Kom – söng – og sigraði: Agnes Thorsteins sem Senta í Rínarlandi
„Alles Senta!“
Þannig var yfirskriftin á gagnrýni í Westdeutsche Zeitung um frumsýningu nýrrar uppfærslu á Hollendingnum fljúgandi 21. jan. 2024 í borgarleikhúsinu í Krefeld í Þýskalandi. Og strax í upphafi segir:
„Senta er allt! – vildi maður hrópa í sæluvímu eftir frumsýninguna í Krefeld á [óperu] Wagners, „Hollendingnum fljúgandi“. Ekki síst vegna vel heppnaðar frumraunar hinnar íslensku dramatísku sópransöngkonu Agnesar Thorsteins í þessu hlutverki (en var áður messó) og gildir það jafnt um söng sem og leikræna tjáningu. Við bætist að sviðsetningin beindist öll að þessari persónu [Sentu].“
Síðar undir millifyrirsögninni „Sópransöngkonunni Agnes Thorsteins ákaft fagnað í frumraun sinni með Sentu“: „Þessi sviðsetning er ekki aðeins mikill sigur vegna þess hvernig hlutverk Sentu er mótað. Heldur líka þar sem sú sem raungerði hlutverkið, gestaeinsöngvarinn Agnes Thorsteins, kynnti sig sem mikið Wagner-talent. Rödd hennar býr yfir miklum möguleikum sem hún nýtti sér á hinn fegursta máta. Röddin er skýr, hrein og umfram allt óþvinguð í hæðunum. Jafnframt skilaði textinn sér vel. Þá hefur hún ósvikna tilfinningu fyrir tónmáli Wagners. Kryddað var þetta með bullandi leikgleði og nærveru.“ Gagnrýnandinn heldur áfram og segir að þurfi ekki lítið til að ná að geisla yfir sjálfan Johannes Schwärsky, þann sem söng Hollendinginn.
Áheyrendur ærðust
Annað blað, Rheinische Post, sparaði heldur ekki hrósið. Fyrirsögn gagnrýninnar var „Þvílík fagnaðarlæti heyrast sjaldan. Áheyrendur ærðust á frumsýningu „Hollendingsins“.“ Eftir að gagnrýnandinn hefur lýst því hvernig sýningin snúist um Sentu segir hann: „Frábær frumraun Agnesar Thorsteins. Hún varpar skýru ljósi á baráttuvilja og geðshræringu [Sentu]. Hæstu tónar eru fylltir glæsileika og krafti. Ballaðan hennar [þar sem Agnes flytur spunakonunum goðsögnina um Hollendinginn] er gimsteinn í leiftrandi hljómkrónu.“
Fimm af fimm stjörnum
Vefsíðan Der Opernfreund (Óperuvinurinn) segir að það sé aldeilis þess virði að leggja leið sína til Krefeld, og það þótt um langan veg kunni að vera. Það hafi einróma fagnaðarlæti frumsýningargesta sannað. Síðan rekur hann sýninguna með fjálglegum orðum. Um Agnesi segir að hún hafi sungið stórkostlega (grandios). „Nafn hennar eigum við oft eftir að heyra.“ Til samans segir hann að einsöngvararnir hafi verið þvílíkir að genginu í heild gefi hann fimm stjörnur af fimm mögulegum.
Þannig eru þeir allir
Uppsetningin var um margt sérstæð og áhugaverð. Strax undir forleiknum mátti sjá í bakgrunni hvar Senta, sem barn, var kúguð af föður sínum en leitaði skjóls í dagdraumum um sæfara og seglskip.
Meginþemað var uppgjör Sentu við karlremburnar í lífi hennar, föðurinn, vonbiðilinn Eirík – en líka við sjálfan Hollendinginn fljúgandi. Í stað þess að kasta sér í sjóinn (nú eða skjóta sig eins og var í annarri sýningu sem ég sá nýlega) til að sanna tryggð sína við Hollendinginn, gaf hún honum langt nef og strunsaði burt. Senta hefði getað snúið við heiti Mozartóperunnar og hrópað „Cosi fan tutti“ (Þannig eru þeir allir), en Wagner hefði ekki verið skemmt að heyra Ítölsku í sínu verki!
Krefeld og Mönchengladbach, tvær meðalstórar borgir nærri Rín í grennd við fylkishöfuðborgina Düsseldorf, reka saman menningarstofnanir svo sem óperu.
Þessi uppsetning var í fyrra sýnd í Mönchengladbach, en nú í Krefeld, að mestu með sömu söngvurum en með nýrri Sentu. Leikhússtjórinn í Krefeld bar sig sérstaklega eftir að fá Agnesi í hlutverkið – og var aldeilis ekki svikinn.
Dágóður hópur vina og vandamanna Agnesar, frá barnsaldri til tíræðisaldurs, kom úr ýmsum áttum með nöfnuna, ömmuna og píanóleikarann Agnesi Löve í broddi fylkingar til að vera við frumsýninguna í Krefeld. Agnes stal senunni, fékk mesta klappið og bravóin – ekki bara frá raddsterkum Íslendingum.
Stekkur upp framastigann
Margir eru kallaðir en fáir útvaldir á listabrautinni og fyrstu tröppurnar í framastiganum eru að jafnaði þær hæstu. Nú er Agnes Thorsteins búin að stökkva upp og yfir þær tröppur. Hver verða næstu Wagnerhlutverk hennar? Elsa, Eva, Elísabet, Venus; svo að ekki sé minnst á Ísold, Sigurlind og Brynhildi?
Ég bíð spenntur.
Næstu sýningar
Það eru enn eftir sjö af alls níu sýningum á þessari uppfærslu og allar með Agnesi sem Sentu
Miða má fá á vefsíðunni https://theater-kr-mg.de/spielplan/der-fliegende-hollaender/
Þá má vísa á fésbókarsíðu Agnesar Thorsteins, sjálfrar: https://www.facebook.com/agnes.tanja
Þorkell Helgason