Athugasemdir við tillögur stjórnarskrárnefndar

Stjórnarskrárnefnd hefur kynnt tillögur sínar um breytingar á þremur meginþáttum í gildandi stjórnarskrá. Ég tel að endurskoða eigi stjórnarskrána í heild sinni á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs eins og 2/3 hluti þátttakenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 vildi. Engu að síður hef ég sent nefndinni erindi með umsögn, athugasemdum og betrumbótum á þessum tillögum.

Erindi mitt má kalla fram með því að styðja hér á heiti þess: Athugasemdir Þorkels Helgasonar við frumvarpsdrög stjórnarskrárnefndar

Meginatriði í athugasemdum mínum við frumvarpsdrög stjórnlaganefndar eru þessi:

Um þjóðaratkvæðagreiðslur

  • Ekki er gerður ágreiningur um að krafa um þjóðaratkvæðagreiðslu verði að koma frá a.m.k. 15% kosningabærra manna.
  • Sá fjögurra vikna frestur sem gefinn er til að skila undirskriftum er of skammur. Reifuð er málamiðlun í þeim efnum.
  • Takmarka ætti það tímarúm sem Alþingi hefur til að stöðva þjóðaratkvæðagreiðslu með afturköllun máls.
  • Því er andmælt að settur sé synjunarþröskuldur sem takmarki rétt kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslum. Til málamiðlunar er stungið upp á að lækka þröskuldinn úr 25% í 15% sem svarar þá til þess hlutfalls kjósenda sem þarf til að kalla eftir atkvæðagreiðslunni.
  • Bent er á að þess sé krafist að lög um útfærslu á þjóðaratkvæðagreiðslum þurfi að samþykkja með 2/3 hlutum atkvæða á Alþingi. Spurt er hvað gerist ef sá meiri hluti næst ekki? Lögð er til breyting á frumvarpsdrögunum sem tekur á þessum vanda.

Um umhverfisvernd

  • Hafðar eru af því áhyggjur hvort raunverulega sé verið að tryggja almannarétt til frjálsrar farar um landið.

Um náttúruauðlindir

  • Fagnað er því inngangsákvæði að „auðlindir náttúru Íslands [skuli] tilheyra íslensku þjóðinni“.
  • Bagalegt er að þjóðareignir skuli ekki skilgreindar í frumvarpstextanum.
  • Treysta verður því að með ákvæðum frumvarpsins séu tekin af öll tvímæli um að enginn getur fengið varanleg yfirráð yfir þjóðareignum.
  • Það býður heim deilum og túlkunum út og suður að hafa jafn loðið ákvæði í stjórnarskrá og „[a]ð jafnaði skal taka eðlilegt gjald fyrir heimildir til nýtingar auðlinda“.
  • Kallað er eftir því að stuðst verði við orðalag stjórnlagaráðs um „fullt gjald“ fyrir afnot af þjóðareignum en það um leið aðlagað sjónarmiðum nefndarinnar.
  • Sérstaklega er nefndin krafin svara um það hvort stjórnarskrárbreytingin festi hið umdeilda „gjafakvótakerfi“ í sessi. Minnt er á undirskriftir gegn makrílkvótafrumvarpinu á sl. vori.

 

Aðferðir við sameiginlegar ákvarðanir þings og þjóðar

[Lítilega endurskoðað í des. 2018]

Stjórnarskrárnefnd sú sem starfaði 2013-2016  skilaði tillögum um nokkrar mikilvægar breytingar á stjórnarskránni. Ein þeirra lýtur að því hvernig kjósendur geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um nýsamþykkt lög frá Alþingi. Þar er settur þröskuldur sem þannig er orðaður:

„Til þess að hnekkja lögum þarf meirihluti í þjóðaratkvæðagreiðslu, þó minnst fjórðungur [25%] kosningarbærra manna, að synja þeim samþykkis.“

Slíkt ákvæði um stuðningslágmark órökrétt og styðst ekki við nein viðmið. Hvers vegna ekki 20% eða 30%? Þar nægir ekki að segja að 25% hafi verið málamiðlun í nefndinni. Þá er ávallt sá galli á ákvæði sem þessu að það er verið að gera þeim sem heima sitja upp skoðanir, að þeir séu upp til hópa á annarri skoðun en þeir sem þátt taka. Vafasamt er að þessir kjósendur geri sér grein því hvernig í raun er verið að gera þeim upp skoðun.

Hugmynd um aðra aðferð til að tengja saman atkvæðagreiðslu á þingi og meðal þjóðarinnar hefur verið að þróast.  Hugsunin er sú að þeir sem taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni séu þar með að kalla til baka það umboð sem þeir hafa áður veitt þingmönnum í kosningum til Alþingis.  Hinir sem heima sitja séu aftur á móti sáttir við afstöðu þingmanna og það hvernig atkvæði féllu á Alþingi um málið. Kalla má þessa leið samþætta ákvörðun þings og þjóðar en hana má finna með því að styðja hér á þessa nafngift.

Hugmyndin er enn gerjun. Því væri höfundi fengur af málefnalegu áliti lesenda. Þeir eru því beðnir að hafa samband á netfanginu thorkellhelga@gmail.com

Tillögur stjórnarskrárnefndar birtar 19. febrúar 2016 í samanburði við tillögur stjórnlagaráðs (endurskoðað)

[Samanburðarskjalið sem hér er vísað til hefur verið snyrt og einfaldað nokkuð 21. feb. 2016, eftir ábendingar frá glöggum lesendum. Vinsamlega látið vita ef þið rekist á eitthvað sem betur má fara.]

Stjórnarskrárnefndin sem skipuð var 2013 hefur nú birt drög að þrennum breytingum á stjórnarskránni.
Hér er samanburður gerður á þessum tillögum og samsvarandi ákvæðum í tillögum stjórnlagaráðs, bæði þeim upphaflegu svo og eins og þær lágu fyrir eftir breytingar þær sem meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar gerði á þeim í meðförum þingsins á s.l. kjörtímabili. Frestur til að gera athugasemdir við frumvarpsdrögin er til þriðjudagsins 8. mars 2016. Athugasemdir sendist á netfangið postur@for.is.

 

Samanburður á tillögum stjórnarskrárnefndar (eins og þær lágu fyrir 20. jan. 2016) og stjórnlagaráðs, ásamt athugasemdum

[Endurskoðað 9. febrúar 2016.]

Stjórnarskrárnefndin sem skipuð var 2013 starfar mjög leynt. Þó hefur lekið út hvað hún er að bauka. Vísa ég þar til skjals sem Píratar hafa birt.
Hér er samanburður gerður á þessum tillögum og samsvarandi ákvæðum í tillögum stjórnlagaráðs, bæði þeim upphaflegu svo og eins og þær lágu fyrir eftir breytingar þær sem meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar gerði á þeim í meðförum þingsins á s.l. kjörtímabili.

Auk samanburðarins geri ég í fyrsta dálki skjalsins athugasemdir og spyr spurninga um þessar tillögur stjórnarskrárnefndarinnar.

Fólk er hvatt til að kynna sér málið! Látið mig líka vita ef þið hnjótið um einhver mistök í samanburðinum.