About Þorkell Helgason

Stærðfræðingur, ráðgjafi, fv. prófessor, ráðuneytisstjóri og orkumálastjóri, frambjóðandi til stjórnlagaþings, fv. fulltrúi í stjórnlagaráði

Um gagnrýni á ákvæði um þingkosningar í frumvarpi stjórnlagaráðs

Í minnisblaði til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis sendu 26. nóvember bregst ég við hluta þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið í erindum til þingnefndarinnar á ákvæði um þingkosningar í tillögum stjórnlagaráðs að endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Minnisblaðið hefur verið í vinnslu allt frá haustinu 2011 og var frágengið áður en núverandi hrina málins hófst, þ.e.a.s. þjóðaratkvæðagreiðslan 20. október s.l., vinna sérfræðingahóps þess sem skilaði af sér 12. nóvember s.l., frumvarp meirihluta stjórnskipunar og eftirlistnefndar og umræðu um það. Því er hér gengið út frá upphaflegum tillögum stjórnlagaráðs eins og þær eru birtar á þskj. nr. 3,140. lþ.

Þrátt fyrir að höfundur telji þá gagnrýni sem hér verður svarað um margt óréttmæta eða byggða á misskilningi telur höfundur tillögu stjórnlagráðs um fyrirkomulag kosninga til Alþingis ekki yfir gagnrýni hafna, og það þótt hann hafi átt aðild að tilurð hennar. Vonandi gefst tækifæri til að bæta hugmyndina nú þegar efnislega umræðan um málið er loksins hafin.

Minnisblaðið er þannig upp byggt að fyrst eru meginákvæði tillagnanna rifjuð upp en síðan er fjallað um gagnrýnina.

Helsta gagnrýnin sem brugðist er við er þessi:

  • Umsögn Ágústs Þórs Árnasonar og Skúla Magnússon til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, dags. 17. janúar 2012, dbnr. 909.
  • Erindi Hauks Arnþórssonar til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, dags. 18. nóvember 2011, dbnr. 232.
  • Athugasemdir sem fram komu í máli þingmanna við umræðu um frumvarpið 11. október 2011.

Þá skal bent á ítarefni sem ég hef tekið saman:

  • I. ítarefni um kosningar til borgarþinga í borgríkjunum Bremen og Hamborg. Nýtt kosningkerfi með ítarlegu persónukjöri og samblandi kjördæmis- og landskjörs var tekið upp 2011 og kosið eftir því þá um vorið. Vísað er til þessa ítarefnisskjals á stöku stað. Sjá http://thorkellhelgason.is/?p=1787.
  • II. ítarefni með kosningaákvæðum í stjórnarskrám Norðurlanda í samanburði við frv. stjórnlagaráðs og dæmi stjórnlaganefndar. Athyglisvert er hve mismunadi ítarleg ákvæðin eru. Sjá http://thorkellhelgason.is/?p=1792.
  • III. ítarefni er samantekt á spurningum og svörum um kosningakerfi stjórnlagaráðs. Þetta var hugsað handa almennum kjósendum en ætti að einhverju leyti líka að geta svarað hugsanlegum spurningum þingnefndarmanna. Sjá http://thorkellhelgason.is/?p=1802.

Erindið er að finna í heild í skjalinu Erindi Kosningagagnryni 26 nov 2012

 

 

Samanburður á tillögum stjórnlagaráðs og framlögðu frv. um nýja stjórnarskrá

Í eftirfarandi pdf-skjali er að finna samanburð á tillögum stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá og því frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands sem hefur verið lagt fram af meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis sem þingskjal 510, 415. mál á 141. löggjafarþingi 2012–2013. Þingmannafrumvarpið er samhljóða frumvarpsdrögum lögfræðingahóps sem þingnefndin fékk til að yfirfara tillögur stjórnlagaráðs.

Tínd eru til rök lögfræðinganna fyrir hverri breytingu. Ennfremur er sagt frá þeim ábendingum sem hópurinn gerði í skilabréfi um frekari breytingar á tillögum ráðsins.

Samanburður á frv. stjl.ráðs og lögfræðihóps II

(Ein afritunarvilla hefur verið leiðrétt á fyrri gerð skjalsins  hér á síðunni. Hnjóti lesendur um frekari mistök láti þeir vinsamlega vita með tölvupósti á netfangið thorkellhelga@gmail.com.)

Spurt og svarað um kosningaákvæðin í tillögum stjórnlagaráðs

Stjórnlagaráð leggur til gagngera breytingu á öllu fyrirkomulagi kosninga til Alþingis sem mælt verði fyrir um í stjórnarskrá. Tillagan birtist í 39. gr. frumvarps þess auk þess sem 43. gr. skiptir og máli í þessu samhengi.

Þessar tillögugreinar eru tíundaðar málsgrein fyrir málsgrein í meðfylgjandi skjali. Er þá stuðst við það orðalag sem fundur stjórnlagaráðsfulltrúa í mars 2012 bauð upp á sem valkost en efnisbreytingar eru engar frá fyrri gerð.

Undir hverri málsgrein er færðar fram spurningar sem fram hafa komið ím umræðunni um málið og síðan brugðist við þeim með svörum. Sjá III ítarefni SpurtOgSvaradKosningakerfiRadsins 31 okt 2012

Pistill þessi og meðfylgjandi skjal hefur birst áður á þessari vefsíðu (sjáhttp://thorkellhelgason.is/?p=1629 ) en er hér lítillega aukið og endurbætt.

 

Ákvæði um kosningar til þjóðþinga í stjórnarskrám Norðurlanda

Í eftirfarandi skjali er að finna kosningaákvæði í stjórnarskrám Norðurlanda í samanburði við frv. stjórnlagaráðs og dæmi stjórnlaganefndar. Athyglisvert er hve mismunadi ítarleg ákvæðin eru. Sjá II ítarefni Kosningakerfi Norðurlanda (augljós afritunarskekkja leiðrétt 3. des. 2012).

Um persónukjör í Bremen og Hamborg

Í þýsku borgríkjunum Bremen og Hamborg var lögum um kosningar til borgarþinga gjörbreytt fyrir kosningar á árinu 2011. Tekið upp mjög virkt persónukjör þar sem hver kjósandi fer með 5 krossa í hverri einstakri kosningu (í kjördæmi eða í landskjöri).  Áhrifin urðu umtalsverð, þannig að fjarri fór að allir þeir hafi náð kjöri sem skipuðu vinningssæti flokkanna.  Ýmsir gallar eru þó á kerfunum sem væri auðvelt að laga.

Þessu öllu er nánar lýst í þessu skjali: I ítarefni BremenHamburg 31 okt 2012

Stefnum áfram en verum hvorki tapsár né sigurglöð

[Birtist í Fréttablaðinu 23. október 2012.]

Þjóðaratkvæðagreiðslan um stjórnarskrármálið er afstaðin. Þá hefst illu heilli hið íslenska karp um hver sigraði og hver tapaði. Sumir berja sér á brjóst og segja sinn málstað hafa sigrað, jafnvel sinn flokk, eða eru tapsárir og vilja ekki una þeim skilaboðum sem felast í úrslitum kosninganna. Mál er að slíku linni.

Þjóðaratkvæðagreiðslan sýnir ótrúlega mikla samstöðu þjóðarinnar ekki síst ef úrslitin eru borin saman við þá einu skoðanakönnun sem gerð var á undan atkvæðagreiðslunni. Það gerði MMR sl. vor og niðurstöðurnar voru nánast þær sömu og fengust á laugardaginn. T.d. voru 66,9% þeirra sem afstöðu tóku í þjóðaratkvæðagreiðslunni sammála því að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar frumvarpi að breyttri stjórnarskrá en hjá MMR var hlutfallið 66,1%. Munurinn er langt innan skekkjumarka. Í öðrum spurningum voru jáyrðin í skoðanakönnuninni nokkru eindregnari en þau voru í þjóðaratkvæðagreiðslunni (þó var ekki marktækur munur í kirkjuspurningunni). Ekkert verður hér fullyrt en þó bendir þetta vart til annars en að þeir sem heima sátu hafi verið hinum sem greiddu atkvæði næsta sammála. Þetta má allt lesa úr meðfylgjandi súluriti.

Súlurit     [Myndtexti gerður skýrari 24. okt. 2012.]

Að mati undirritaðs voru skilaboð þjóðarinnar nógu skýr til að Alþingi getur nú lokið málinu „á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs“ eins og 2/3 kjósenda vilja. En það þarf að halda vel á spöðunum. Breyta þarf kirkjuskipunarákvæðinu í tillögum stjórnlagaráðs, herða á lögfræðingahópnum sem er að yfirfara tillögurnar í heild, yfirfara hvað er réttmætt í umsögn lögmannafélagsins og kanna aðrar ábendingar um lagfæringar sem fram hafa komið og byggja á rökum en ekki skætingi. Það ætti líka að gaumgæfa hvað veldur því að í tveimur kjördæmum fékk spurningin um jafnt vægi atkvæða ekki meirihlutafylgi. Var það vegna þess að viðkomandi ákvæði í tillögum stjórnlagaráðs eru óljós eða þeim ábótavant? Eða var það vegna þess að nokkrir þeir sem taldir eru sérfræðingar í lýðræðismálum misskildu ákvæðin á opinberum vettvangi? Þá þarf að upplýsa betur. Það er því mikið verkefni fram undan. Þar reynir á Alþingi og sérnefnd þess sem fjallar um stjórnarskrármál.

Bera verður fullbúna endurskoðaða stjórnarskrá undir þjóðina undir lokin, helst samtímis þingkosningum að vori. Þá verður þátttaka meiri en var nú og keppikefli allra hlýtur að verða að þá náist ekki minni stuðningur við breytta stjórnarskrá en sl. laugardag. Við erum fámenn þjóð og verðum að ná sem mestri samstöðu um öll meginmál.

Úrslitin einhlít

[Skrár sem vísað er í voru leiðréttar 23. okt. 2012 kl 20, en já og nei hafði víxlast í svörum við 3. spurningu, um þjóðkirkjuna í könnun MMR. Skrifast á reikning ÞH.]

Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslan um stjórnarskrármálið liggja nú fyrir og hef ég dregið tölurnar saman á meðf. Excel-skjali, enda þótt ekki séu alveg öll kurl komin til grafar; sjá gullitaðar athugasemdir.

Úrslit þjóðaratkv.greiðslu 20 10 2012

(Smellið á bláu skrána hér í næstu línu fyrir ofan. Hún kann að birtst sem Excel-auðkenni neðst í vefsíðuglugganum. Þá þarf að smella á hana aftur þar.)

Þjóðaratkvæðagreiðslan sýnir ótrúlega mikla samstöðu þjóðarinnar ekki síst ef úrslitin eru borin saman við þá einu skoðanakönnun sem gerð var á undan atkvæðagreiðslunni. Það gerði MMR s.l. vor og niðurstöðurnar voru nánast þær sömu og fengust á laugardaginn. Sjá könnunin: http://mmr.is/frettir/birtar-nieurstoeeur/249-tveir-trieju-styeja-tilloegur-stjornlagaraes

Þennan samanburð má sjá á flipanum “Súlurit” í Excel-skjalinu:

Súlurit

T.d. voru 66,9% þeirra sem afstöðu tóku í þjóðaratkvæðagreiðslunni sammála því að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar frumvarpi að breyttri stjórnarskrá en hjá MMR var hlutfallið 66,1%. Munurinn er langt innan skekkjumarka. Í öðrum spurningum voru jáyrðin í skoðanakönnuninni nokkru eindregnari en þau voru í þjóðaratkvæðagreiðslunni (þó var ekki marktækur munur í kirkjuspurningunni). Ekkert verður hér fullyrt en þó bendir þetta vart til annars en að þeir sem heima sátu hafi verið hinum sem greiddu atkvæði næsta sammála.

 

Stjórnarskrárumbætur: JÁ tryggir framhald, NEI leiðir til kyrrstöðu

Umræða á Alþingi í gær um þjóðaratkvæðagreiðsluna um stjórnarskrármálið var afar mikilvæg og tímabær. Þar kom skýrt fram hjá forsætisráðherra svo og formanni þeirrar þingnefndar, sem fer með stjórnarskrármálið, að Alþingi mun taka tillögur stjórnlagaráðs til efnislegrar meðferðar eins og vera ber.

Tillögur stjórnlagaráðs eru afrakstur mikillar vinnu, ekki aðeins ráðsins sjálfs heldur í öllu því sem á undan er gengið, stjórnarskrárnefndar en ekki síst þjóðfundar. Engu að síður má bæta tillögurnar með nokkurri yfirlegu. Það á Alþingi að gera. Því var lýst yfir í gær.

Stóra spurningin í atkvæðagreiðslunni á morgunn er sú fyrsta; hún er um það hvort tillögur stjórnlagaráðs eigi að vera grundvöllur handa Alþingi til að byggja á og ljúka málinu. Forsætisráðherra sagði jafnframt að kjósendur ættu síðan að fá að leggja blessun sína yfir endanlega gerð endurbættrar stjórnarskrár í atkvæðagreiðslu samhliða næstu þingkosningum.

JÁ við fyrstu spurningunni er hvatning til Alþingis að halda málinu áfram á þessum grundvelli.

NEI mun því miður leiða til kyrrstöðu, til þess að stjórnarskrármálið fari aftur á byrjunarreit þar sem það hefur verið í nær sjö áratugi.

Hver svo sem úrslitin verða er þess óskandi að málið komist upp úr skotgröfum flokkanna og þingmenn leggi sig sameiginlega fram um að ljúka málinu fyrir næstu þingkosningar.

Treystum kjósendum til að velja sér góða þingmenn!

 

Í umræðu gætir einatt misskilnings um tillögur stjórnlagaráðs um það hvernig kjósa skuli til Alþingis. Kjarni tillagnanna er einfaldur:

  • Flokkar velja frambjóðendur á lista, allt eins og verið hefur.
  • Listar eru ýmist kjördæmislistar eða landslistar. Sami frambjóðandi má vera á báðum stöðum.
  • Hver kjósandi fer með eitt atkvæði sem hefur sama vægi alls staðar á landinu. Hann getur varið því til að merkja við listabókstaf eða valið frambjóðendur með persónukjöri.
  • Þannig getur kjósandinn krossað annað hvort við einn kjördæmis- eða einn landlista, eins og nú, og leggur þá alla frambjóðendur á listanum að jöfnu.
  • Eða hann getur tekið þátt í persónukjöri og merkt við einn eða fleiri frambjóðendur á kjördæmis- eða landslista þess flokks sem hann vill styðja. Hann má tína til frambjóðendum ýmist af kjördæmis- eða landslistanum eða af báðum. Alþingi getur gengið lengra og heimilað kjósendum að velja frambjóðendur þvert á flokka.
  • Flokkarnir fá sín sæti og engar refjar á grundvelli allra atkvæða á landinu, hvort sem þau eru greidd listum hans beint eða skipt upp á milli einstakra frambjóðenda hans. Það mun því ríkja fullur jöfnuður á milli flokkanna, sem er engan veginn tryggt í núverandi kerfi.
  • Þeir frambjóðendur ná kjöri í sæti síns flokks sem njóta mest stuðnings í persónukjörinu hvort sem það er vegna merkinga á kjördæmis- eða landslistum.

Gagnrýni á þetta fyrirkomulag byggir í meginatriðum á því að kjósendum er vantreyst; að þeir kunni ekki að verja atkvæði sínu. Einhvern veginn á allt fara í vaskinn ef kjósandi skyldi sjá atkvæði sínu vel varið með því að víkja frá kjördæmislistum og styðja landslista síns flokks eða merkja við einhverja þá frambjóðendur sem þar er að finna. Er það þá ekki frjáls ákvörðun kjósandans sjálfs? Er löggjafinn þess umkominn að hafa vit fyrir kjósandanum?

Á síðustu öld voru einatt skörungar í framboði á Vestfjörðum, svo að dæmi sé tekið. Margir þeirra hefðu efalaust líka boðið sig fram á landslistum ef þess hefði verið kostur og hiklaust fengið mikinn stuðning „að sunnan“.

Flokksforingjar verða efalaust í boði á landslistum undir nýju kerfi. Dettur þá einhverjum í hug að kjósendur á landsbyggðinni sem merkja við þá séu að „svíkja“ kjördæmi sitt? Þvert á móti eru þeir að leggja áherslu á að foringjarnir hugsi nú um þá ekki síður en höfuðborgarbúana.

Stjórnlagaráð bíður engu að síður upp á svokallaða „kjördæmavörn“ í tillögum sínum. Alþingi má í kosningalögum tryggja að viss lágmarksfjöldi þingmanna verðin að koma af kjördæmislistum. Þannig mætti tryggja landsbyggðarkjördæmunum allt að 23 þingsæti beint af kjördæmislistum þótt það kunni að ganga að nokkru á svig við persónukjörið. Vonandi þarf ekki að beita þessu ákvæði þegar í ljós er komið að kjósendur vita fullvel hvað þeir eru að gera í kjörklefanum.

Kosningakerfið í tillögum stjórnlagaráðs er ekki að fullu útfært. Það á að sjálfsögðu að gera í kosningalögum, en kerfinu er settur rammi í tillögum ráðsins.

Meginsjónarmiðið er að hverjum kjósanda er treyst fyrir atkvæði sínu.

EKKI kjósa – eða hvað?

 [Birtist í Fréttablaðinu 18. október 2012.]

Þjóðaratkvæðagreiðslan laugardaginn 20. október snýst um sjálfa stjórnarskrána, grunnlög landsins. Með góðri þátttöku veita kjósendur Alþingi trausta leiðsögn um hvert stefna skuli í stjórnarskrármálinu.

Atkvæðagreiðslan snýst um tillögur stjórnlagaráðs um gagngerar endurbætur á stjórnarskrá lýðveldisins, EKKI um neitt annað:

  • Hún snýst EKKI um það hvort ríkisstjórnin sé góð eða slæm.
  • Hún er HVORKI til að þóknast Jóhönnu NÉ til að storka forsetanum, eða öfugt.
  • Hún er EKKI tæki til að mæla fylgi stjórnmálaflokkanna, til þess gefst tækifæri í vor.
  • Hún snýst EKKI um það hvort Evrópusambandið sé friðarbandalag eða ekki.
  • Hún er EKKI tilefni til að ergja sig yfir því sem er á undan gengið, hvort sem er ógilding stjórnlagaþingskosningarinnar eða málsmeðferðin á Alþingi.
  • Hún snýst EKKI um persónur þeirra sem sátu í stjórnlagaráði; þeim hvorki til lofs né lasts.

Viðfangsefnið er einungis og alfarið efni tillagna stjórnlagaráðs auk fimm álitamála í því sambandi.

Mörgu er ranglega haldið fram um hvað felst í tillögum ráðsins:
Í tillögunum er ekki kveðið á um inngöngu í Evrópusambandið. Þvert á móti eru þar ákvæði sem tryggja að slík ákvörðun verður aðeins tekin af þjóðinni sjálfri í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

  • Það er EKKI verið að vega að landsbyggðinni með því mannréttindaákvæði að allir hafi jafnan atkvæðisrétt. Þvert á móti eru settir varnaglar í kosningakerfið til að tryggja landsbyggðinni eðlilega tölu fulltrúa á þingi. Um leið er í fyrsta sinn kveðið á um að ákvarðanir skuli eftir föngum teknar í heimabyggð.
  • Það er EKKI verið að gera atlögu að flokkunum með persónukjörstillögum ráðsins. Flokkarnir eiga og munu eftir sem áður vera máttarstólpar lýðræðisins m.a. með því að tilnefna þá frambjóðendur sem kjósendum bjóðast.
  • Það er EKKI verið að rýra þingræðið enda þótt þjóðin sjálf fái aukin tækifæri til að grípa inn í lagasetninguna. Þvert á móti eru ákvæði sem efla Alþingi til mótvægis við framkvæmdarvaldið.
  • Það er EKKI verið að bylta uppbyggingu samfélagsins. Þvert á móti eru stoðir þess styrktar með skýrari skiptingu valdþáttanna.
  • Það er EKKI verið að koma á forsetaræði að franskri eða amerískri mynd. Þvert á móti er vald forsetans og verksvið hans afmarkað með skýrum hætti og honum falið eftirlits- og aðhaldshlutverk, að vera öryggisventill ef í óefni stefnir. En vissulega veldur hver á heldur.
  • Það er EKKI verið að koma á ríkisrekstri í sjávarútvegi, eins og heyrst hefur. Þvert á móti er frelsi til athafna óskert að virtum sanngjörnum reglum.
  • Það er EKKI verið að leggja þjóðkirkjuna niður, hvað þá að víkja frá kristnum grunngildum. Þvert á móti eru sjónarmið miskunnsama Samverjans leiðarljós í bættum ákvæðum um félagsleg mannréttindi.

Fyrsta og um leið meginspurningin á atkvæðaseðlinum á laugardaginn er sú hvort leggja skuli tillögur ráðsins til „grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá“.

Já við þessari grunnspurningu felur ekki í sér samþykkt á endanlegri gerð nýrrar stjórnarkrár. En jáyrði vísar Alþingi veginn um framhaldið. Þingið verður í kjölfarið að bregðast við niðurstöðunum um álitamálin fimm, við áliti lögfræðingahóps um nauðsynlegar lagfæringar en líka við þeim ábendingum öðrum sem fram hafa komið og til bóta horfa.

Jáyrði við meginspurningunni felur ekki í sér kröfu um að Alþingi breyti engu í tillögum stjórnlagaráðs heldur þvert á móti áskorun um að vinna málið áfram á uppbyggjandi hátt, en á „grundvelli“ tillagnanna.
Að þessu sögðu mæli ég með eftirfarandi hrinu svara við spurningunum sex:

Já – Já – Nei – Já – Já – Já.

En umfram allt, tökum þátt í mótun samfélagssáttmálans og skundum á kjörstað 20. október.