by Þorkell Helgason | jan 18, 2019 | Á eigin vefsíðu
Ég hef verið viðriðin kosningamál allt frá árinu 1982; fyrst sem stærðfræðilegur ráðgjafi við endurskoðun ákvæða um kosningar til Alþingis, bæði á árabilinu 1982-87 og aftur um og fyrir s.l. aldamót. Jafnfram hef ég liðsinnt landskjörstjórn við úthlutun þingsæta í öllum kosningum frá og með þeim árið 1987 til og með þeirra 2013.
Þegar ég af aldurssökum hætti að þjónusta landskjörstjórn eftir þingkosningarnar 2013 sendi ég henni e.k. kveðjubréf sem mig langar að halda til haga einmitt nú (2019) þegar endurskoðun kosningalaga stendur fyrir dyrum. Bréfið var þannig:
Til landskjörstjórnar.
Ég hóf afskipti af kosningamálum haustið 1982 en þá varð e.k. ráðgjafi flokksformanna sem þá voru að undirbúa breytingu á ákvæðum um kosningar til Alþingis. Síðan 1987 hef ég verið ráðgjafi landskjörstjórnar við úthlutun þingsæta. Nú er mál að linni og búið er að finna traustan eftirmann minn. Að vísu vænti ég þess að geta lokið mínu starfi með heildargreiningu á kosningaúrslitunum eins og ég hef gert á þrennum síðustu þingkosningum.
Ég vil með bréfi þessum þakka landskjörstjórn, fyrr og síðar, fyrir einkar ánægjulegt samstarf. En jafnframt vil ég með bréfinu hvetja til að allt fyrirkomulag kosninga verði tekið til endurskoðunar. Þar er ekki átt við hina pólitísku þátta málsins heldur um framkvæmdina alla. Kosningalög hafa ekki verið endurskoðuð í heild um afar langa hríð. Að hluta til má rekja ákvæðin öld aftur í tímann, jafnvel lengur.
Ég hef kynnt mér erlendar fyrirmyndir og ráðleggingar alþjóðastofnana og er eindregið þeirrar skoðunar að það eigi að vera einn lagabálkur um allar kosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur, en vitaskuld með sérákvæðum um einstakar kosningar. Mikilvægur þáttur í þeim lögum ætti að vera að styrkja stöðu landskjörstjórnar og koma húsbóndavaldinu á eina hönd, hjá landskjörstjórn. Af erlendum fyrirmyndum vil ég sérstaklega benda á slík heildarkosningalög í Noregi.
Í kjölfar endurskoðunar er síðan brýnt að endurskoða allt gagnaflæði og gagnvinnslu og fella þetta saman í eitt kerfi. Á meðf. fylgiskjali, „Gagnaflæði við þingkosningar 2013“ , er þetta sýnt fyrir nýliðnar kosningar.
Eitt markmiða með endurbættu fyrirkomulagi og heilstæðu gagnakerfi ætti að vera að lækka kostnað við kosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur, enda viðbúið að þeim muni fjölga á komandi árum.
Enda þótt formlegu starfi mínu fyrir landskjörstjórn sé að ljúka er ég reiðubúinn til að ljá þessum endurbótum lið, sé eftir því óskað.
Virðingarfyllst,
(sign. Þorkell Helgason)
by Þorkell Helgason | jan 15, 2019 | Á eigin vefsíðu
Ég hélt erindi (sem má finna með því að smella hér í málstofu í stærðfræðideild Tækniháskólans í München hinn 14. janúar 2019 undir heitinu “Bidimensional Election Systems: Apportionment methods in theory and practice”.
Erindið fjallaði um það sem ég og félagar mínir hafa lengi verið að bauka við, það stærðfræðilega viðfangsefni að úthluta þingsætum þegar úthlutunin er bundin í báða skó: Kjördæmin verða að fá sín sæti og engar refjar en flokkarnir sæti í samræmi við landsfylgi.
Þetta er hvergi nærri einfalt viðfangsefni. Þó er til ein, en aðeins ein, gerð úthlutana sem uppfyllir eðlilegar lágmarks gæðakröfur; svo sem að það má aldrei koma fyrir að listi fái fleiri sæti fækki atkvæðum hans; eða öfugt. En þetta getur gerst í flestum raunverulegum kosningakerfum, t.d. því sem er í kosningalögum á Íslandi.
Aðferðafræðin sem skilar hinni fullkomnu úthlutun þykir löggjafanum væntanlega of flókin. Þó er hún notuð í sumum kantónukosningum í Sviss. Því höfum við í svonefndum “Kosningafræðiklúbbi” verið að hugsa upp góðar nálgunaraðferðir og þróa hermilíkön til prófunar á kosningakerfum. Um þetta fjallaði erindi mitt.
Áheyrendur voru um fimmtán; stærð- og tölvunarfræðingar, bæði kennarar og doktorsnemar úr viðkomandi deildum Tækniháskólans, en hann er sá fremsti í Þýskalandi og þó víðar væri leitað. Það var gagnlegt að eiga skoðanaskipti við þessa sérfræðinga.
by Þorkell Helgason | nóv 6, 2018 | Á eigin vefsíðu
Sambandslýðveldið Þýskaland skiptist upp í 16 fylki („lönd“ á þýsku), mjög mismunandi fjölmenn, eða frá 700 þús. íbúum til 18 milljóna. Fylkin fara með mörg mál, sem ekki eru beinlínis á könnu Sambandsþingsins eða sambandsstjórnarinnar í Berlín. Því hefur hvert fylkjanna eigið þing (landsþing) og ríkisstjórn með grundvöll í eigin stjórnarskrá. Þessar stjórnarskrár voru flestar settar strax eftir seinni heimstyrjöld og eru því eldri en grunnlög (stjórnarskrá) sjálfs sambandsríkisins sem eru frá 1949.
Hessen er fimmta fjölmennasta fylkið í Þýskalandi með rúmlega sex milljónir íbúa og er þar með fjölmennari en hvert Norðurlandanna utan Svíþjóðar. Hinn 28. október 2018 fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um 15 breytingar eða viðbætur við stjórnarskrá fylkisins. Ein þessara stjórnarskrárbreytinga laut að ákvæðum um frumkvæðisrétt kjósenda. Meginbreytingin er sú að lækka það lágmarkshlutfall kjósenda sem þarf til að þeir geti lagt fram lagafrumvarp og krafist þjóðaratkvæðagreiðslu þar um. Lágmarkið var 20% en lækkar í 5%.
Ákvæðunum um lagafrumvæði kjósenda, hvort sem er breyttum eða óbreyttum, svipar mjög til samsvarandi ákvæða í tillögum Stjórnlagaráðs frá 2011 og því áhugaverð fyrir Íslendinga.
Þá má benda á til fróðleiks að stjórnarskráin í Hessen telur 161 grein en í tillögum Stjórnlagaráðs eru þær 116 sem sumum þótti drjúgt!
Stjórnarskrárbreytingarnar voru allar samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslunni með 70-90% stuðningi þeirra sem afstöðu tóku, þ.m.t. sú sem hér er fjallað um, en 86,3% kjósenda guldu henni jáyrði sitt. Kosningaþátttaka var nokkuð góð, en 67,1% kjósenda tóku þátt atkvæðagreiðslu um umrædda spurningu.
Í opinberum gögnum frá Hessen er aðeins gerð grein fyrir innbyrðis skiptingu jáa og neia. Auð eða ógild atkvæði koma þar að sjálfsögðu ekki við sögu. Þetta er öndvert við það sem landskjörstjórn og Hagstofan gáfu upp um þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október 2012 um stjórnarskrármálið. Þar var – í fyrstu a.m.k. – tekið upp það nýmæli að telja auð og ógild atkvæði til gildra atkvæða!; sjá https://thorkellhelgason.is/?p=2065.
Í þessu samhengi má rifja upp þá gagnrýni, sem fram kom frá fræðimönnum við íslensku háskólana á tillögur Stjórnlagaráðs, ekki síst á þau ákvæði sem lúta að umræddu beinu lýðræði, þ.e.a.s. 65.-67. gr. í frumvarpstexta ráðsins. Í íslenskum sið var fullyrt að „svona þekktist hvergi“; ja, kannski í Sviss. En ákvæðin í stjórnarskrá Hessen eru nauðalík þeim í tillögum Stjórnlagaráðs.
Í samanburðartöflu er gerð grein fyrir ákvæðunum um lagafrumkvæði kjósenda í stjórnarskrá Hessen í samanburði við hliðstæð ákvæði í tillögum Stjórnlagaráðs. Þá fylgir í síðasta dálki eigin umsögn og er þá ítrekað hversu lík ákvæðin eru hjá Stjórnlagaráði og þau í Hessen.
Jafnframt er neðar í töflunni farið yfir ákvæðin í Hessen og í tillögum Stjórnlagaráðs um það hvernig stjórnarskrá verði breytt.
by Þorkell Helgason | okt 31, 2018 | Á eigin vefsíðu
Höfundur hefur á liðnum árum ritað skýrslur þar sem greind eru úrslit og úthlutun þingsæta í kosningum til Alþingis á þessar öld. Slíkar skýrslur um kosningarnar 2003, 2007, 2009 og 2013 voru unnar fyrir landskjörstjórn.
Nú hefur höfundur (á eigin ábyrgð) bætt við skýrslum um kosningarnar 2016 og 2017 en einnig stutt gerð með nokkrum lykilatriðum.
Greiningarskýrslurnar í heild er að finna hér:
Í skýrslunum eru dregnir fram ágallar á úthlutunaraðferðinni í gildandi kosningalögum:
- Jöfnuður milli þingflokka er engan veginn tryggður, enda náðist hann ekki í neinum af þrennum síðustu kosningum; hvorki 2013, 2016 né heldur 2017.
- Smávægilegar breyting á fylgi eins lista getur leitt til mikils hringlanda í skiptingu þingsæta milli annarra lista.
- Aðferðin getur leitt til nykurs, getur leitt til „nykurs“, þ.e.a.s. að atkvæðaaukning lista getur haft för með sér fækkun sæta eða öfugt minnki fylgið. Þetta fyrirbæri má finna bæði í niðurstöðum kosninganna 2009 og 2017.
Því þarf að taka upp betri aðferð við úthlutun jöfnunarsæta. Ein slík er „forgangsregla“ sem er nær oftast að finna þá úthlutun sem er fræðilega best í vissum, skilgreindum skilningi.
by Þorkell Helgason | okt 8, 2018 | Á eigin vefsíðu
Í þingkosningunum fer hluti atkvæða forgörðum vegna ákvæða um þröskuld, um lágmarksfylgi við úthlutun jöfnunarsæta, en flokkur á ekki rétt á slíkum sætum fái hann ekki a.m.k. 5% gildra atkvæða á landinu öllu. Sérstaklega voru áhrif þessa áberandi í kosningunum 2013. Við þessu má sjá með því að kjósendum verði gert kleift að tilgreina flokk til vara þannig að atkvæði þurfi ekki að daga uppi áhrifalaus nái sá flokkur er hann helst kýs ekki tilskildu lágmarksfylgi. Reifuð er útfærsla á slíku fyrirkomulagi í pistlinum „Þröskuldur með sveigjanleika“.