Skálholtshátíð

[Birtist í Morgunblaðinu 19. júlí 2014.]

Eftir Eið Svanberg Guðnason, Hörð H. Bjarnason, Jón Hákon Magnússon, Ormar Þór Guðmundsson, Þorkel Helgason og Vilhjálm Bjarnason

clip_image002

Skálholtskirkja, — Morgunblaðið/Brynjar Gauti

“Kirkjan er klettur sem skal verða manninum leiðarljós. Á hana skal ekkert skyggja.”

Ísland er líklega eina landið í veröldinni þar sem kristni hefur verið frá upphafi byggðar. Ef til vill voru hér í landi írskir einsetumenn sem iðkuðu trú sína hér fyrir landnám og einnig voru nokkrir landnámsmenn kristnir. Svo var það árið 999 að leiðtogi heiðinna, Þorgeir lögsögumaður, úrskurðaði að einn siður skyldi vera lögtekinn, í þágu þjóðareiningar.

Fyrir kristnum mönnum á þessari örlagastundu fóru Gissur hvíti og Síðu-Hallur. Ísleifur sonur Gissurar hvíta varð biskup og settist að á ættararfleifð sinni í Skálholt. Skálholt varð strax menningarsetur og þar hófst skólahald. Meðal nemenda Ísleifs var Jón helgi Ögmundsson, Hólabiskup. Ávallt síðan hefur Skálholt verið athvarf kristni, menningar og lista.

Þó varð Skálholt um skeið fórnarlamb niðurlægingar vegna þeirra hallæra, sem urðu í kjölfar móðuharðinda. Biskupsstóll og skólahald lögðust af í Skálholti árið 1801 en biskupsstóll lagðist af á Hólum árið 1798. Þá var risin steinkirkja sú er enn stendur á Hólum en allt var hrunið í Skálholti.

Skálholt var ekki gleymt í huga þjóðarinnar. Árið 1948 var Skálholtsfélagið stofnað. Félagið hafði það að markmiði að endurreisa virðingu Skálholts í minningu guðskristni í landinu. 15 árum síðar var dómkirkjan sem nú stendur vígð. Kirkjan er sú tólfta á staðnum.

Vígsla kirkjunnar var ekki aðeins kirkjuvígsla, hún var tákn þess að Ísland var risið úr öskustó Móðuharðinda.

Kirkjan er nú friðuð sem eitt höfuðdjásn byggingalistar á tuttugustu öld. Um friðunina segir: „Í útfærslu sinni á Skálholtskirkju hafði Hörður [Bjarnason] hliðsjón af Brynjólfskirkju sem stóð í Skálholti frá 1650 til 1807, krosslöguð, með þverskipi og hliðarskipum. Hún er einstaklega glæsileg í sínum einfaldleika og látleysi.“

Til hliðar við kirkjuna stendur Skálholtsskóli sem einnig er friðaður. Um skólann segir í friðuninni: „Við hönnun Skálholtsskóla höfðu arkitektarnir [Manfreð Vilhjálmsson og Þorvaldur S. Þorvaldsson] fyrri tíða þorpsmynd í Skálholti í huga. Byggingunni er skipt upp í minni hús með tengigangi og til að árétta mikilvægi samræmis í byggingum í Skálholti var skólinn hafður í sömu litum og kirkjan.“

Í táknhyggju Skálholts er einfaldleikinn í fyrirrúmi. Vissulega verður sólarljósið margbreytilegt þegar það skín um glugga Gerðar Helgadóttur. Þannig er einnig um kristmynd Nínu Tryggvadóttur fyrir altari kirkjunnar. Myndin vekur hugrenningar hjá þeim er hennar njóta.

Í friðuninni segir um verk þeirra: „Að innan er kirkjan einnig látlaus og einföld og því njóta steindir gluggar Gerðar Helgadóttur sín afar vel. Í kirkjunni er mikið af listaverkum en ein helsta prýði hennar verður þó að teljast mósaíkmynd Nínu Tryggvadóttur sem er í kórnum.“

Þegar kirkjan var risin af grunni fóru þeir heiðursmenn sem höfðu veg og vanda af verkefninu, herra Sigurbjörn Einarsson biskup og Hörður Bjarnason húsameistari, til Skálholts. Biskup ámálgaði það við húsameistara að reistur skyldi garður umhverfis kirkjuna. Húsameistari taldi það af og frá, kirkjan stendur á hæð og umhverfis hana skal ekkert standa sem skyggir á hana. Kirkjan er klettur sem skal verða manninum leiðarljós. Á hana skal ekkert skyggja. Á þetta féllst biskup strax. Því hefur ekkert verið gróðursett umhverfis kirkjuna og allir legsteinar í kirkjugarðinum liggja við moldu.

Þannig hefur Skálholtskirkja öðlast virðingarsess í huga þjóðarinnar í einfaldleika sínum. Skálholtskirkja og Skálholtsskóli eru menningarsetur þar sem kristni, fræðimennska og tónlist eru í öndvegi.

En svo gerast ósköpin í einkaframkvæmd. Það er reist hús hornskakkt á kirkjuna. Húsið er án tilgangs, kallað tilgátuhús en án tilgátu. Kennt Þorláki án nokkurra tengsla við heilagan Þorlák. Um friðun bygginga í Skálholti segir: „Friðunin nær til innra og ytra byrðis Skálholtskirkju, ytra byrðis Skálholtsskóla auk nánasta umhverfis að undanskilinni yfirbyggingu yfir friðlýstar fornleifar Þorláksbúðar.“

Þorláksbúð hin nýja nýtur því ekki friðunar. Auk þess er hún illilega á skjön við byggingarstíl og yfirbragð þeirra bygginga sem eru friðaðar. Því er nauðsynlegt að húsið verði flutt og fundinn staður þar sem það spillir ekki heilsteyptu yfirbragði Skálholtsstaðar.

Gleðilega Skálholtshátíð.

Eiður er fv. stjórnmálamaður, Hörður er fv. sendiherra, Jón Hákon var framkvæmdastjóri, Ormar Þór er arkitekt, Þorkell er próf. emeritus, Vilhjálmur er alþingismaður.

[Jón Hákon andaðist deginum fyrir birtingu þessarar greinar.]

Forsmánin við Skálholtskirkju og fjóspúkarnir á bitanum

[Birtist í visir.is og í styttri gerð í Fréttablaðinu 15. júlí 2014.]

 

 

clip_image002

VINIR SKÁLHOLTS SKRIFA:

Í Fréttablaðinu 8. júlí sl. er hálfkveðin „frétt“ um svokallað Þorláksbúðarmál. Skýrt er frá því að kirkjuráð hafi ákveðið að „lána“ Þorláksbúðarfélaginu 10,3 milljónir kr. og gefa eina milljón að auki til að félagið geti gert upp skuld við smið byggingar þeirrar sem hefur verið reist yfir rúst svokallaðrar Þorláksbúðar. Smiðurinn er verður launa sinna eftir að hafa verið vélaður til verksins á sínum tíma.

Árni Johnsen, sem er eins konar forystusauður svonefnds Þorláksbúðarfélags, segir að félagið hafi verið í fjárþröng vegna þess að „fjóspúkar á bitanum“ hafi haldið uppi harðri gagnrýni á verkefnið. Ragnhildur Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri kirkjuráðs, tekur í sama streng og kennir gagnrýnendum um fjárskort félagsins. Þess vegna hafi kirkjuráð lánað félaginu og vonast hún nú til að þeir finnist sem leggja vilja fé af mörkum, en bætir við að seinna meir verði hægt að „leita til ríkisins“. Hve oft hefur ekki hið opinbera þurft að greiða óreiðuskuldir ævintýramanna. Nú á að bæta þar við.

Það er rétt að við undirritaðir, og margir aðrir, höfum barist gegn því að umrædd smíð rísi þétt upp við Skálholtskirkju og tökum því það til okkar að vera fjóspúkar í augum Árna. Hvað höfum við á móti framkvæmdinni?

  • Sögulegt gildi nýrrar Þorláksbúðar er ekkert. Engar heimildir eru fyrir því að tóftin tengist Þorláki biskupi. Nafngiftina Þorláksbúð er fyrst að finna á 16. öld, mörgum öldum eftir daga Þorláks og tilgátuhúsið, sem risið er ofan á tóftina, á sér enga sögulega fyrirmynd.
  • Með þeirri yfirbyggingu tóftarinnar er friðuðum fornleifum spillt, sem er óheimilt. Væri tóftin í raun nátengd heilögum Þorláki, eins og forkólfurinn Árni hefur einatt haldið fram, væri þetta enn alvarlegra mál.
  • Með smíðinni er grafarró raskað í gamla kirkjugarðinum, sem varðar við lög.
  • En ekki síst er yfirbygging Þorláksbúðar fádæm smekkleysa, þar sem hún er trónir þétt upp við kirkjuna, hornskakkt á hana. Hún er vanvirðing við þá sem stóðu að gerð Skálholtskirkju hinnar nýju og þyrnir í augum allra þeirra sem vilja reisn staðarins sem mesta.

Allt verklagið við þennan gerning er með ólíkindum. Göslast var áfram þvert á gildandi skipulag og áður en tilskilin leyfi voru fengin, svo sem byggingarleyfi. Margir þeir sem hefðu þurft að veita slík leyfi voru ekki spurðir, eða þá fyrst spurðir þegar þeir stóðu frammi fyrir orðnum hlut. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur líka lýst furðu sinni á verklaginu.

Allt á huldu

Allt er á huldu um hvað Þorláksbúðarfélagið er, hverjir að því standa, hvernig fjárreiður þess eru o.s.frv. Eitt er þó víst að það er rangt sem framkvæmdastjóri kirkjuráðs segir í umræddri frétt „að kirkjan hafi ekki áður lagt fé til Þorláksbúðar“. Í bréfi Ríkisendurskoðunar sem vitnað er til í skýrslu stjórnskipunar og eftirlitsnefndar Alþingis á 141. löggjafarþingi segir: „Í bréfi Ríkisendurskoðunar kom fram að Félag áhugafólks um uppbyggingu Þorláksbúðar fékk á árunum 2008–2011 úthlutað samtals 9,4 millj. kr. úr ríkissjóði og að auki 3 millj. kr. frá kirkjuráði“. Síðan kann meira að hafa komið til. Það er því ósatt að kirkjan hafi ekki þegar lagt fé í þessa framkvæmd Árna Johnsens í Skálholti. Þá er það deginum ljósara að það mun lenda á kirkjunni að standa undir viðhaldi og rekstrarkostnaði byggingarinnar. Það getur orðið dágóð upphæð.

Árni Johnsen „segist vona að málið sé allt komið í góðan farveg nú þegar kirkjan sé „með í dæminu“. Framkvæmdastjóri kirkjuráðs er sama sinnis og vonast til að „neikvæð umræða um verkefnið dofni“. Við, vinir Skálholts, getum lofað henni því að við munum halda áfram að gagnrýna óskundann í Skálholti og ekki linna látum fyrr en Þorláksbúðarbyggingin hefur verið fjarlægð. Vissulega verður róðurinn erfiðari nú þegar kirkjan er orðin samsek og hefur hagsmuna að gæta með tóftarfélaginu. Það sem haft er eftir framkvæmdastjóranum um þetta bendir frekar til að hún sé orðin fjölmiðlatengill Árna Johnsens fremur en þeirrar kirkju sem á að gæta að sóma Skálholts. Talar hún fyrir munn biskups Íslands?

Framkvæmdastjóri kirkjuráðs segir að flestir útlendingar sem koma í Skálholt skoði Þorláksbúð. Við undirritaðir erum oft í Skálholti og það er rétt að margir horfa á tóftarbygginguna, jafnvel líta þar inn. En er það til að dást að hinum „algjöra gullmola“, eins og Árni kallar smíðina, eða er það til furða sig á smekkleysu og molbúahætti Íslendinga? Við höfum ekki enn hitt þann útlending sem hefur dásamað fyrirbærið, en viðmælendur okkar hafa lýst mikilli undrun og spurt hvernig annað eins geti gerst á þessum sögulega og helga stað.

Það eitt er til ráða að fjarlægja bygginguna úr kirkjugarðinum og reyna að koma tóftinni í fyrra horf, hafi hún ekki þegar verið eyðilögð. Taka má undir með framkvæmdastjóranum títtnefnda að tréverkið er á sinn hátt „listasmíð“. Húsið mætti því endurreisa á Skálholtsstað þar sem það spillir ekki staðarmyndinni og gæti jafnvel nýst til einhverrar þjónustu við gesti og gangandi. Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar Íslands, hefur sagt að það sé „ekki vilji Minjastofnunar Íslands að húsið verði áfram þar sem það er nú“. Þetta verður ekki skilið öðru vísi en að stofnunin vilji húsið burt. Í viðbótarfrétt í Fréttablaðinu 9. júlí eru orð hennar þá og nú túlkuð á þennan veg. Aðspurð segir forstöðumaðurinn að vel sé hægt að flytja húsið. Árni Johnsen og framkvæmdastjóri kirkjuráðs segja, eins og við var búist, bæði tvö, að það sé „útilokað að færa Þorláksbúð“. Kristín Huld segir á hinn bóginn að húsið hafi einmitt verið reist þannig að flytja mætti það burt. Væntanlega hefur Árni kríað út leyfi með því lofa þessu, en nú heldur hann öðru fram.

Það kostar fé að færa bygginguna. Kirkjuráð hefur nú fundið rúmar tíu milljónir króna handa tóftarfélaginu, mitt í miklum harðindum Þjóðkirkjunnar. Þau lýsa sér m.a. í því að kirkjan hefur hætt öllum beinum fjárstuðningi við Sumartónleikana, það starf í Skálholti sem er staðnum einna mest til sóma, en þeir halda nú upp á fertugasta hátíðarsumarið. Milljónir kirkjuráðs verða afskrifaðar, hvað sem öllu líður. Væntanlega stendur það í kirkjunni að fórna meiru. Hverjir vilja ljá málinu lið og leggja fram þá tugi milljóna kr. sem þarf til að gera gott úr smíðinni og afmá þá hneisu sem Þorláksbúðarbyggingin er á núverandi stað?

Allt ferli Þorláksbúðarmálsins á að verða rannsóknarefni fyrir þar til bær yfirvöld, þó ekki væri nema til að koma í veg fyrir að hægt sé með frekju og yfirgangi að þjösnast áfram á kostnað almennings. Fyrir félagsvísindamenn getur málið líka verið áhugavert, hvort það sé einkenni kunningjasamfélagsins að menn komist upp með að brjóta lög og reglur.

Eiður Svanberg Guðnason, fv. stjórnmálamaður
Hörður H. Bjarnason, fv. sendiherra
Jón Hákon Magnússon, framkvæmdastjóri
Ormar Þór Guðmundsson, arkitekt
Þorkell Helgason, prófessor emeritus
Vilhjálmur Bjarnason, alþingismaður

Skemmdarverk á Skálholti

[Birtist í Morgunblaðinu 19. febrúar 2014.]

Kirkjuráð, sem virðist hafa náð öllum völdum innan þjóðkirkjunnar, hefur ákveðið að leigja veitinga- og gistiþjónustu í Skálholti undir hótelrekstur. Áformum um að slá líka vígslubiskup af virðist þó hafa verið frestað.
Hvað gengur mönnum til? Sagt er að rétta þurfi fjárhag staðarins við. Núverandi vígslubiskup er þegar búinn að því. Hann tók að vísu við allmiklum skuldum en þær verða seint greiddar af staðnum einum. Vissulega hefur fjárhagur þjóðkirkjunnar versnað eftir hrun og taka þarf á því máli. Í þeim efnum er margt sem grípa má til sem veldur ekki þjóðarskaða eins og niðurrif í Skálholti.
Benda má að enn tíðkast það að prestar hirði arð af kirkjujörðum. Ekki þeir sem mestan hafa starfann og ættu e.t.v. launauppbót skilda. Nei, það eru einkum prestar í fámennum prestaköllum sem hafa ómældan arð af laxveiðileyfum, æðarvarpi eða leigutekjum svo að dæmi séu tekin. Þetta er arfleifð frá 19. öld, nokkuð sem löngu er búið að leggja af hjá embættismönnum ríkisins, en kirkjan er hér fórnarlamb harðrar hagsmunagæslu. Þá er engin goðgá að sameina minnstu prestaköllin. Nú er það svo að „sálusorgunarmisvægi‘“ er 1:20 þar sem tala sóknarbarna hvers prests er á bilinu frá 300 til 6000. Margir telja nauðsynlegt að jafna atkvæðisrétt til þingkosninga eftir búsetu en þar er þó misvægið aðeins 1:2. Leigutekjur af Skálholti yrðu vart meiri en það sem sparast gæti við samruna tveggja prestakalla.
Skálholt er ekki bara einhver kirkjustaður. Skálholt var og er miðstöð mennta, menningar og sögu og ekki aðeins fyrir þjóðkirkjufólk heldur þjóðina alla. Ríkisvaldið hefur sýnt það í verki með því að færa þjóðkirkjunni Skálholtsstað og kosta byggingu skólans að verulegu leyti og rekstur hans um hríð. Ráðherra sagði við afhendingu staðarins að þar ætti að starfrækja það sem „sæmdi staðnum“. Og enn eru í gildi lög um Skálholtsskóla. Hefur kirkjan lagalegan rétt til að leigja staðinn, þjóðargjöfina, einkaaðilum? Alla vega ekki siðferðilegan.
Sumir kunna að segja að varla skaði það kirkju- og menningarstarf á Skálholtsstað að þar sé rekin hótelstarfsemi. Það fer allt eftir því hvernig og hvar á staðnum. Vissulega gæti það orðið staðnum upplyfting að meira líf verði í næsta nágrenni, jafnvel hótel. En ekki á hlaðinu við kirkjuna. Skólinn og kirkjan heyra saman og gera hið andlega starf mögulegt. Vart myndi söfnuður leigja burt safnaðarheimili sitt undir fjarskylda starfsemi. Skálholtsskóli er safnaðarheimili við þjóðarkirkju.
Eitt af því sem vel hefur heppnast og haldið nafni Skálholts á lofti eru Sumartónleikar í Skálholtskirkju sem munu fagna fertugasta sumri sínu í ár með glæsilegri dagskrá, og það þrátt fyrir að þjóðkirkjan – að undirlagi kirkjuráðs – sé steinhætt að styrkja starfsemina. Í þetta sinn hefur fengist fé úr norrænum sjóðum til að hafa veglegt norrænt ívaf, enda eru Sumartónleikarnir elsta starfandi barokkhátíð á Norðurlöndum. En að loknu komandi sumri er allt eins víst að hátíðinni verði beint eða óbeint úthýst, hvort sem er af kirkjuráði eða hótelhaldara.
Hvað með virðingu fyrir þeim sem hafa lagt sig fram um heill Skálholts: Sigurbjörn Einarsson biskup, Hörð Bjarnason húsameistara, Bjarna Benediktsson þáverandi kirkjumálaráðherra, Þórarin Þórarinsson lýðháskólafrömuð, Heimi Steinsson fyrsta rektor Skálholtsskóla, Harald Hope prest í Noregi auk fjölda annarra gefenda á Norðurlöndum; eða þá tónlistarmenn sem hafa tekið ástfóstri við Skálholt og kirkjuna með sínum fagra hljómburði? Nefna má Róbert Abraham Ottósson sem stóð fyrir tónmennt í Skálholti í áratugi, Helgu Ingólfsdóttur semballeikara sem stofnaði Sumartónleikana og varði starfsævi sinni í þeirra þágu eða Manúelu Wiesler flautuleikara sem fyllti kirkjuna töfratónum sumar eftir sumar. Allt þetta fólk er látið en einum núlifandi skal bætt í þessa upptalningu: Jaap Schröder heimsfrægum fiðluleikara sem hefur í tvo áratugi leikið og stjórnað á Sumartónleikunum og síðan gefið staðnum umfangsmikið og verðmætt nótnabókasafn sitt.
Hver ber ábyrgð á því skemmdarverki sem nú vofir yfir Skálholti? Er ekki biskup Íslands forseti kirkjuráðs? Er hún sammála? Varla. Er biskup undir ægivaldi sjálfskipaðra æðstupresta? Hverjir eru þessir vandræðamenn? Nýta þeir sér að biskup er nú kona sem vill öllum vel? Hvernig væri þá að kvenprestar, sem brátt komast í meirihluta, styðji stöllu sína og standi gegn karlrembunum?
Það er þungbært að tala um skemmdarverk, en í ljósi þess sem ég hef orðið áskynja er það því miður lýsing á því sem er að gerast í Skálholti. Og þó hef ég í þessari grein ekki fjallað um annað hneyksli, yfirbyggingu yfir svokallaða Þorláksbúð sem verður tafarlaust að fjarlægja.
Skálholt á sinn stað í hjarta þjóðarinnar, rétt eins og Þingvellir. Það má aldrei líðast að fámenn klíka innan kirkjunnar stofni framtíð þessa helgistaðar í voða.
Höfundur er velunnari Skálholts.

Hrindum atlögunni að Skálholti !

[Birtist í Morgunblaðinu 19. nóvember 2013]

Þorkell Helgason:

Uppbygging

Skálholt var í raun höfuðstaður landsins um aldir. Síðan hallaði undan fæti og um miðja síðustu öld var þar orðið lítt meira en stekkur. En þá spratt upp hreyfing um endurreisn staðarins en fyrir henni stóð einn mesti kirkjuhöfðingi seinustu aldar, sr. Sigurbjörn Einarsson biskup. Allt gekk undravel. Vinir staðarins nær og fjær, ekki síst annars staðar á Norðurlöndunum, gáfu fé og önnur verðmæti sem dugðu til að reisa þá göfugu höfuðkirkju sem þar stendur, verk Harðar Bjarnasonar húsameistara og hans manna, skreytt ómetanlegum listaverkum þeirra Nínu Tryggvadóttur og Gerðar Helgadóttur. Við vígsluna fyrir fimmtíu árum færði þáverandi kirkjumálaráðherra, Bjarni Benediktsson, þjóðkirkjunni jörðina Skálholt að gjöf og með vilyrði um viðvarandi heimanmund.

Sumarið 1975 hófst það menningarstarf í Skálholti sem alþjóð þekkir, Sumartónleikar í Skálholtskirkju. Helga Ingólfsdóttir, sem þá var nýkomin frá námi í semballeik, fyrst Íslendinga, og um leið brautryðjandi í túlkun barokktónlistar, hreifst af Skálholti og skynjaði hvílíkt undur hljómburður í Skálholtskirkju er fyrir þá tónlist sem hana langaði að koma á framfæri. Fjölmargir komu til liðs, svo sem Manúela Wiesler sem töfraði alla með flautuleik sínum. Margir heimsfrægir tónlistarmenn urðu þátttakendur, jafnvel þótt þeir eins og aðrir fengju litla sem enga umbun fyrir. Brautryðjandi í endurvakningu barokktónlistar, Hollendingurinn Jaap Schröder, hefur tekið ástfóstri við Skálholt og komið á hverju sumri í tvo áratugi. Ekki nóg með það heldur hefur hann gefið geysiverðmætt nótna- og bókasafn sitt til staðarins.

En Sumartónleikarnir voru og eru ekki aðeins smiðja barokktónlistar, og þar með tónlistar Jóhanns Sebastíans Bachs, heldur markaði Helga strax í upphafi þá stefnu að Sumartónleikarnir ættu að vera miðstöð nýrrar tónlistar. Tónskáld voru fengin til að semja, ekki einhverja tónlist heldur þá sem hæfði staðnum og helgi kirkjunnar. Tónskáldin hlýddu þessu kalli, bæði þau sem þekkt voru en ekki síður ungskáldin sem náðu mörg að hasla sér völl í gegnum Sumartónleikana. Tónverkin, stór og smá, sem frumflutt hafa verið á Sumartónleikum í Skálholtskirkju skipta hundruðum. Sum þeirra hafa orðið að þjóðargersemum, eins og Óttusöngur að vori eftir Jón Nordal við texta Matthíasar Johannessen; verk sem var endurflutt á kristnitökuhátíðinni á Þingvöllum aldamótaárið síðasta.

Sumartónleikar í Skálholtskirkju undir listrænni stjórn Sigurðar Halldórssonar sellóleikara stefna nú á fertugasta sumarið í starfsemi sinni. Þessi alþjóðlega tónlistarhátíð er elsta starfandi barokktónlistarhátíð á Norðurlöndum. Af þeim sökum er ráðgerð mikil norræn hátíð á komandi sumri, á fertugsafmæli hátíðarinnar.

Niðurrif

En nú stefnir í að öll þessi uppbygging og starf í Skálholti verði lagt í rúst og það strax á komandi ári. Kirkjuráð, sem virðist búið að taka öll völd innan Þjóðkirkjunnar, ætlar að leigja allan staðinn út undir ferðamennsku. Þetta kom fram á kirkjuþingi því sem haldið er þessa dagana. Hvorki vígslubiskupinn í Skálholti né aðrir heimamenn hafa verið spurðir álits á þessari ákvörðun æðsta ráðsins. Þeir sem vilja koma til starfa á staðnum mega þá þóknanlegast borga hótelprísa fyrir allan beina og það ekki af lægra taginu, því að þetta á að verða mikill bisness sem skili fúlgum fjár. Sumartónleikarnir munu þá leggjast af. Kirkjuráð hefur smám saman verið að skera niður fjárframlag til Sumartónleikanna og var ekkert beint framlag á seinasta sumri. En nú á að úthýsa þeim alveg.

Vígslubiskupa á að leggja niður í núverandi mynd. Þetta kemur fram í frumvarpi til nýrra þjóðkirkjulaga sem liggur fyrir kirkjuþingi sem situr þegar þetta er ritað. Greinargerð með frumvarpinu tekur af allan vafa um þessa ætlan. En ekki aðeins það. Heldur stendur nú til að gera sjálfan biskup Íslands að „undirkontórista“, ekki í kirkjumálaráðuneytinu eins og segir í Kristnihaldi Kiljans, heldur hjá kirkjuráði eða kirkjuþingi. Þetta jaðrar við að biskupi sé steypt af stóli. Alþingi Íslendinga verður að hafna þessu ákvæði frumvarpsins.

Rekstur Skálholtsstaðar mun hafa verið í ólestri og skuldir höfðu safnast upp. En núverandi vígslubiskup, sr. Kristján Valur Ingólfsson, hefur náð að snúa þeirri þróun við. Það þarf því ekki að braska með Skálholt til að bæta fjárhag staðarins. Hver hefur gefið þessu Kirkjuráði heimild til að setja Skálholt undir Mammon? Samræmist það skilmálum gjafar ríkisins? Stjórnvöld verða að svara því. Er þá ótalin sú vanvirða sem öllum þeim er sýnd sem hafa lagt líf sitt og sál til endurreisnar Skálholts.

Mala domestica maiora sunt lacrimis varð Brynjólfi Skálholtsbiskup að orði um harmasögu sína og sinna. Nú dugar ekki harmagrátur heldur verður að skera upp herör gegn atlögunni að Skálholti, einum þeirra höfuðstaða sem geyma okkar þjóðarsál að fornu og nýju. Það á enginn að geta ráðskast með Skálholt með þessum hætti, ekki frekar en Þingvelli. Skálholt er þjóðareign – eins og Þingvellir.

Höfundur er ekkill eftir Helgu Ingólfsdóttur

Grafarþögn um Þorláksbúð

 [Þessi grein, sem birtist í Morgunblaðinu 9. nóvember 2013, eru eftir  Eið Svanberg Guðnason, Hörð H. Bjarnason, Jón Hákon Magnússon, Vilhjálm Bjarnason og Þorkel Helgason.]

Eins og kunnugt er hefur bygging verið reist ofan á svokallaðri Þorláksbúð, skáhallt á hina formfögru Skálholtskirkju. Þessi yfirbygging er ranglega sögð tilgátuhús, en Þorláksbúð hefur engin söguleg tengsl við Þorlák biskup helga. Þetta er skemmd á allri ásýnd Skálholtsstaðar og vanvirða við þá sem stóðu að gerð þeirrar kirkju, sem átti hálfrar aldar vígsluafmæli á liðnu sumri. Fram hefur komið í umræðunni að kofinn við kirkjuvegginn er byggður á ósannindum og rangfærslum. Þjóðkirkjan íslenska má ekki una því. Þögn hefur ríkt um málið að undanförnu. Mörgum spurningum er enn ósvarað.

Við bygginguna ofan á Þorláksbúð hafa lög og reglugerðir ítrekað verið brotin.

1. Hvers vegna leyfði Minjastofnun Íslands að grafarró væri raskað í kirkjugarðinum í Skálholti? Tilgátuhúsið er byggt ofan á grafir frá fyrri tímum. Forstöðumaður Minjastofnunar Íslands hefur aldrei svarað hvers vegna hún leyfði þessa fordæmalausu framkvæmd.

2. Hvers vegna leyfði Minjastofnun Íslands að byggt væri ofan á friðlýstar fornminjar við vegg dómkirkjunnar í Skálholti og þeim raskað? Forstöðumaður Minjastofnunar Íslands hefur aldrei svarað því.

3. Byggingarleyfi Bláskógabyggðar fyrir torfkofanum sem nú er risinn var gefið út þegar framkvæmdum var nánast lokið. Hvernig stóð á því?

4. Fjárveitingar komu til verksins úr ríkissjóði. Samtals 9,4 milljónir á árunum 2008 til 2011. Aldrei hefur verið gerð grein fyrir því hvernig þeim fjármunum úr vösum almennings var ráðstafað. Bað Alþingi aldrei um endurskoðaða ársreikninga? Hversvegna hefur Ríkisendurskoðun ekki gengið eftir svörum um það hvernig þessum fjármunum var varið?

5. Hefur kirkjuráð gert grein fyrir því hvernig fjármunum kirkjunnar sem runnu til byggingar Þorláksbúðar var varið? Það voru 3 milljónir króna á árunum 2008 til 2011. Hefur kirkjuráð óskað eftir uppgjöri eða endurskoðuðum ársreikningum fyrir árin 2011 og 2012?

6. Hve mikið fé hefur runnið samtals til Þorláksbúðarfélagsins frá Alþingi og frá Kirkjuráði fyrir og eftir 2012?

7. Í bréfi Ríkisendurskoðunar til forseta Alþingis 28. júní 2012 kom fram að Þorláksbúðarfélag ætti von á reikningum „upp á nokkrar milljónir“ vegna þegar unninna verka. Hefur Ríkisendurskoðun fylgt því máli eftir?

8. Hefur sá sem byggði húsið fengið greitt fyrir sína vinnu og efnisframlag?

9. Í skýrslu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis (141. löggjafarþing, 2013) segir orðrétt: „Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hvetur Ríkisendurskoðun til að ljúka því verki að upplýsa um hvernig skattfé sem runnið hefur til þessa verkefnis hefur verið varið. Nefndin telur það ekki varpa ljósi á ráðstöfun fjárins að nokkrar milljónir króna séu útistandandi og að óvissa ríki um fjárhagsstöðu félagsins eins og fram kom í bréfi Ríkisendurskoðunar, dags. 28. júní 2012. Telur nefndin að í því efni skipti engu þó að byggingin verði ekki afhent Skálholtsstað fyrr en skuldir hennar hafa verið gerðar upp. Nefndin hvetur Ríkisendurskoðun til að ráðast í þetta verkefni hið fyrsta.“ Hvað hefur Ríkisendurskoðun gert í þessu máli? Hefur Ríkisendurskoðun sinnt þessum tilmælum Alþingis? Af hverju þessi þögn?

Ríkisendurskoðun, Minjastofnun Íslands og kirkjuráð þurfa að rjúfa þögnina sem ríkt hefur um þetta mál áður en það verður enn óþægilegra fyrir biskup Íslands og íslensku þjóðkirkjuna. Þjóðin á rétt á því að vita hvernig fé úr opinberum sjóðum er ráðstafað. Yfir því á ekki að vera neinn leyndarhjúpur.

Ekki er nóg að svör fáist við þessum spurningum, heldur verður að bæta fyrir þessi staðarspjöll með því að finna hinu meinta tilgátuhúsi annan stað.

Höfundar eru áhugamenn um velferð Skálholtsstaðar. 

Hvert stefnir í Skálholti?

[Birtist í Fréttablaðinu 23. nóv. 2011, en án myndarinnar.]

Skálholt var höfuðstaður í þjóðlífinu um aldir, ekki aðeins í andlegum efnum heldur einnig veraldlegum. Alkunna er hver urðu örlög staðarins, niðurníðsla af náttúrunnar- og mannavöldum. Fyrir tilstilli mætra manna hefur staðurinn verið endurvakinn. Skálholtskirkja reis fyrir hálfri öld, fögur og tilkomumikil þar sem hún gnæfir yfir umhverfið. Jafnframt hafa verið reist í Skálholti húsakynni sem gert hafa ýmsa menningarstarfsemi mögulega. En hús, jafnvel kirkjur, þarf að glæða lífi. Það hefur vissulega verið gert. Auk kirkjuhaldsins sjálfs hefur tónlistarstarf ekki síst varpað ljóma á staðinn enda býður Skálholtskirkja upp á einna bestan hljómburð hér á landi fyrir þá tónlist sem hæfir guðshúsi. Sumartónleikar í Skálholtskirkju hafa verið haldnir í nær fjóra áratugi og er hátíðin ein elsta og umfangsmesta tónlistarstarfsemi á landinu, smiðja nýrrar tónlistar en líka miðstöð í túlkun á tónlist fyrri alda. Menningarsetrið Skálholtsskóli hefur einnig í sívaxandi mæli haslað sér völl sem vettvangur andlegra starfsemi jafnframt því að láta til sín taka í þjóðmálaumræðunni.

Hvert stefnir nú? Kirkjan sem og margar aðrar stofnanir þjóðfélagsins þurfa að draga saman seglin eftir óáran af mannavöldum. Öllum starfsmönnum Skálholtsskóla hefur verið sagt upp. Framtíð Sumartónleikanna er í óvissu. En á sama tíma er brambolt í gangi til að reisa hús utan í kirkjunni sjálfri og það sagt vera til að endurreisa rúst Þorláksbúðar, sem lítið er þó vitað um. Undirritaður skrifaði um þessa ósvinnu grein í Morgunblaðið 25. ágúst s.l. undir heitinu Búngaló að rísa hornskakkt á Skálholtskirkju og vitnaði þar í hliðstæða „höfuðósmíð fyrir vestan“ sem kemur við sögu í Kristnihaldi undir jökli. Síðan hafa margir tjáð sig um fyrirbærið og gripið hefur verið til skyndifriðunar til að stöðva verknaðinn. Henni þarf að fylgja eftir og tryggja að menningarslys verði ekki á staðnum. Kirkjuráð þarf að sjá sig um hönd og stöðva framkvæmdir endanlega.

Sumir telja það lausn á deilunni um Þorláksbúð að færa bygginguna. Hvað með stofn- og rekstarkostnað? Sagt er að fé komi úr vösum svokallaðra áhugamanna um verkefnið en trúlegra er að reikningurinn verði sendur á kirkjuna og ríkissjóð. Að mörgu leiti var rekið smiðshögg á hina veraldlegu uppbyggingu í Skálholti í tíð Sigurðar vígslubiskups Sigurðarsonar heitins. Skólahúsið var  stækkað, reistur sýningarskáli og aðkoma að staðnum stórbætt. Nú er ekki brýnast að festa meira fé í byggingum, allra síst tilgangslítið tildurhús, á sama tíma og sjálft lífið á staðnum, helgihald, menningarstarfsemi og tónlist, á í vök að verjast. Þeir sem ráða yfir Skálholti eiga að beina kröftum sínum að vörslu þess sem er og hefur sannað gildi sitt.

Í Hinu ljósa mani Halldórs Laxnes segir: „Þennan haustdag var alt kyrt í Skálholti, og einginn vissi að neitt hefði gerst, en byrjað að frjósa, og þar með dregið úr fnykri þeim af sorpi og svaði sem einkendi staðinn.“ Betur væri að allt væri kyrrt í Skálholti og enginn fnykur af fjárskorti og smekklausum framkvæmdum.

Þorkell Helgason, stærðfræðingur er áhugamaður um málefni Skálholts.

[Vona að höfundur myndarinnar, sem ég veit ekki hver er, afsaki að ég hef tekið hana traustataki.]

Búngaló að rísa hornskakkt á Skálholtskirkju

Mynd af Skálholtskirkju og Þorláksbúðum

Myndina af Skálholtskirkju tók Eiður Guðnason 12. ágúst 2011. Norðaustan við kirkjuna sést upphleðsla sú sem þegar er komin ofan á tóft Þorláksbúðar. Innfelda myndin sýnir hýsið sem stendur til að rísi þarna á kirkjuhólnum og kynnt er á spjaldi sem grillir í norðan við tóftina.

[Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 25. ágúst 2011]

Í Kristnihaldi undir Jökli hefur Umbi eftir biskupi „að risin væri höfuðósmíð fyrir vestan“ en þar er sú kirkja sem séra Jón Prímus telst þjóna. Umbi staðfestir þetta: „Það er eitt fyrir sig að ekki hafa þeir getað látið þetta ferlíki standa samhliða kirkjunni, heldur hornskakt á hana. Annaðhvort höfðu þeir sem reistu ekki tekið eftir að þarna var kirkja, ellegar vildu troða kirkjunni um tær.“

Slík „höfuðósmíð“ er að rísa norðan við Skálholtskirkju, hornskakkt á kirkjuna. Kannski er það ekki „ferlíki“ en treður Skálholtskirkju vissulega um tær. Sagt er að verið sé að endurreisa „fornar rústir“ Þorláksbúðar, tóftar sem enginn veit mikil deili á. Tóftin má vera í friði, en að fara að búa þar til gervifornminjar er „til merkis um … inkongrúens, … í því fólginn að vera ójafn að stærð og lögun við alla hluti í kríngum sig“ eins og Umbi skráir um „skrauthýsi sem próf. dr. Godman Sýngmann hefur látið reisa hornskakt á kirkjuna (fylgir mynd).“ Lesendur Kristnihaldsins fá ekki að sjá myndina sem Umbi tók fyrir vestan, en meðfylgjandi mynd varpar ljósi á ósmíðina í Skálholti.

Hver ber ábyrgð?
Margt er á huldu um það hverjir beri ábyrgð á þessum verknaði.

Í fundargerð kirkjuráðs 15. apríl 2010 segir að félag áhugafólks hafi „í hyggju að byggja upp búð með grjóthleðslu og timbri á rúst hinnar gömlu Þorláksbúðar.“ Hinn 15. desember sama ár veitir kirkjuráð 1,5 m.kr. á ári í þrjú ár til verkefnisins, en fram kemur að kostnaðaráætlun sé upp á 38 m.kr. Gögn voru ekki fullnægjandi og ráðið „heimilar ekki frekari verklegar framkvæmdir við Þorláksbúð í Skálholti uns framangreind gögn liggja fyrir og hafa fengið staðfestingu og samþykki kirkjuráðs.“ Bersýnilegt er á þessu að framkvæmdir eru þá hafnar án allra leyfa, sbr. það sem síðar segir. Næsta bókun kirkjuráðs finnst 2. mars 2011. Þar kemur fram að bókunin frá 15. desember hafi verið kynnt fyrirsvarsmanni Þorláksbúðarfélagsins, Árna Johnsen. Mánuði síðar, 6. apríl, virðist umræddur fyrirsvarsmaður hafa náð sínu fram, en þá samþykkir kirkjuráð að sækja um leyfi til framkvæmdarinnar.

Hinn 20. apríl 2010 er málið tekið fyrir í skipulags- og byggingarnefnd svæðisins þar sem málaleitan um „uppbygging[u] á Þorláksbúð“ er samþykkt með skilyrðum. Fram kemur að mannvirkið sé 90,1 m2 eða 244,7 m3. Byggingarfulltrúi frestar afgreiðslu málsins á fundi 28. apríl „vegna ófullnægjandi gagna“. Leit á vef byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu gefur engar frekari vísbendingar. Hefur byggingarleyfi verið veitt? Engu að síður „heimilar kirkjuráð að framkvæmdir við húsið haldi áfram í Skálholti“ eins og fram kemur í bókun ráðsins 6. apríl 2011.

Arkitekt Skálholtsskóla, Manfreð Vilhjálmsson, hefur aldrei verið spurður um framkvæmdirnar, né heldur Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt staðarins sem hefur séð um skipulagsmál þar. Garðar Halldórsson, síðasti húsameistari ríkisins, kannast heldur ekkert við málið en hann fer með umsjá yfir arfleifð þess sem teiknaði kirkjuna, Harðar Bjarnasonar húsameistara. Á túninu umhverfis kirkjuna hefur til skamms tíma ekkert risið upp fyrir grassvörðinn annað en lágreist leiði. Hörður Bjarnason vildi bersýnilega að kirkjan fengi að standa ein og óáreitt fyrir öðrum mannvirkjum.

Hver er Godman Sýngmann ?
Hugsanlega var það Byron lávarður sem fyrstur benti á að sannleikurinn sé einatt undarlegri en nokkur skáldskapur. Það er eins og Halldór Laxness hafi séð firringuna í Skálholti fyrir sér, en úr yfirheyrslu Umba yfir séra Jóni Prímusi má lesa: „Umbi: Hvað viljið þér segja um þessa annarlegu húsasmíði hér á staðnum? Séra Jón: Þeir geta lagt á stað með þetta stykki fyrir mér hvenær sem þeir vilja, hvert á land sem er. Ég lít á það sem tjald. Umbi: Má bóka að þetta mannvirki hafi verið reist án leyfis prestsins og megi kirkjuyfirvöldin flytja það af staðnum þegar þau vilji? Séra Jón: Þér bókið það sem yður sýnist.“

„Upptimbranir af þessu tagi eru ytra kallaðar búngalóar, hvaða túnga sem það kann að vera og hvað sem það kann að merkja. Venjulega á orð þetta við lágreist sveitahús einsog ríkir menn hvítir í nýlendum hafa smíðað sér til að herma eftir húsagerð innborinna“. Þetta færði Umbi í skýrslu sína til biskups. Slíkan búngaló er nú verið að reisa utan í Skálholtskirkju.

Smekkleysuna í Skálholti verður að stöðva tafarlaust og færa tóftina til fyrra horfs; „megi kirkjuyfirvöldin flytja það af staðnum“ eins og Halldór Laxness lætur Umba bóka. Godman Sýngmann á ekkert erindi í Skálholt.

Þorkell Helgason, stærðfræðingur, áhugamaður um málefni Skálholts.