáttmála utan um þjóðskipulag okkar. Stjórnlagaráðið er nú fullskipað og tekur til starfa í næstu viku. Ég er einn þeirra sem hafa tekið sæti í ráðinu.

Nú er lag

Vissulega þurftum við að spyrja okkur ýmissa samviskuspurninga áður en við þáðum boð um setu í ráðinu, ekki síst í ljósi úrskurður Hæstaréttar um ógildingu kosningar til Stjórnlagaþings. Bent hefur verið á alvarlegar rökvillur í þeim úrskurði en ákvörðun dómaranna var engu að síður endanleg. Við sem munum sitja í Stjórnlagaráði berum hvorki ábyrgð á þeim mistökum sem leiddu til úrskurðarins né heldur á þeirri lausn málsins sem nú liggur fyrir. Við höfum einungis skyldur við þjóð og þing um að vinna vel og samviskusamlega að því verkefni sem okkur er falið. Þeir 25 sem fengu mestan stuðning í kosningunni höfðu 83% gildra atkvæða að baki sér. Þetta má lesa út úr talningu landskjörstjórnar sem Hæstiréttur hefur ekki borið brigður á. Stuðningur við hópinn var því mikill meðal þeirra sem kusu.

Það er ábyrgðarmikið verkefni að gera endurbætur á stjórnarskránni og starfstími Stjórnlagaráðs er knappur. Með samstilltu átaki vænti ég þess engu að síður að unnt verði að leggja fyrir þing og þjóð ígrundað frumvarp til nýrra stjórnskipunarlaga innan settra tímamarka. Í því starfi er fengur að góðum ábendingum frá Þjóðfundinum 2010. Að auki er mikils að vænta af vinnu stjórnlaganefndar þeirrar sem hefur unnið sleitulaust frá s.l. sumri að gagnaöflun og greinargerðum um stjórnarskrármálið. Niðurstaða nefndarinnar verður lögð fyrir Stjórnlagaráðið um leið og það kemur saman.

Ákvörðun mín um að taka sæti í ráðinu byggðist ekki síst á því að nú býðst langþráð tækifæri. Gangi það okkur úr greipum er hætt við að þess verði langt að bíða að til verði vandaður, auðskilinn og sanngjarn sáttmáli um lýðræðiskipulag okkar; sáttmáli í búningi stjórnarskrár sem verði þjóðinni hjartfólgin. Markmiðið má ekkert minna vera. Því verður í starfi Stjórnlagaráðs að tryggja að þjóðin fái sem víðtækasta aðkomu að málinu. Það er hún sem er hinn raunverulegi stjórnarskrárgjafi.

Snúa þarf að við blaðinu

Ónot eru í mörgum landsbúum yfir ásigkomulagi þjóðarinnar nú rúmum tveimur árum eftir hrunið mikla. Væntingar um breytt og bætt þjóðfélag í kjölfar hrunsins voru miklar. Öndvert við það sem gerst hefur víða annars staðar tók almenningur á sig verulega kjaraskerðingu nánast möglunarlaust, enda vissu allir að svokallað góðæri árin á undan hruninu var byggt á sandi. Vissulega hefur margt áunnist þessi tvö erfiðu ár. Tekist hefur að hemja afleiðingar hrunsins og atvinnuleysi varð ekki eins mikið og óttast var. En siðbótin hefur látið standa á sér. Enn er beðið eftir því að sannleikurinn um forkólfa hrunsins verði dreginn fram í dagsljósið fyrir dómstólum. Sumir þeirra sem gengu frjálslega um fjárhirslur bankanna eru aftur farnir að berast mikið á. Mörgum finnst verklag hjá stjórnvöldum og á Alþingi lítt hafa breyst til batnaðar. Svo mætti lengi telja.

Það er í þessu umhverfi sem Stjórnlagaþing hefst handa við að betrumbæta stjórnarskrána. Vonandi fagna flestir þessu skrefi, en svo eru öfl sem reyna að gera starfið tortryggilegt. Það verður því á brattann að sækja. Við sem höfum tekið verkefnið að okkur verðum að reynast trausts verð, við verðum að vinna þannig að sómi sé að og skila frá okkur lokaskjali sem hljóti hylli þjóðarinnar. Að þessu verðum við verðum við að einbeita okkur.

Endurspegla kjördæmi nærumhverfi okkar?

[Þessi pistill birtist í Fréttatímanum 25. mars 2011]

Í síðustu grein minni í Fréttatímanum færði ég siðferðileg rök fyrir því að kjósendur ættu að hafa jafnt atkvæðavægi, óháð búsetu, þegar kemur að því að kjósa til Alþingis. Því markmiði má ná með ýmsu fyrirkomulagi kosninga og kjördæmaskipunar. En um leið þarf að huga að fleiri sjónarmiðum, t.d. eftirfarandi og byrja ég þá á forsendunni sem áður greinir:

  1. Kjósendur hafi jafnt atkvæðavægi óháð búsetu.
  2. Jafnræði sé með stjórnmálasamtökum.
  3. Æskilegt er að þingmannsefni bjóði sig fram í nærumhverfi kjósenda.
  4. Kjósendur ráði vali á þingsmannsefnum a.m.k. innan þess flokks sem þeir styðja, jafnvel þvert á flokka.

Þessi upptalning er hvergi nærri tæmandi, en látum hér við sitja í svipinn. Ég hef þegar tekið af skarið með þá skoðun að frá fyrsta markmiðinu megi ekki víkja, enda fæ ég ekki séð að það þurfi að vera í mótsögn við neitt hinna markmiðanna.

Með öðru markmiðinu er átt við pólitískt jafnræði í þeim skilningi að þingflokkar fái rétta tölu þingmanna miðað við landsfylgi. Segja má að það hafi leynt eða ljóst verið markmið stjórnarskrárgjafans  a.m.k. allt frá kjördæmabreytingunni miklu 1959. En þetta pólitíska markmið kann að stangast á við fjórða markmiðið. Um það markmið ætla ég að ræða í síðari pistlum. Einblínum því nú á annað markmiðið og að hluta til það þriðja, en að því fyrsta sjálfgefnu.

Allir þingmenn verði landskjörnir

Annað markmiðið er í raun krafa um hlutfallskosningar í einhverri mynd; að þingsætin skiptist á milli flokka því sem næst í beinu hlutfalli við landsfylgi þeirra. Í grundvallaratriðum er þá aðeins ein tegund lausna: Uppskipting í kjördæmi, eitt eða fleiri, ásamt með nægilega mörgum jöfnunarsætum til að tryggja flokkajafnræði. Kjördæmaskiptingin verður að sjálfsögðu að vera slík að ekki halli á kjósendur eftir búsetu. Í ljósi þess hve búseta er misdreifð um landið skapar uppskipting í kjördæmi veruleg vandkvæði: Annað hvort verða kjördæmin með mjög mismarga kjósendur – og þar með mismarga þingmenn – eða brytja verður höfuðborgarsvæðið niður í mörg smá og tilviljunarkennd kjördæmi.

Nú eru jöfnunarsætin níu og mega ekki vera færri. Raunar er engin trygging fyrir því að sú tala dugi til að ná megi flokkajafnræði. Meinið við jöfnunarsætin, eins og þau hafa verið útfærð, er að þeim er troðið upp á kjördæmin. Þannig fá t.d. stuðningsmenn Framsóknarflokksins á Suðvesturlandi þingmenn að norðaustan, e.t.v. þvert á vilja sinn. Það er og verður flækjufótur að búa til kosningakerfi þar sem blandað er saman fylgi úr kjördæmum við landsfylgi. Til er stærðfræðileg sönnun á því að enginn aðferð er til í þeim efnum sem er í senn gallalaus og einföld.

Að mínum mati er leiðin út úr þessum ógögnum einföld: Hún er sú að sleppa kjördæmunum, hafa alla þingsmenn landskjörna. Meginrök mín eru einfaldlega þau að við erum ein smáþjóð í einu eylandi. Við eigum og verðum að gæta hagsmuna okkar allra í jöfnum mæli. Ekki síst er það hlutverk þingmanna. Hrepparígur og kjördæmapot hafa valdið okkur ómældum skaða.

… er í takt við þróunina

Landsbyggðamenn óttast að með einu kjördæmi, með meirihluta íbúa á höfuðborgarsvæðinu, verði hlutur þeirra fyrir borð borinn. Ég er sannfærður um að svo verður ekki en við þeirri hættu má líka sjá með ýmsu móti. Fyrirkomulag framboða má hafa þannig að frambjóðendur geti höfðað sérstaklega til einstakra landshluta. Þetta gera Danir að nokkru leyti, svo og Hollendingar sem hafa sitt fjölmenna en litla land eitt kjördæmi. Í reynd er þetta fyrirkomulag líka í Þýskalandi þótt útfærslan þar sé óþarflega flókin. Ég mun útlista þessa hugsun síðar í tengslum við persónukjör og þá víkja samtímis að þriðja og fjórða markmiðinu; hvernig persónukjör og nærumhverfishugsun geta farið saman.

Er ekki kjördæmi í landfræðilegum skilningi fyrirbæri frá fyrri öldum og á vart við á tímum greiðra samgangna og rafrænna samskipta? Þeir sem ég samsama mig mest við og vildi helst vera í „kjördæmi“ með, búa ekki endilega í næsta landfræðilega umhverfi mínu. Grannar mínir eru öllu frekar í mínu félagslega umhverfi jafnvel þótt það kunni að spanna allt landið.

Sumir segja eitt landskjördæmi nýstárlegt og ótímabært fyrirkomulag. Því fer fjarri. Þegar árið 1927 var málið reifað á Alþingi, etv. fyrr. Þá hefur þróunin verið í þessa átt allan lýðveldistímann. 1944 voru kjördæmin 28 að tölu og aðeins með 1,5 þingsæti að meðaltali hvert. 1959 var þeim fækkað í 8 og aftur í 6 um síðustu aldamót. Það sem meira er þá hefur landið verið pólitískt eins og eitt kjördæmi allt frá 1987. Því er einsýnt hvert stefnt hefur.

Sagt er að stjórnlagaþingskosningin hafi afskrifað hugmyndina um landskjördæmi og persónukjör sérstaklega. Þessu er jafnvel öfugt varið að mínu mati. Um það má lesa meira á vefsíðunni https://thorkellhelgason.is/?p=715.

Að lokum: Útfærsla kosninga og kjördæmaskipunar er að nokkru leyti stærðfræðilegt og tæknilegt mál, en má þó ekki ráðast af þeim mælistikum einum. Þar er í fleiri horn að líta.

Atkvæði fólks eða fjalla?

[Birtist í Fréttatímanum 11. mars 2011]

Eitt af mikilvægustu verkefnum stjórnlagaráðs, ef það kemst á laggirnar, verður að fjalla um kjördæmaskipan og kosningar til Alþingis. Það hefur verið hefð fyrir því að hafa slík ákvæði mjög ítarleg í stjórnarskrá Íslands. Svo er einnig hjá hinum norrænu ríkjunum. Allur gangur er þó á þessu. Í sumum grannríkjum okkar, t.d. Þýskalandi eða Hollandi, kveður stjórnarskrá aðeins á um að kosningar skuli vera leynilegar og lýðræðislegar. Hvort sem sagt verður meira eða minna um þetta í stjórnarskrá okkar er einsýnt að stjórnlagaráðið verður að hugsa málið til enda, þ.e. að kveða ekki aðeins á um stjórnarskrárákvæðin heldur gera líka drög að frv. til kosningalaga sem falli að nýjum stjórnarskrárákvæðum. Svo hefur verið gert þegar þessum ákvæðum hefur verið breytt í stjórnarskránni áður.

Grunnspurningarnar sem taka þarf afstöðu til eru þessar:

  • Á vægi atkvæða að vera jafnt, óháð búsetu?
  • Á landið að vera eitt kjördæmi?
  • Á að velja þingmenn að einhverju leyti með persónukjöri?

Þátttakendur í þjóðfundinum sem haldinn var s.l. haust svöruðu þessu almennt játandi. Fjallað mun um spurningarnar í þessum pistli og öðrum sem koma síðar. Byrjum á þeirri fyrstu.

Hvert er misvægið?

Þegar talað er um atkvæðamisvægi er oftast horft til tölu kjósenda að baki hverju þingsæti. Síðan er fundið hlutfall þessarar kjósendatölu í því kjördæmi sem talan er hæst og þess þar sem hún er lægst. Við getum nefnt þetta hlutfall misvægishlutfall.  Því aðeins að hlutfallið sé nálægt einum er hægt að tala um jafnt vægi atkvæða. Í síðustu kosningum til Alþingis var þetta hlutfall rétt rúmlega tveir. Samkvæmt ákvæðum gildandi stjórnarskrár mun eitt þingsæti færast við næstu kosningar og draga úr misvæginu. Misvægishlutfallið verður þá 1,8-1,9. Það er minna misvægi en elstu menn muna. Fyrir kjördæmabreytinguna 1987 var misvægishlutfallið iðulega 4-5. Misvægið minnkaði nokkuð við breytinguna þá en síðan seig aftur á ógæfuhliðina þar til bætt var úr skák á ný með stjórnarskrárbreytingu 1999. Að óbreyttu mun hlutfallið haldast áfram um eða rétt undir tveimur.

Á hitt er að líta að það hefur verið fullur pólitískur jöfnuður allt síðan 1987 í þeim skilningi að þingflokkarnir hafa hlotið rétta tölu þingmanna miðað við landsfylgi. Misvægi atkvæða hefur því fyrst og fremst birst í því að flokkarnir þurfa að taka við þingmannsefnum úr fámennum kjördæmum á kostnað þess að fá þá þaðan sem fylgið er meira. Verst hefur þetta bitnað á Framsóknarflokknum. Nefna má sem dæmi að hann fékk aðeins einn af 34 þingmönnum höfuðborgarkjördæmanna þriggja í kosningunum 2007 á sama tíma og hann fékk 3 þingmenn af 10 í Norðausturkjördæmi.

Hvers vegna að hafa misvægi?

Meginrökin sem færð eru fyrir misvægi atkvæða eru þau að landsbyggðarfólk hafi lakari aðgang að stjórnkerfinu en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Þetta eigi að bæta upp með fleiri þingmönnum.  Mannréttindi, þ.m.t. kosningaréttur, eiga að vera jöfn fyrir alla. Á aðstöðumun verður að taka með öðrum hætti. Ef réttlæta á misjafnan atkvæðarétt með ójafnri aðstöðu hlýtur að vakna sú spurning hvort þá eigi ekki að taka tillit til annarra þátta líka.  Hvað með að fatlaðir hefðu sérstakt atkvæðavægi eða að foreldrar fái aukið atkvæðavægi í umboði barna sinna? Þessa hugsun má leiða ad absurdum, á henni verður enginn endir.

Rökin um að aðkoma að valdinu fari þverrandi eftir fjarlægð frá höfuðborginni eru líka hæpin. Hvað skyldu íbúar í jaðarbyggðum höfuðborgarsvæðisins oft verða varir við þingmenn sína? Ef fjarlægðarrökin eiga að gilda þyrfti að útfæra þau í þaula. Eru einhver rök fyrir því að atkvæðavægi tvöfaldist við eitt að flytjast fimm kílómetra eða svo í gegnum Hvalfjarðargöngin? Þeir sem búa rétt norðan þeirra, örskammt frá höfuðborginni, hafa meira atkvæðavægi en aðrir, líka þeir sem búa fjærst henni, svo sem á Langanesi.

Sagt er að misvægi atkvæða sé ekki séríslenskt fyrirbæri. Það er rétt að hluta þótt á því sé allur gangur. Af grannríkjunum er Noregur það land sem líkist okkur helst í þessum efnum. Noregur er langur og mjór og höfuðstaðurinn því sem næst í jaðri annars endans. Ætla mætti að þá lægi beint við að mismuna eftir fjarlægð frá Osló. Svo er ekki gert heldur er miðað við fólk og fjöll sem mælikvarða. Þingsætum í Stórþinginu er skipt á milli kjördæma, fylkjanna, þannig að flatarmál mælt í ferkílómetrum er margfaldað með 1,8 og íbúatölunni bætt við. Sú vístala sem þannig fæst er notuð til að útdeila þingsætunum 169. Hvernig stuðullinn 1,8 er fenginn er hulinn ráðgáta. Þessar reiknikúnstir Norðmanna leiða til nokkurs misvægis en ekki í sama heildarmæli og hjá okkur. Til gamans má geta þess að væri Ísland eitt fylkja Noregs (sem sumum þætti ekki amalegt nú á þessum síðustu og verstu tímum!) og þingsætum bætt við handa okkur í Stórþinginu fengjum við 16 sæti af alls 185 eftir formúlunni, en ekki nema 11 af 180 ef íbúatalan ein yrði látin ráða.

Tíminn er kominn

Kosningaeftirlitsstofnun Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu kom með þá ábendingu eftir þingkosningarnar 2009 að „tími sé kominn til að íhuga lagaákvæði um skiptingu þingsæta í því skyni að tryggja jöfnuð milli kjósenda.“ Skýrar verður það ekki sagt.

Fræg er ummæli hins reynda bandaríska hæstaréttardómara Earl Warren um atkvæðajöfnuð: „Þingmenn eru fulltrúar fyrir fólk, ekki tré eða ekrur. Þingmenn eru valdir af kjósendum, hvorki af býlum né borgum né heldur af atvinnuhagsmunum.“

Í næsta pistli fjalla ég um skipan kjördæmamála.